Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 16:39:53 (3645)

1997-02-18 16:39:53# 121. lþ. 72.8 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[16:39]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum sammála um það, hv. síðasti ræðumaður og ég, að hér er gengið skref í rétta átt og það er það mikilvægasta. Margt í þessu frv. kostar ekki mikla peninga varðandi mannhelgi og mannréttindi. Þetta er spurning um samstarf milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna.

Annað kostar í þessu frv. og t.d. er verið að endurskoða núna í Tryggingastofnun umönnunarbætur barna og auðvitað geri ég mér grein fyrir að það mun kosta eitthvað en það er ekki búið að reikna það nákvæmlega út vegna þess að ekki er endanlega gengið frá þeim breytingum. En það mun koma í ljós í fyllingu tímans.

Hv. þm. sagði að þetta mundi kosta sveitarfélögin eitthvað. Auðvitað skiptist kostnaðurinn milli ríkis og sveitarfélaga í ýmsum félagslegum þáttum. Það þekkjum við báðar sem fyrrverandi sveitarstjórnarmenn þannig að þetta er auðvitað samspil ríkis og sveitarstjórna. Ég efa ekki að ekki er síður vilji hjá sveitarfélögum en ríki að bæta réttindi sjúklinga.