Fræðsla til að búa nemendur í framhaldsskóla undir þátttöku í samfélaginu

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 19:25:01 (3687)

1997-02-18 19:25:01# 121. lþ. 72.17 fundur 308. mál: #A fræðsla til að búa nemendur í framhaldsskóla undir þátttöku í samfélaginu# þál., Flm. BirnS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[19:25]

Flm. (Birna Sigurjónsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um fræðslu til að búa nemendur í framhaldsskóla undir þátttöku í samfélaginu. Hér er átt við fræðslu um samskipti kynjanna, fræðslu um fjölskylduábyrgð og einstaklingsskyldur, fjármálafræðslu, fræðslu um ábyrgð á eigin heilsu, umgengni við umhverfið og fleiri greinar sem hafa það að markmiði að gera nemendur að sjálfstæðum, sjálfbjarga einstaklingum í nútímaþjóðfélagi. Í tillögunni er skorað á hæstv. menntmrh. að tryggja að þessari fræðslu verði komið á í brautarkjarna allra framhaldsskóla svo tryggt verði að allir nemendur njóti kennslu í þessum mikilvægu greinum.

Í 2. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996, segir m.a. um hlutverk framhaldsskóla að það sé að stuðla að alhliða þroska allra nemenda svo þeir verði sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi. Í 17. gr. laganna segir að námsgreinar sem stuðla að almennri menntun og búa nemendur undir þátttöku í samfélaginu skuli vera í brautarkjarna skólanna. Lögin gera því ráð fyrir fræðslu af þessu tagi og í greinargerð með lögunum kemur fram að þessum námsþáttum er ætlaður staður í svokölluðum ratvísikjarna ásamt fleiri námsþáttum sem allir eiga að stuðla að því að gera nemendur hæfa til að lifa í lýðræðisþjóðfélagi og dýpka skilning þeirra á samfélaginu eins og segir þar. Það segir einnig að markmið ratvísikjarna skuli skilgreint í aðalnámskrá framhaldsskóla. Þar sem nú er verið að vinna að gerð aðalnámskrár fyrir grunn- og framhaldsskóla tel ég brýnt að tryggja að markmið námskrárinnar um fræðslu á þessu mikilvæga sviði verði skýr og ótvírætt að kennslu í þessum greinum skuli komið á í öllum framhaldsskólum, enda um eitt af meginhlutverkum hans að ræða eins og það er skilgreint í markmiðsgrein laganna.

Nú þegar eru námsþættir sem falla undir þetta svið fyrir hendi á einstökum brautum framhaldsskóla, einkum á uppeldis- og félagsfræðibrautum. En við sem stöndum að þessari tillögu teljum brýnt að allir nemendur framhaldsskóla njóti þessarar fræðslu. Þar skortir enn verulega á. Í sumum framhaldsskólum stendur nemendum ekki til boða nein fræðsla af þessu tagi og annars staðar er hún aðeins fyrir þá sem velja ákveðnar brautir skólanna.

Hér er um að ræða grundvallarþátt í hlutverki skólans í nútímasamfélagi og viðurkenningu á því að menntun eigi ekki að snúast um fræðin ein. Ekki skal á nokkurn hátt gert lítið úr því meginhlutverki skólans að miðla þekkingu á sviði fræða og námsgreina og undirbúa nemendur undir frekara nám á þeim sviðum, en það eitt nægir ekki til að mennta nemendur í þeim skilningi orðsins menntun að gera að manni. Markmið menntunar er að gera nemendur að betri mönnum, betri einstaklingum, betri þjóðfélagsþegnum.

Fræðimenn á sviðum námskrárfræða greinir ekki lengur á um það að hlutverk skólans í menntun sé þríþætt: Það beinist að einstaklingnum sjálfum og þörfum hans, að samfélaginu og því að mennta hæfa þjóðfélagsþegna og loks að fræðunum og því að miðla og skapa þekkingu á sviði fræðanna. Þannig á skólinn að búa nemendur sína undir líf, starf og frekara nám, allt þetta jafnhliða. Þessi þrískipting og breyttar áherslur frá fræðunum og yfir á undirbúning fyrir líf og starf hefur oft og tíðum skapað togstreitu og háværar umræður um námskrárstefnu og skipan skólastarfs. Þær hafa þó löngu áunnið sér sess og þær kenningar um skólastarf sem nú eru helst uppi gera ráð fyrir að í námskrárgerð skuli taka tillit til allra þessara þriggja meginþátta og samþætta þá sem mest.

Á 9. áratugnum hefur í Bandaríkjunum aukist áhersla á að í námskrám og skólum séu siðferðileg gildi tekin inn í kennslu og námskrá. Ástæðan er m.a. aukin upplausn í þjóðfélaginu og ekki er lengur hægt að treysta því að börn læri þessi grunngildi og viðhorf í fjölskyldu eða á heimili. Tölfræðin segir okkur að ofbeldi og afbrot verða sífellt algengari meðal unglinga, virðing fyrir yfirvöldum minnkar, sjálfsmorðum fjölgar og vaxandi sjálflægni og minni þjóðfélagsvitund einkennir ákveðna hópa barna og unglinga. Það er því ekki nóg að siðferðileg gildi séu skráð í skólanámskrá. Þau þurfa að einkenna allt skólastarfið og verða þannig hluti af umgengnisreglum og viðhorfum sem gilda milli nemenda og kennara og í nemendahópnum.

[19:30]

Þó að hér sé verið að miða við bandarískar aðstæður sem vissulega eru aðrar en okkar þá tel ég að margt eigi við hér á landi, sérstaklega að því leyti að skólinn verður í dag að taka á sig ábyrgð á ýmsum þáttum sem áður voru alfarið á ábyrgð foreldra. En þá vil ég jafnframt leggja áherslu á að skólinn á að sinna þessari fræðslu ásamt foreldrunum og í samvinnu við þá en ekki fyrir foreldrana. Eftir stendur að heimilum verður ekki ætlað að sinna þessum margvíslegu þáttum svo að fullnægjandi sé, þ.e. fræðslu um samskipti kynjanna, jafnréttisfræðslu, fræðslu um fjölskylduábyrgð og einstaklingsskyldur og um ábyrgð á eigin heilsu og fleira.

Þjóðfélag nútímans er flókið. Við lifum ekki lengur í einföldu þjóðfélagi fyrri tíma þar sem breytingar voru hægar og reynsla, viðhorf og gildi eldri kynslóðar færðust frá foreldrum til barna. Breytingar á samfélagsþáttum nú eru örar og skiptir þá ekki máli hvort við horfum til heilsubyltingar og vaxandi umræðu um að hver einstaklingur beri ábyrgð á eigin heilsu eða hvort við lítum til breytinga á fjölskyldum og fjölskylduhögum, t.d. aukinnar tíðni skilnaða og fjölgun samsettra fjölskyldna. Fjölskylduformið er langt frá því jafnsjálfgefið og það var áður. Í þessum öru breytingum verða margir foreldrar óöruggir um hlutverk sitt og telja jafnvel að ekkert af þeirra eigin reynslu og hinum góðu gömlu gildum, reglum og kenningum, eigi erindi til barnanna af því að svo margt hefur breyst. Á sama hátt vill það bregða við að börnin hafni viðhorfum og reglum foreldra sinna af því að þau telja þær ekki viðeigandi í nútímaþjóðfélagi heldur einfaldlega gamaldags og úreltar. Í slíku ástandi óstöðugleika er hætt við að ýmsilegt riðlist og reglur, viðhorf og gildi sem eiga fullt erindi til barna og ungmenna fari forgörðum. Ungt fólk verður því gjarnan á eigin spýtur að feta sig áfram í samfélaginu og læra af eigin reynslu og mistökum sem gjarnan getur reynst æði dýrkeypt bæði fyrir hvern þann sem lendir í ógöngum og fyrir þjóðfélagið í heild. Hér verður því menntakerfið að grípa inn í og tryggja fræðslu sem öruggt er að allir nemendur njóti.

Um leið og nýrri fræðslu af þessu tagi er komið á, hvort sem er í framhaldsskóla eða grunnskóla, þarf auðvitað jafnframt að sjá til þess að fyrir hendi séu námefni og námsgögn sem til kennslunnar þarf. Hér þarf að huga vel að gerð námsefnis og leggja í það fjármuni.

Þeir námsþættir sem hér er gerð tillaga um að komi inn í nám nemenda í framhaldsskóla eru um margt ólíkir og ósamstæðir og því kemur vart til greina að mínu mati að fella þá alla undir einn áfanga. Þessa námsþætti mætti kenna í námskeiðsformi en það mætti líka fella þá að og samþætta öðrum greinum. Þess þarf þó að gæta hvernig sem kennslunni er fyrirkomið að markmiðin verði ekki óskýr og óljós heldur sé skýrt kveðið á um hvar hverjum þætti er komið fyrir og hvaða markmiðum eigi að ná fram. Þannig gæti fræðsla um samskipti kynjanna, jafnréttisfræðsla og fræðsla um fjölskylduábyrgð og einstaklingsskyldur, þar með talin foreldrafræðsla, hugsanlega verið einn áfangi í ratvísikjarna. Það er enn allt of ríkjandi að ábyrgð innan fjölskyldu og ábyrgð á umönnun barna, jafnvel ábyrgð á öllum samskiptum bæði við eigin fjölskyldu og tengdafjölskyldu hvíli fyrst og fremst á herðum konunnar. Karlar þurfa að koma hér sterkar inn með jafna foreldraábyrgð og fulla þátttöku í fjölskyldulífi, meðvitaðir um eigin stöðu og sitt mikilvæga framlag í fjölskyldunni. Að þessu þarf fræðslan m.a. að beinast.

Þætti eins og fjármálafræðslu gæti verið kjörið að tengja eða gera hluta af stærðfræðiáfanga. Hér er mjög mikilvægt að leita út fyrir skólann og fá fræðslu t.d. beint frá bönkum eða úr atvinnulífi og að taka mið af því sem er að gerast í þjóðfélaginu á hverjum tíma. Fræðsla af þessu tagi má ekki vera dauður bókstafur eða úr tengslum við umhverfið því þá fellur hún dauð og ómerk.

Fræðsla um ábyrgð á eigin heilsu og fræðsla um umgengni við umhverfið ætti að vera sjálfsagður þáttur í líffræðinámi og hluti af t.d. grunnlíffræðiáfanga. Í skólanum þarf að leggja góðan grunn að vitund um þessa mikilvægu þætti og tryggja þannig uppfræddan almenning sem ekki er háður sérfræðingum til að mata sig á því hvað er rétt og hvað er rangt heldur getur tekið sjálfstæða afstöðu til mála.

Þó ég sé að tíunda þessar leiðir lít ég svo á að hver framhaldsskóli hafi sjálfstæði til að skipuleggja kennslu sína og beri ábyrgð á nánari útfærslu á þessari kennslu eins og öðru sem að skipulagi skólans lýtur. Því þarf í skólanámskrá hvers skóla að gera grein fyrir því hvernig skólinn hyggst ná þessum markmiðum skólastarfsins eins og öðrum.

Það er mikilvægt að markmið þessarar fræðslu verði skýr í aðalnámskrá og að skýrt verði kveðið á um skyldu skóla að fræða nemendur sína eins og lögin gera ráð fyrir.

Ég legg til að máli þessu verði vísað til síðari umr. og hv. menntmn.