Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 17:22:51 (3655)

1997-02-18 17:22:51# 121. lþ. 72.8 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., GuðrS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[17:22]

Guðrún Sigurjónsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en mig langaði aðeins að minnast á ákvæði í 23. gr. frv. um það að sjúklingur eigi rétt á að njóta andlegs og trúarlegs stuðnings. Þetta hlýtur að gilda bæði um sjúklinginn sjálfan og aðstandendur, þ.e. notanda heilbrigðiskerfisins. Það hefur verið þannig, alla vega á Ríkisspítölum þar sem ég þekki til, að enginn sálfræðingur hefur verið starfandi fyrir utan geðdeildirnar, þ.e. á hinum vefrænu deildum hefur ekki verið sálfræðingur til að styðja við fólk þegar það hefur fengið slæman úrskurð um sitt heilsufar og það hefur greinilega heldur ekki verið á Borgarspítalanum, eins og kom fram áðan hjá Margréti Frímannsdóttur. Á barnadeildinni fá foreldrar oft og tíðum mjög slæmar fréttir. Þeir eru að fá fréttir um alvarleg veikindi barna sinna og hugsanlega lífstíðarfötlun. Þetta er náttúrlega gríðarlegt áfall og þessum hópi hefur í rauninni verið afskaplega lítið sinnt. Áfallahjálp hefur ekki verið til staðar nema mjög takmarkað. En eftir því sem ég hef frétt, og ég vil gjarnan að það verði leiðrétt ef ég fer rangt með, stendur til að ráða sálfræðing við barnadeild Ríkisspítalanna en hann á að vera kostaður að hálfu leyti af Ríkisspítölum en að hálfu leyti af frjálsum félagasamtökum úti í bæ. En eins og ég segi, ef þetta er rangt þá verð ég vonandi leiðrétt, en mér finnst þetta mjög alvarlegt ekki síst í ljósi þess að þegar verið er að leggja fram frv. um að styðja beri fólk sem lendir í svona áföllum, þá ætlar ríkið að gera þetta svona. Það vekur mér ekki bjartsýni um framhaldið en styður hins vegar það sem Margrét Frímannsdóttir var að tala um áðan að verulegur kostnaður hlýtur að vera samfara þessu frv., þ.e. ef það á að standa við þessa grein t.d., þó ég fari ekki að tala um byggingu barnaspítala og stækkun á vökudeild sem hefur verið tíundað hér fyrr.

Félagsráðgjafar hafa verið af skornum skammti á Ríkisspítölunum. Þetta er gríðarlega stór stofnun og félagsráðgjafar á þessum vefrænu deildum hafa verið fáir og hafa ekki getað séð um þennan þátt heldur. Ég veit ekki hvort einhver áform eru um að bæta þarna úr. Félagsráðgjafar hafa gríðarlega miklu hlutverki að gegna vegna þess að þegar um er að ræða langvarandi sjúkdóm hjá barni þá verða foreldrar að fá mikla leiðsögn um það hvernig þeir eiga að snúa sér í kerfinu, hvar þeir eiga að bera niður til að fá aðstoð og hjálp, og eftir því sem mér er sagt þá sitja foreldrar mjög mikið einir með þetta. Ef þeir eru duglegir og hafa nóga orku þá geta þeir keyrt áfram sín mál en ef þeir eru eitthvað beygðir og eiga erfitt uppdráttar þá eru þeir illa settir og fá jafnvel ekki það sem þeim raunverulega ber vegna þess að þá skortir leiðsögn. Ef fólk ætlar að leita aðstoðar sálfræðings t.d. á eigin kostnað utan stofnunar þarf að greiða 3.000--4.000 kr. fyrir hvert viðtal við sálfræðing. Það sér hver í hendi sér að láglaunafólk getur ekki sótt þá þjónustu. Tryggingastofnun tekur engan þátt í að greiða niður sálfræðiþjónustu utan stofnana og á því þyrfti auðvitað að verða breyting þannig að sá kostur væri raunverulega fyrir hendi fyrir fólk sem fær ekki þjónustu inni á stofnunum eða af einhverjum ástæðum getur ekki nýtt sér hana.