Umönnun aldraðra

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 18:20:55 (3672)

1997-02-18 18:20:55# 121. lþ. 72.10 fundur 201. mál: #A umönnun aldraðra# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[18:20]

Guðmundur Hallvarðsson:

Virðulegur forseti. Ég vil þakka flm. fyrir að hreyfa þessu máli. Það verður þó að segjast eins og er að mér kemur nokkuð á óvart að lagt er til í þessari þáltill. að sett sé lagasetning um umönnun aldraðra þegar það liggur ljóst fyrir að nú eru í endurskoðun lög um málefni aldraðra. Þar eru mörg ákvæði sem síðasti ræðumaður kom inn á. Ég þykist þó vita að flm. hafi farið yfir þau lög áður en þáltill. og grg. með henni voru settar saman. Ég er hins vegar sannfærður um og það gleður mitt hjarta að finna það að sem flm. að þáltill. um umboðsmann aldraðra þykist ég vera búinn að fá einn góðan stuðningsmann. Það setur vissulega að manni hroll þegar vitnað er til Bandaríkjanna um öll þau brot sem þar eru framin gagnvart öldruðum. Kannski hefði verið réttara og eðlilegra að líta til Norðurlandanna því við uppbyggingu öldrunarþjónustu hér á landi hefur mikið verið horft til Norðurlandanna. En allt um það. Þegar litið er til þess að lögin um málefni aldraðra eru nú í endurskoðun þá er komið inn á margt sem flm. gerir tillögu um í þáltill., m.a. það eins og segir um hlutverk þjónustuhóps aldraðra, sem þegar er fyrir. Það er:

1. Að fylgjast með heilsufari og félagslegri velferð aldraðra á starfssvæðinu.

2. Að meta vistunarþörf aldraðra á starfssvæðinu, sbr. 18. og 19. gr.

3. Að setja upp í samvinnu við hinn aldraða samþætta áætlun um þjónustu, sbr. 15. gr., sem byggist á samræmdu faglegu mati.

4. Að leitast við að tryggja að aldraðir á starfssvæðinu fái þá þjónustu sem þeir þarfnast. Ætíð skal haft að leiðarljósi það markmið laganna að aldrað fólk geti sem lengst búið við eðlilegt heimilislíf.

Þannig að hér er þetta til fyrir í lögum sem nú er verið að endurskoða. Ekki fyrir löngu síðan upplýsti hæstv. heilbr.- og trmrh. við fyrirspurn minni, að þessi lög væru í endurskoðun. Kemur þar margt til m.a. það sem flm. kom inn á í þáltill. hvað varðar íbúðir sem verið er að selja öldruðum og eiga að heita sérstakar þjónustuíbúðir. Það hefur nefnilega oft borið við, þegar fólk er að flytja úr eigin húsnæði í íbúðir sem byggingaraðilar hafa verið að selja, að nánast engin umbreyting verður á önnur en sú að nýja húsnæðið er kannski þröskuldalaust og ekki annað. Það sem verra er að ekki er nægjanlega skýrt tekið fram í lögum um málefni aldraðra hver eru skilyrði fyrir því að hægt sé að kalla íbúð þjónustuíbúð fyrir aldraða. Þau samtök sem ég veiti forstöðu og er stjórnarformaður fyrir hafa lent í því að byggja íbúðir fyrir aldraða, þar sem neyðarhnappar hafa verið á flestum íverustöðum, og staðið síðan frammi fyrir því að ráðuneyti og aðrir aðilar hafa sagt að hér sé of mikið í lagt og það gjald sem þurfi að greiða fyrir neyðarhnapp sé ekki greiðandi nema á þurfi að halda. Ég veit að ákveðin atriði varðandi málefni aldraðra eru nú í endurskoðun.

Uppbygging þjónustu við aldraða hér á landi er öðruvísi en gerist í Bandaríkjunum. Hér verður hver sá sem ætlar að veita öldruðum þjónustu að fá til þess sérstakt leyfi frá heilbrrn. Með því er grannt fylgst. Í ræðu minni fyrir jólin ræddi ég um málefni aldraðra og umboðsmann aldraðra. Ég kom einmitt inn á að eðlilegt væri að sú þjónusta sem veitt er öldruðum á stofnunum eða heimilum aldraðra væri frekar skilgreind vegna þess að nokkur heimili aldraðra úti um land fá ákveðin daggjöld eða taka ákveðin daggjöld frá ríki. Aldraðir borga það sem þeir fá úr lífeyrissjóði en halda eftir 25.000 kr. úr lífeyrissjóðnum ef hann er svo hár en annað er síðan tekið í svokallaðar daggjaldagreiðslur. Það hefur komið fyrir og það eru til heimili sem fá greiðslur frá ríkinu en það er umhugsunarefni hvers konar þjónusta þar er veitt. Það er eitt atriðið sem ég veit að verið er að skoða. Þannig að það er ekki nóg að ríkið borgi heldur mun það gera kröfur til þess sem eðlilegt er.

Í grg. með þessari þáltill. segir, með leyfi forseta:

,,Með heildarlöggjöf um umönnun aldraðra væri lagður grunnur að því að þeir sem kaupa öldrunarþjónustu fái þá þjónustu sem þeir vænta, ...``

Það er einmitt það sem verið er að tala um og hefur verið rætt um að kæmi inn í löggjöfina um málefni aldraðra. Ég veitt satt best að segja ekki, herra forseti, hvort eðlilegt sé að enn ein lagasetningin kæmi varðandi þetta mál þegar yfirgripsmikil lög um málefni aldraðra eru fyrir og eru nú til endurskoðunar. Í grg. kemur m.a. fram að ,,hér á landi hefur atvinnustarfsemi tengd byggingu svonefndra íbúða fyrir aldraða á vegum einkaaðila blómstrað um skeið, enda eftirspurn mikil þótt verð slíkra íbúða þyki oft á tíðum hátt. Þeir sem komið hafa að þessum málum efast sumir um að aldraðir séu með kaupum á slíkum íbúðum að fá þá þjónustu eða það öryggi í ellinni sem þeir vænta.``

Ég get alveg tekið undir það. Þetta er alveg hárrétt því miður. En ég vona að á þessu máli verði tekið.

En ég vildi aðeins benda flm. á og ég efa ekki að hann hefur lesið það sem kemur fram í lögum um málefni aldraðra þar sem talað er um að þegar menn ætla að fara í framkvæmdir varðandi íbúðarhúsnæði eða þjónustu við aldraða þá er það skilyrðislaust tekið fram í lögunum, eins og ég sagði áðan, að það leyfi fæst ekki öðruvísi en að fengnu samþykki ráðuneytisins. En allt um það. Það er gott að vekja athygli á þessu máli, það er nauðsynlegt. Ég þakka flm. fyrir að hafa hreyft þessu máli. Það mun væntanlega fara til heilbr.- og trn. þar sem ég á sæti og mun auðvitað verða tekið til skoðunar. En jafnhliða á ég von á því að endurskoðuð lög um málefni aldraðra muni sjá dagsins ljós og þá ítarlegri en þau eru nú.