Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 23:11:57 (3375)

1997-02-11 23:11:57# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[23:11]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er kannski það stærsta sem menn eru að ræða þessa stundina, hvaða skilning menn eigi að leggja í þetta samkomulag. Ég held að ég og hv. þm. Sturla Böðvarsson leggjum nákvæmlega sama skilning í þetta samkomulag og hvernig það beri að túlka. (Gripið fram í.) Það er nú svo, hv. 8. þm. Reykv., að mönnum finnst það reyndar vera misjafnlega mikils virði. Ég held að hægt sé að segja það með þeim orðum.

En það sem þetta nýja samkomulag, þessi bókun, hefur hins vegar leitt í ljós er að hún hefur ótvírætt skerpt skilning manna á því hvað það var sem menn áttu við með upphaflegu samkomulagi. Það er kannski það sem borgarstjórinn í Reykjavík er að segja. Að í huga borgarstjórans hafi engin breyting orðið á frá því sem menn sömdu um upphaflega, þar sem margoft hafi þá komið fram að arðgjafarmarkmiðið, arðgreiðslumarkmiðið væri víkjandi og verðlækkunarmarkmiðið væri ríkjandi í þessu samkomulagi. Og ég tek undir það með hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að á næsta ársfundi þegar tekin verður ákvörðun um útgreiðslu arðs eða hvort greiða eigi út arð, þá eigi menn ekki að horfa einangraðir á það eina ár heldur horfa til framtíðar. Er rekstrarafkoma fyrirtækisins að þróast í þá veru sem menn ætluðu í þessu samkomulagi sem menn hafa gert með sér? Sé það að gerast, þá er óhætt að taka ákvörðun um útgreiðslu arðs.

Hv. þingmenn Alþb. hafa við þessa umræðu reynt að gera samkomulagið, þessa bókun, sem skrifað var undir 10. febrúar tortryggilegt. (Forseti hringir) Þessi bókun er ekki tortryggileg, virðulegi forseti. Það er merkilegt að þingmenn Alþb. skuli gera sér það að leik að vera að reyna að gera borgarstjórann í Reykjavík tortryggilegan með því að treysta ekki hans undirskrift sem hér er á blaði.

(Forseti (ÓE): Hæstv. iðnrh. er í andsvari við hv. 2. þm. Vesturl. (Gripið fram í.) Forseti vill minna þingmenn á að gæta reglnanna þegar þeir eru í andsvörum.)