Landsvirkjun

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 15:05:35 (3426)

1997-02-12 15:05:35# 121. lþ. 69.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur

[15:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í þessu furðulega máli hefur það gerst að í þremur tilraunum til að lögfesta það sem í orði kveðnu af hálfu stuðningsmanna málsins liggur í því er fellt af þeim sjálfum. Ég veit engin dæmi þess að orð og gerðir stangist jafnkyrfilega á og jafnítrekað eins og hér hefur gerst. Á grundvelli mjög umdeilanlegra, svo ekki sé fastar að orði kveðið, mjög umdeilanlegra útreikninga um eiginfjárframlög og arð er ætlunin á komandi árum að taka miklar fjárhæðir út úr þessu fyrirtæki og raforkukaupendur borga, þeir mest sem greiða hæsta orkuverðið. Þrætur um hvort orkuverðið verði í sjálfu sér lítið eitt hærra eða lægra breyta ekki því að þessi hundruð milljóna verða skattur sem leggst þyngst á þá landsmenn sem fyrir borga hæsta orkukostnaðinn. Þetta er þess vegna í orðsins fyllstu merkingu köld kveðja frá Framsfl. til þeirra landsmanna sem búa fyrir við mesta ranglætið í þessum efnum, borga hæsta orkukostnaðinn. Ég óska Framsfl. alveg sérstaklega til hamingju með þetta glæsilega afrek (Gripið fram í: Þakka þér kærlega fyrir.) og spái því að þeir verði ekki eins glenntir, herra forseti, þegar þeir koma heim í héruð og fólk fer að átta sig á því hvað gerst hefur. Ég segi nei.