Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 19:39:34 (3609)

1997-02-17 19:39:34# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[19:39]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson er í erfiðri stöðu. Hann er í þingflokki stjórnarliðsins þar sem menn hafa tekið ákvarðanir og hann er væntanlega bundinn af þeim. Hann hefur áhyggjur af þessu en festir hatt sinn á þann krók að á næsta ári verði ráðist í þessar framkvæmdir. Hefur hæstv. samgrh. lýst því skorinort yfir í umræðunni að það verði gert? Nei. Hann hefur ekki gert það enn þá. Í framsögu hans fyrr í dag kom fram að það væri líklegt en það var ekki afdráttarlaust af hans hálfu. Ég get ekki sagt annað en það að ég óttast að auðvitað sé það stefna sjálfstæðismannsins, sem situr í samgn. og vakir fyrir mörgum sjálfstæðismönnum í þessu máli þ.e. að grafa undan Reykjavíkurflugvelli, að mola undirstöður hans skref fyrir skref þannig að það verði, svo ég noti orð hv. þm. Kristjáns Pálssonar, einungis tímaspursmál hvenær Reykjavíkurflugvöllur verður lagður niður.

Með öðrum orðum stendur það upp úr að sjálfstæðismenn eru að gera þessa atlögu að einhverri merkustu og þörfustu stofnun Reykjavíkurborgar. Það eru engir aðrir en þeir. Þeir fara með ráðuneytið og þeir eiga munninn og varirnar sem hafa sagt þessi orð í dag.