Bókasafnssjóður höfunda

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 13:52:12 (3620)

1997-02-18 13:52:12# 121. lþ. 72.7 fundur 330. mál: #A Bókasafnssjóður höfunda# frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[13:52]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. ræðu hans. Í sjálfu sér vék hann að atriðum sem eðlilegt er að menn velti fyrir sér þegar þetta mál er borið fram í þessum búningi því hér er verið að stíga skref til að koma til móts við fræðimenn, það má ekki gleyma því að það er verið að stíga skref til að breikka þann hóp sem getur fengið styrk úr þessum sjóði fyrir bækur sínar á bókasöfnum. Hins vegar er einnig þrengt að því er varðar þá sem geta fengið styrkina en miðað er við að erfingjar látinna höfunda fái ekki greiðslur úr þessum sjóði. Þar er, eins og kom fram í máli mínu, um að ræða 246 aðila talsins, því að markmiðið með breytingunni er m.a. að tryggja að þeir sem sinna bókmenntastörfum njóti styrksins á meðan þeir eru við störf. Heildarfjöldi íslenskra höfunda og rétthafa sem fá greitt fyrir bækur í söfnum árið 1996 er 862 en þar af eru erfingjar látinna höfunda 246, þannig að menn sjá að þar er hugað að fjölda þeirra sem styrkina fá með öðrum hætti en gert hefur verið og auðvitað kunna að bætast í hópinn eftir að styrkþegar eru skilgreindir upp á nýtt. Þetta er mál sem sjálfsagt er fyrir nefndina að skoða eins og hv. þm. sagði. Ég taldi sjálfur raunhæft að gera tillögu um þá tæplega 5 millj. kr. hækkun sem lögð er til og fylgir frv. í þessari tillögugerð en verður að sjálfsögðu ákveðin endanlega á fjárlögum eins og mælt er fyrir um í frv. En ég taldi eðlilegt að mæla með þessari hækkun og fer að sjálfsögðu ekki að breyta um skoðun þrátt fyrir ágæta ræðu hv. þm. um þetta efni. Það er rétt að endanleg ákvörðun um málið verður ekki tekin fyrr en við afgreiðslu fjárlaga, en ég tel að með því að hækka þetta um þessar tæpu 5 millj. þá sé skynsamlega tekið á málinu.

Að því er varðar það orðalag í greinargerðinni sem hv. þm. vék að: ,,Eðlilegt er að áhersla verði lögð á styrki til höfunda fagurbókmennta`` þá er þar byggt á þeirri niðurstöðu sem varð í nefndinni sem samdi frv. og tekið mið af þeim hugmyndum sem þar voru uppi og ég sá ekki ástæðu til þess í sjálfu sér að láta ekki þá skoðun koma fram í greinargerð með frv. sem var uppi í nefndinni og var m.a. forsenda fyrir því ágæta samkomulagi sem tókst á milli ólíkra fulltrúa um málið í nefndinni. Það var vikið að því með ákveðnu orðalagi sem endurspeglast í þessu sem fram kemur í greinargerðinni. Þarna er um matsatriði að ræða sem hv. þm. vék réttilega að. Það er rétt hjá honum að að ég sagði hér við umræður um breytingar á lögum um listamannalaun eða listamannasjóði eða starfslaunasjóði, að það væri eðlilegt að reyna að koma til móts við óskir þeirra sem rituðu fræðibækur að því er starfslaun varðar og hef fullan hug á að reyna að útfæra það mál. Ég tel að einnig í þessu frv. sé uppi töluverð viðleitni til að koma til móts við höfunda fræðibóka en ég vildi ekki hrófla við samkomulagi sem byggðist á því að þessi áhersla kæmi fram í greinargerðinni eins og hér stendur. En að sjálfsögðu verða menn síðan að meta það og það verður væntanlega eitt af því sem hv. menntmn. gerir í sínum störfum að fara yfir þetta og meta alla þessa þætti.

Aðalatriðið er að mínu mati að það hefur verið tekið á málinu, það er búið að leggja grunn að nýjum sjóði, Bókasafnssjóði höfunda þar sem viðurkenndur er réttur fleiri en rithöfunda einna til að fá styrk eða fá greiðslu, það er ekki rétt að tala um þetta sem styrk heldur greiðslu, fyrir afnot í bókasöfnum og þeir sem eiga að njóta þeirra greiðslna eru skilgreindir með öðrum hætti og víðtækari en áður. Ég tel að í því felist sanngirni sem menn eru sammála um. En auðvitað má alltaf gera betur og þróunin mun leiða í ljós hvernig þessu máli reiðir af og einnig að því er varðar mótun úthlutunarreglnanna með hliðsjón af fagurbókmenntum annars vegar og fræðibókum hins vegar.