Hækkun á gjaldskrá Pósts og síma

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 15:23:33 (3517)

1997-02-17 15:23:33# 121. lþ. 71.1 fundur 194#B hækkun á gjaldskrá Pósts og síma# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[15:23]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það er mjög nýstárlegt að vera spurður í óundirbúnum fyrirspurnum um bréfaskriftir stofnunar úti í bæ og gæti maður kannski ætlað að rétt væri að láta mann vita að spurt yrði út í bréfið ef ætlast væri til að maður svaraði því sem þar stendur. Mér finnst það almenn kurteisi.

Þar sem hv. þm. var ekki viðstaddur þær umræður sem urðu um stofnun hlutafélags um Póst og síma er óhjákvæmilegt að rifja upp að í þeim umræðum kom fram að samkeppni milli símafyrirtækja einstakra landa hefur farið mjög vaxandi hin síðustu missiri og við Íslendingar erum auðvitað ekki utan við þá samkeppni og algjör misskilningur hjá hv. þm. ef hann heldur að Póstur og sími sé einn í heiminum í sambandi við samkeppni símafyrirtækja til og frá landinu. Þess vegna hefur það orðið þróunin víðar en hér að taxti fyrir símtöl milli landa hefur verið lækkaður sem óhjákvæmilega hefur haft þær afleiðingar að símgjöld hafa hækkað innan lands í sömu löndum til þess að fyrirtækin eða stofnanirnar, eftir því hvar maður er staddur, gætu skilað viðunandi rekstraafgangi frá ári til árs. Það er heldur ekki rétt hjá hv. þm. að öll símtöl innan lands hafi hækkað. Það er misskilningur hjá hv. þm. Ég vil rifja það upp að á undanförnum árum hafa símtöl innan lands lækkað mjög verulega og eru eins og nú standa sakir hin lægstu í Vestur-Evrópu. Það var á hinn bóginn óhjákvæmilegt, um leið og við lækkuðum símtöl til annarra landa og jöfnuðum símakostnað innan lands, að kostnaðurinn yrði í auknum mæli borinn uppi af símtölum innan svæða. En eins og ég sagði þá höfðu gjöld fyrir símtöl innan svæða lækkað verulega áður. Og ef við horfum til baka og sjáum hvernig þróunin hefur verið síðustu ár er um verulega lækkun á símtölum að ræða.