Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 18:42:17 (3587)

1997-02-17 18:42:17# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[18:42]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þó svo að ég eigi sæti í samgn. og geti komið að þessu máli þar, þá get ég ekki látið hjá líða að lýsa vonbrigðum mínum og óánægju með þann niðurskurð sem er gerður á framkvæmdum á Reykjavíkurflugvelli og er 90 millj. kr. Það var gert ráð fyrir að til vallarins færu á þessu ári 127 millj. kr. og hafa framkvæmdir á vellinum, viðhaldsvinna á honum, miðað að því að farið yrði í þessa vinnu á þessu ári. Ef menn hefðu vitað að til stæði að draga enn lengur að gera úrbætur á Reykjavíkurflugvelli, þá hefði án efa verið farið öðruvísi í hlutina og þá hefðu verið gerðar varanlegri úrbætur, en eins og menn vita hafa menn verið svona með smáplástraaðgerðir á vellinum undanfarið.

Ég vil minna á það að í lok nóvember sl. ályktaði flugráð um ástandið á Reykjavíkurflugvelli þar sem það segir, með leyfi forseta, að niðurskurðurinn sem vitnað er til úr fjárlagaumræðunni muni þýða að ,,fresta verði fyrirhuguðum framkvæmdum á Reykjavíkurflugvelli. Flugráð getur ekki fallist á að þeim framkvæmdum verði frestað með flugöryggi í huga.

Um ástand flugvallarins má í fyrsta lagi benda á skýrslu Almennu verkfræðistofunnar frá því í mars 1995 sem fengin var til að gera úttekt á ástandi flugvallarins og valkosti um framkvæmdir. Í skýrslunni kemur glöggt fram hversu slæmt ástand flugbrautanna er. Af eðlilegum ástæðum hafa hvorki flugrekendur né flugmálayfirvöld verið reiðubúin að lýsa því nákvæmlega hversu slæmt ástandið er til að skapa ekki hræðslu við notkun flugvallarins. Staðreyndin er sú að við vissar veðurfarslegar aðstæður sem ekki eru óalgengar hér eða þegar vatnsveður eru getur skapast hætta á flugvellinum vegna vatnspolla sem safnast fyrir á flugbrautunum þar sem sandgildra til afvötnunar er engin, samanber skýrslu Almennu verkfræðistofunnar frá mars 1995. Á nokkrum stöðum á flugbrautunum eru hreinlega orðnar til hraðahindranir vegna missigs, sérstaklega á norður/suður og austur/vestur-flugbrautunum. Þessar ójöfnur gera það að verkum að flugmenn sem þekkja brautirnar reyna að forðast þessa staði á þeim sem þýðir að verið er að víkja frá stöðluðum vinnubrögðum sem geta boðið hættu heim.`` --- Þarna er bara gripið niður í samþykkt flugráðs frá því í vetur.

Nú þegar ljóst er að farið verður í þennan niðurskurð og ekki verður farið í neina vinnu við að gera varanlegar úrbætur á flugbrautunum, þá er mjög sennilegt að þungatakmarkanir verði settar á vellinum með vorinu þegar frost fer að fara úr jörðu. Einnig má gera ráð fyrir að jafnvel þurfi að loka ákveðnum brautum. Þetta tel ég mjög alvarlegt því að eins og við vitum, þá fara um Reykjavíkurflugvöll 350--400 þúsund manns á ári. Þetta er okkar aðalinnanlandsflugvöllur og einnig varaflugvöllur okkar fyrir millilandaflug, einn af fleirum, en þetta er varaflugvöllur engu að síður. Og um þennan völl fara 90% af þeim sem ferðast í innanlandsflugi. Með því að fresta þessum framkvæmdum er verið að ógna öryggi þess fólks sem ferðast hér um.

Ég vil líka minna á að menn eru að leggja áherslu á ferðaþjónustu og það er náttúrlega ekki gott til afspurnar ef völlurinn á enn að vera í þessu ófremdarástandi í ár í viðbót. Því ítreka ég að þetta er gjörsamlega óviðunandi ástand og nær væri að setja þessa peninga í framkvæmdir hér á Reykjavíkurflugvelli heldur en að taka allan niðurskurðinn hér og sömuleiðis að taka 60 millj. kr. til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, en reyndar var það samþykkt í bandormi í desember þannig að ekki þýðir um það að sakast, en engu að síður vil ég lýsa áhyggjum mínum af þessu að enn skuli þurfa að fresta framkvæmdum á Reykjavíkurflugvelli. Ég vona svo sannarlega að ekki verði eitthvert óhapp vegna þessa dráttar á framkvæmdum, en ég sé að mér færari menn hafa vissulega áhyggjur af því og ályktun flugráðs frá því í vetur sýnir það.