Hækkun á gjaldskrá Pósts og síma

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 15:29:33 (3521)

1997-02-17 15:29:33# 121. lþ. 71.1 fundur 194#B hækkun á gjaldskrá Pósts og síma# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[15:29]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það er ekkert við því að segja þó hv. þm. sé ekki kunnugt um hvernig gjaldskrám hefur verið háttað fyrir símtöl hér á landi eða erlendis. Það hefur löngum verið svo að símtöl til annarra landa hafa verið látin bera uppi hluta af kostnaði við innanlandssímtöl. Þetta hefur ekki aðeins verið svo hér á landi heldur einnig í löndunum í kringum okkur. Nú þegar samkeppnin hefur opnast, samkeppnissvæðin eru orðin allur heimurinn, þá hafa menn orðið að hverfa frá þessari stefnu og látið símgjöldin vera sem næst í samræmi við þann tilkostnað sem til fellur. Og það er það sem verið er að gera núna í sambandi við hina nýju gjaldskrá Pósts og síma. Ég vil minna á það að um næstu áramót verður opnað fyrir samkeppni hér á landi á fjarskiptamarkaði og auðvitað er óhjákvæmilegt að Póstur og sími nýti tímann þangað til til þess að færa símgjöldin nær þeim raunveruleika sem er í fjarskiptaheiminum þegar við horfum á hann í heild sinni.