Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 22:19:51 (3358)

1997-02-11 22:19:51# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[22:19]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Þetta hafa verið á margan hátt fróðlegar umræður sem hafa staðið alllengi um þetta mikilvæga mál sem er breyting á lögum um Landsvirkjun. Og sannast sagna hefur málið tekið nokkrum breytingum a.m.k. hvað umræðuna áhrærir frá þeim tíma sem það var fyrst kynnt. Fyrst var þetta mál gert heyrinkunnugt á blaðamannafundi þar sem því var lýst sem miklum tímamótasamningi sem gerður hefði verið á milli eigenda Landsvirkjunar, þ.e. Reykjavíkurborgar, ríkisins og Akureyrarbæjar, en út í frá þá verð ég að játa að þetta leit út þannig að hér væri ekki bara um að ræða samkomulag, heldur huggulegt samkomulag þar sem eigendur hefðu komið sér saman um að greiða hver öðrum hlutdeild úr arði Landsvirkjunar og síðan kosið að kynna þetta með þessum hætti fyrir þjóðinni. Þannig leit þetta út í upphafi og var mikil áhersla lögð á það, sérstaklega af talsmönnum Reykjavíkurborgar að hér væri miklum áfanga náð. Hér hefði það tekist úr því að ekki var hægt að nauðga ríkinu til þess að kaupa hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun að þá hefði a.m.k. tekist að búa til þarna samkomulag, eigendasamkomulag, um það að herja út arð af þessari miklu eign sem borgin hefði fjármagnað með eigandaframlagi sínu. Þannig var þetta líka hugsað í 2. gr. frv. Þar er beinlínis gert ráð fyrir því og gengið út frá því að þessi arður miðist við tiltekin eigendaframlög sem síðan yrðu framreiknuð með tilteknum hætti og út frá því fundin aðferð við að greiða út arð, allt eftir ákveðnum formúlum og reglum sem miðuðust við það að í fyrstu greiðist ekki út nema hluti af þessum arði, hinn hlutinn fari til þess að styrkja, ef ég hef skilið rétt, innri stoðir fyrirtækisins sem út af fyrir sig er ágætis sjónarmið en að öðru leyti fari þetta allt eftir ákveðnum reglum.

Það var einmitt þetta, virðulegi forseti, sem ég nefndi aðeins í máli mínu þegar ég gerði grein fyrir afstöðu minni til þessarar greinar fyrr í dag en ég hef ekki haft aðstöðu til þess, því miður, að vera viðstaddur umræður, hvorki 1. né 2. umr. um þetta mál vegna þess að ég hafði lögmætar fjarvistir í bæði skiptin og gat þess vegna því miður ekki tjáð mig um þessi mál þá. En það var einmitt þetta atriði sem gerði það að verkum að ég treysti mér ekki í dag til að greiða atkvæði með 2. gr. þó að ég teldi mjög margt í málinu hafa skýrst og færst til betra horfs miðað við það sem mér fannst í upphafi. Það er einmitt þessi hugsun að eiginfjárstaða Landsvirkjunar hafi orðið til með einhverju eigandaframlagi sem síðan sé eðlilegt að reikna arðsemi út frá eða arðgreiðslur út frá. Því það er ekki hægt að horfa fram hjá því að þetta fyrirtæki, Landsvirkjun, hefur verið að byggja sig upp fyrst og fremst með lánsfé. Þetta fyrirtæki hefur haft sérstaka aðstöðu að því leytinu að það hefur haft einokunaraðstöðu til virkjunarframkvæmda og getað nánast þar af leiðandi ráðið mjög verðlagningu sinnar afurðar, þ.e. orkunnar. Og það er enginn vafi á því að í skjóli þess hefur fyrirtækinu fyrst og fremst tekist að byggja upp þessa sterku eiginfjárstöðu sína. Um þetta þurfum við í sjálfu sér ekkert að deila, virðulegi forseti, vegna þess að um þetta hafa tjáð sig menn sem eru þessu máli gjörkunnugir, menn á borð við Kristján Haraldsson, orkubússtjóra Orkubús Vestfjarða, sem segir í umsögn orkubúsins um þetta mál, með leyfi forseta:

,,Landsvirkjun hefur í skjóli einokunaraðstöðu á orkuvinnslusviðinu getað haldið uppi gjaldskrá sem hefur legið langt fyrir ofan langtímajaðarkostnað orkuverðs frá nýjum virkjunum (nú tæpum 50% hærri) og er það hin raunverulega ástæða fyrir mjög hraðri eignamyndun fyrirtækisins og góðri stöðu þess.``

Svipað segir raunar líka í umsögn Hitaveitu Suðurnesja sem Júlíus Jónsson forstjóri undirritar og er engin ástæða í sjálfu sér til þess að endurtaka hér.

Þetta kemur líka heim og saman við svar sem ég fékk á sínum tíma á 115. löggjafarþingi frá þáv. hæstv. iðnrh. þar sem ég spurði nokkurra spurninga um Landsvirkjun þar sem m.a. kemur fram að á sama tíma og tekjurnar fóru minnkandi á árunum 1988-- 1991 úr 7,2 milljörðum á þágildandi verðlagi í 5,9 milljarða, þá jukust fjárfestingar fyrirtækisins ár frá ári. Voru 1,7 milljarðar 1988, 2,7 milljarðar 1989, 4,2 milljarðar 1990 og 4,4 milljarðar 1991. Á þeim tíma vöktu þessar upplýsingar mjög mikla furðu mína og ég tjáði mig um það á þeim tíma en engu að síður tókst Landsvirkjun með minnkandi tekjum að byggja upp bætta eiginfjárstöðu, styrkja stöðu sína, og það er augljóst mál og sést á þessum tölum að það geta menn ekki gert þegar fyrir liggur að þessi fjárfesting fer fram á grundvelli lánveitinga. Eins og fram kemur í áliti orkubússtjóra Orkubús Vestfjarða og forstjóra Hitaveitu Suðurnesja gerist það fyrst og fremst vegna þess að gjaldskránni er haldið þetta miklu hærri en nemur langtímajaðarkostnaði og er þetta miklu hærri heldur en eðlilegt hefði verið að öðru leyti.

Hitt atriðið sem vakti með manni nokkrar spurningar þegar þetta fræga samkomulag var gert heyrinkunngt milli eigenda Landsvirkjunar var spurningin: Hver verða áhrifin á orkuverðið? Því allt snýst þetta um það hver áhrifin eru á orkuverðið svo ráðandi þáttur sem þetta er nú um afkomu fólks vítt og breitt um landið og ekki síst á hinum svokölluðu köldu svæðum þar sem orkukostnaðurinn er sligandi og allt of lítið hefur miðað í því að lækka þennan kostnað. Ég tel að það mál hafi talsvert skýrst í umræðunni hér í þinginu, a.m.k. var það svo að við lestur bókunar þeirrar sem dagsett er 10. febr. 1997 og undirrituð er af borgarstjóranum í Reykjavík, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Jakobi Björnssyni bæjarstjóra á Akureyri og hæstv. iðnrh. þá sýnist mér að þessi mál gerð séu gerð mjög skýr. Í fyrsta lagi er gengið út frá því að raunverð orkunnar frá Landsvirkjun til aldamóta muni ekki breytast. (Gripið fram í: Ekki lækka.) Ekki lækka, ja, ekki breytast. Raunverðið verður óbreytt til aldamóta. Síðan muni það gerast frá og með árinu 2001 að á næsta áratug verði um að ræða árlega raungildislækkun upp á 2--3% frá árinu 2001 og næsta áratug ef ég hef skilið þetta rétt.

Nú geta menn velt fyrir sér hvernig þetta komi heim og saman, annars vegar þetta arðgreiðslumarkmið sem klárlega kemur fram í samningi eigenda Landsvirkjunar og hins vegar þetta markmið um lækkun orkuverðsins. Og þess vegna var það mjög þýðingarmikið að þessi bókun eigenda Landsvirkjunar var gerð sem ég tel að sé í senn bókun og skýring á því samkomulagi sem að baki liggur. (HG: Ekki mjög skýr.) Vegna þess að ef maður les þetta bókstaflega þá er þetta, hv. þm., mjög skýrt. Og nú ætla ég, með leyfi virðulegs forseta, að lesa þetta:

,,Núverandi samkomulag ríkisstjórnar Íslands, Reykjavíkurborgar og bæjarstjórnar Akureyrar felur í sér málamiðlun um arðgreiðslur til eigenda.`` --- Það gefur til kynna að einhver eigendanna hafi gjarnan viljað að þessar arðgreiðslur væru hærri og það liggur fyrir í allri þessar umræðu og þarf ekkert að deila um það hver það var sem sótti á. Það var Reykjavíkurborg sem vildi sem vildi sem eigandi fyrirtækisins fá sem hæstar arðgreiðslur til sinna nota, hafði af því augljósa hagsmuni. (Gripið fram í: Eða selja.) Eða selja eins og var reyndar upphafleg meining, hafði af því augljósa hagsmuni að hafa af þessu fyrirtæki sínu sem mestar tekjur. Og þess vegna var það málamiðlun sem hér var náð. --- Og enn skal nú haldið áfram lestrinum, virðulegi forseti: ,,Sammæli er um að það sé forgangsverkefni að raunverð á raforku geti lækkað eftir aldamót með þeim hætti sem samkomulagið gerir ráð fyrir.`` Og það verður auðvitað að lesa þetta eins og ég las: ,,Sammæli er um að það sé forgangsverkefni að raunverð á raforku geti lækkað eftir aldamót með þeim hætti sem samkomulagið gerir ráð fyrir.``

Þetta sýnist mér vera ákaflega skýrt, virðulegi forseti. Það er verið að vísa til þess að það sé forgangsverkefni að raunverð á orkunni lækki en hitt verði þá víkjandi verkefni að greiða arðinn. Og ef þessi markmið stangist á þá sé það þannig að orkuverðið muni lækka en arðgreiðslurnar hljóti þá að bíða. Þetta fannst mér vera mjög skýrt í þessum texta og þetta hefur raunar komið fram, ef ég hef skilið það rétt, hjá talsmönnum hv. ríkisstjórnar að þannig sé þetta. Til aldamóta verði sem sagt engar umbreytingar á verðinu; eftir aldamótin fari þetta lækkandi um 2--3% á ári, og síðan ráðist arðgreiðslurnar af arðseminni og stöðu fyrirtækisins og því hvort hægt hefði verið að lækka orkuverðið. Þetta er minn skilningur á þessu máli og mér finnst þetta vera augljóst ef maður les þennan texta.

[22:30]

Þess vegna, virðulegi forseti, kom það mér mjög mikið á óvart þegar ég sat heima hjá mér í kvöld, eftir að hafa borðaði bæði saltkjöt og baunir, og hlýddi á borgarstjórann í Reykjavík lýsa yfir ákaflega sérkennilegum skilningi á þessum annars skýra texta. Skilningur borgarstjórans er þessi:

Hverju breytir þessi bókun? spyr fréttamaðurinn.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir svarar: ,,Ja,`` --- sem er skammstöfun fyrir jafnaðarmannaflokkinn eins og menn vita, JA --- ,,hún breytir í sjálfu sér sáralitlu öðru en því að með þessari bókun og með breytingu á lögunum sem nær þá til þess hvernig endurskoðendur skuli skipaðir og að Landsvirkjun skuli lúta samkeppnislögum að þá er líklegra að víðtækari sátt muni nást um málin sem er auðvitað mikið atriði.``

Það er auðvitað rétt hjá borgarstjóra að það skiptir miklu máli ef hægt er að ná sátt um veigamikil mál. (Gripið fram í: Hvað kemur JA þessu við?) Þá kemur ja-ið til sögunnar.

Þá spyr fréttamaðurinn: ,,Reiknaði borgin með að fá arð af Landsvirkjun?``

Þá svarar borgarstjóri, og segir nú ekki ja heldur já, hún reiknar sannarlega með því: ,,Ég er ekki tilbúin til að víkja arðgjafarmarkmiðunum til hliðar enda hefði þá til lítils verið unnið að þessu samkomulagi því að aðalatriðið fyrir okkar var að Reykvíkingar nytu þess með einhverjum sértækum hætti að þeir hafa lagt mikið fé í þetta fyrirtæki og eiga þarna tæplega 45%.``

Nú, virðulegi forseti, verð ég að játa það að bókmenntaútlegging borgarstjórans í Reykjavík á þessum texta sem mér finnst ansi skýr í bókun þremenninganna frá 10. febr., þessi bókmenntaútlegging kemur að mínu mati ekki alveg heim og saman við þennan texta og enn þá síður heim og saman við þá útlistun og þær útskýringar og þá túlkun og þann skilning sem talsmenn hæstv. ríkisstjórnar hafa haft á þessu máli. Þess vegna er það nauðsynlegt í þessari umræðu að það sé alveg skýrt af hæstv. iðnrh. hvað þessi bókun þýðir. Hvort hún þýði að arðgjafarmarkmiðin séu víkjandi eða ríkjandi, (Gripið fram í.) hvort það sé þá verðlagningin sem sé víkjandi eða ríkjandi. Þetta þarf að liggja fyrir því hæstv. iðnrh. er aðili og það ekki veigalítill aðili að þessari bókun og samkomulagi öllu. Ríkið er stærsti eignaraðili Landsvirkjunar. Þess vegna er það grundvallaratriði fyrir niðurstöðu þessa máls að þetta liggi fyrir. Vegna þess að í hugum okkar sem höfum verið áhugamenn um að reyna að lækka orkuverð úti á landi er það grundvallaratriði hvort það sé verið að víkja þessum ásetningi til hliðar, en það er jú vel að merkja ásetningur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að lækka orkuverðið, hvort það sé verið að víkja þessum ásetningi til hliðar fyrir einhverjum óljósum arðgjafarmarkmiðum sem samið hafi verið um. Ég get engan veginn skilið þessa bókun eignaraðila Landsvirkjunar með þeim hætti og vona að hæstv. iðnrh. muni taka undir þann skilning minn sem mér finnst augljóst að lesa út úr þeim texta sem í bókuninni er.