Landsvirkjun

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 15:07:05 (3427)

1997-02-12 15:07:05# 121. lþ. 69.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur

[15:07]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið til að þakka fyrir þá umræðu sem fram hefur farið um málið. Ég tel að þrátt fyrir allt hafi tekist að knýja stjórnarliðið til undanhalds í málinu og fyrir liggja mjög ítrekaðir svardagar af þeirra hálfu, sem ég tel að vísu ekki nóg, en liggja þó fyrir í þingtíðindum og þeir verða teknir upp þegar fram líða stundir ef ástæða verður til.

Aðalatriði málsins eru þessi, herra forseti. Hér er tekin ákvörðun um að lögfesta arðgreiðslu en allar tillögur um að lögfesta verðlækkun hafa verið felldar. Hér er gert ráð fyrir að arðgreiðslan miðist við 5,5% af reiknaðri eign í fyrirtækinu eða um 700 millj. kr. á ári. Heildarsala Landsvirkjunar til almenningsveitna nam á síðasta ári um 5,5 milljörðum kr. Hér er því um að ræða liðlega 10% skattlagningu.

Eðlilegra hefði verið, herra forseti, að fallast á óskir Reykjavíkur að mínu mati um að kaupa hlut borgarinnar í Landsvirkjun og gera Landsvirkjun að þjóðfyrirtæki með skýrt aðgreindum verkefnum. Það er andstætt jafnaðarstefnu Alþb., herra forseti, að skattleggja mest þá sem borga hæsta raforkuverðið en þannig verður það að óbreyttu. Þess vegna leggjumst við gegn málinu. Ég segi nei.