Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 14:53:52 (3627)

1997-02-18 14:53:52# 121. lþ. 72.8 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[14:53]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það rétt að geta þess. En þetta frv. til laga er fyrst og fremst frv. til laga um réttindi sjúklinga. Síðan þurfum við að finna málinu annan flöt sem áhrærir foreldrana og þann kostnað sem af því leiðir ef þeir þurfa að koma um langan veg og vera mánuðum saman hér í Reykjavík. Ég get alveg fallist á það. En það eru önnur atriði í frv. sem mér finnst full ástæða að sé gefinn sérstakur gaumur og úr þessum ræðustóli ætti að heyrast annar tónn heldur en neikvæður tónn. Það er svo sem eins og það sem oft hefur verið mjög deilt á í heilbrigðisþjónustunni þegar fólk kemur í meðferð og fær ekki samfellda læknismeðferð þannig að það er verið að taka fólk í einhver ákveðin ferliverk og gerð aðgerð sem ekki dugar til þess að klára málið og síðan líða kannski mánuðir og jafnvel ár. Hér er tekið á þessu og ég er sannfærður um að þetta er af hinu góða.

Það er líka önnur hlið á málinu sem snýr að því fólki sem vinnur í heilbrigðisstéttinni, hjúkrunarfræðingum og læknum. Hér er komið mál sem snýr að þeim og þau geta bent sjálf á og sagt: Ja, hér eru bara lög sem segja að meðferð þessa sjúklings skuli ljúka á einhverju tilteknu tímabili. Og það eru fleiri atriði hér í frv. sem eru af hinu góða. Og ég veit að hv. 18. þm. Reykv. mun vinna með okkur, öðrum þingmönnum og stjórnarliðum í heilbr.- og trn. að skjótum framgangi þessa máls. Þó það sé eitt og annað sem menn sjái annars staðar í öðrum lögum sem þurfi að lagfæra, þá held ég að þetta frv. sé það brýnt og þarft að við eigum ekki að láta þetta tefja fyrir heldur að vinna að þeim málum á öðrum vettvangi í öðrum lögum til hliðar við þetta frv.