Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 19:04:09 (3593)

1997-02-17 19:04:09# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[19:04]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni að auðvitað þarf fjárveitingar til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Það þarf að gera þar endurbætur og þarf að leggja í verulegan kostnað ef við gerumst aðilar að Schengen. En telur hv. þm. eðlilegt að það sé tekið út með niðurskurði á einum aðalinnanlandsflugvelli okkar, Reykjavíkurflugvelli, og það verði til þess að ógna flugöryggi innanlandsfarþega? Ég vil vegna orða hv. þm. um borgaryfirvöld hér taka fram að borgaryfirvöld hafa aldrei lagt það til að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður niður. Einstaka borgarfulltrúi hefur e.t.v. verið með vangaveltur þar um, en sá borgarfulltrúi sem hv. þm. nefndi hefur staðið fyrir samþykktum í borgarráði um mikilvægi þess að farið yrði í endurbætur á Reykjavíkurflugvelli þannig að það er ástæðulaust að vera með svona tal hér.

Vegna orða þingmannsins um að ég hafi sagt í ræðu minni að Reykjavíkurflugvöllur væri ekki í ástandi til að taka við neinu flugi, þá er það rangt. Ég sagði að við ákveðnar aðstæður væri þar hættuástand og það fer saman við ályktun flugráðs frá því í vetur. Þar kemur fram að hættuástand er við ákveðnar aðstæður og það muni þurfa loka vellinum. Það eru öll líkindi til þess að loka þurfi jafnvel brautum og setja þungatakmarkanir nú með vorinu á Reykjavíkurflugvelli eins og ástandið er þar nú.