Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 19:20:24 (3602)

1997-02-17 19:20:24# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[19:20]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson taka heilmikið upp í sig. Ég hef ekki verið með ásakanir á einn né neinn. Ég hef einfaldlega verið að fara yfir það sem hefur verið sagt í fjölmiðlum af ákveðnum fulltrúum í borgarstjórn. Ég held að hann ætti þá að koma með sannanir um að ég fari með rangt mál, það er kannski ekkert síður þitt mál. Og ég get ekki séð að ég hafi farið yfir strikið í þessum málum. Þetta er ekkert að byrja í umræðunni, þetta er búið að vera lengi í umræðunni varðandi framtíð Reykjavíkurflugvallar og ég minni á að það hefur verið gefin út skýrsla um þetta mál sem er ekki svo ýkja gömul þar sem ýmsar hugmyndir hafa verið á lofti. Ég mun leggja þær greinar og þær fréttir sem um þetta hafa komið á síðustu mánuðum fyrir hv. þm. á morgun eða hinn.