Hækkun á gjaldskrá Pósts og síma

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 15:26:03 (3518)

1997-02-17 15:26:03# 121. lþ. 71.1 fundur 194#B hækkun á gjaldskrá Pósts og síma# (óundirbúin fsp.), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[15:26]

Mörður Árnason:

Virðulegur forseti. ,,Aldrei hryggur, aldrei glaður,`` var einu sinni ort um mann og mér sýnist það eiga við um samgrh. Auðvitað var ekki verið að spyrja um spurningar og svör stofnana úti í bæ heldur var verið að spyrja samgrh. um símakostnað á Íslandi.

Það sem ég skildi af svörum hæstv. ráðherra sem ég þakka fyrir er að hann hafi raunverulega verið að segja: Póstur og sími á í samkeppni og mun eiga í aukinni samkeppni á utanlandsmarkaði. Þeirri samkeppni mætir Póstur og sími með því að hækka símgjöldin innan lands þar sem Póstur og sími hefur einokunaraðstöðu. Gott og vel, hann gerir það, og það kann að vera pólitísk stefna ráðherrans að hann geri það. En þá vekur líka athygli að samkvæmt ársreikningum Pósts og síma, ég er með ársreikningana 1995, þá mun hafa verið hagnaður í heild af fjarskiptum 2,5 milljarðar. Síðan þarf að greiða niður póstþjónustu vegna þess að það er í samkrulli og þar eru settar inn lífeyrisskuldbindingar en jafnvel með öllum þeim ,,trikkum`` eru 200 milljónir eftir af hagnaði þess árs og að lokinni arðgreiðslu til ríkisins. Ég spyr hæstv. samgrh. aftur: Er það svo að verið sé að borga niður samkeppni utan lands með því spenna upp verð á einokunarmarkaði innan lands?