Uppgjör á jarðræktarstyrkjum

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 15:11:31 (3508)

1997-02-17 15:11:31# 121. lþ. 71.1 fundur 192#B uppgjör á jarðræktarstyrkjum# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[15:11]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Svör hæstv. landbrh. staðfesta náttúrlega að þessi mál eru engan veginn í nógu góðu horfi. Það er alveg fráleitt að það sé einhver réttaróvissa ríkjandi varðandi það hvort menn eigi rétt á þessum styrkjum eða ekki. Og að hæstv. landbrh. skuli þurfa að koma hér upp og segja að hugsanlega eigi menn rétt á styrkjum. Ég vitna aftur til þessa álits umboðsmanns Alþingis og vitna til þess að það hefur verið greitt út á framkvæmdir eftir 1990, samanber t.d. fjárveitingar í fjáraukalögum á árinu 1994. Það verður auðvitað að vera samræmi í lagaframkvæmdinni að þessu leyti. Það er ekki hægt að greiða sumum og hætta svo bara. Og þessi niðurstaða málsins, ef hún er þannig að bændur eiga rétt á þessum styrkjum en ríkinu sé hins vegar stætt á því að borga þá seint og illa, er náttúrlega afar sérkennileg, herra forseti. Það er engum til sóma að hafa þetta svona. Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til að ganga í þetta mál og gera það upp og draga þá strik við í núinu þannig að þessi mál komist loks á hreint.

Ég minni á að hér á í hlut sú stétt sem samkvæmt öllum mælingum hefur tekið á sig mesta kjaraskerðingu af öllum undanfarin ár og miklar þrengingar hafa gengið yfir þessa grein. Ég tel því að ekki sé á það bætandi að ríkið hegði sér svona gagnvart bændum.