Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 22:53:40 (3366)

1997-02-11 22:53:40# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[22:53]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál hefur fengið mikla umfjöllun í þinginu og vönduð vinnubrögð hjá hv. iðnn. Alþingis. Stefnt var að því að ljúka málinu fyrir áramót. Í önnun þingsins fyrir jól var ákveðið og í góðu samkomulagi við stjórnarandstöðu að ég hygg að þessu máli skyldi verða lokið í kringum miðjan febrúar. Fyrir utan það að síðast í gær taldi ég að tiltölulega góð sátt hefði verið um að ljúka málinu líka á þessum degi, í dag, hvort sem það var tæknileg sátt eða pólitísk sátt. Á það ætla ég ekki að leggja mat. Það er því ekki eftir neinu að bíða við að ganga frá þessu máli á þinginu.

Aðeins út af orðum hv. þm. um það hvernig hægt væri að ráðstafa þeim ábata sem er til í fyrirtækinu og hagkvæmninni sem er til í fyrirtækinu og myndar arðinn. Hv. þm. sagði að með honum væri hægt að lækka orkuverðið, hægt að minnka skuldirnar og með því að greiða út arð til eigenda. Þetta samkomulag gerir einmitt ráð fyrir þessu. Samkomulagið gerir ráð fyrir því og viðbótarsamkomulagið undirstrikar það. Forgangsverkefnið er að lækka orkuverðið. Þegar kemur að útgreiðslu arðsins, þá er arðurinn ekki greiddur út vegna þess að á meðan heildarskuldirnar eru undir 12%, þá eru aðeins 25% greidd út. 75% fara til þess að lækka skuldirnar og þegar skuldirnar lækka og staða fyrirtækisins lagast og við erum komin niður í þetta á bilinu 12--15% í skuldastöðunni, þá er 60% haldið eftir og 40% greidd út. Hversu góð sem skuldastaðan verður eða hversu mikið sem við lögum skuldastöðuna þá tökum við aldrei allan arðinn til þess að greiða út úr fyrirtækinu. Með öðrum orðum, herra forseti, erum við að lækka orkuverðið. Við erum með þessu að lækka skuldirnar og við erum með þessu að greiða út arð til eigendanna þannig að öllum þessum markmiðum sem hv. þm. taldi rétt að berjast fyrir er náð með þessu samkomulagi.