Grunnskólar

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 19:47:47 (3689)

1997-02-18 19:47:47# 121. lþ. 72.19 fundur 254. mál: #A grunnskólar# (námsleyfasjóður) frv., Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[19:47]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá menntmn. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 66/1995, um grunnskóla, með áorðnum breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórunni J. Hafstein og Hrólf Kjartansson frá menntamálaráðuneytinu og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Í frumvarpinu er lagt til að sveitarstjórnir greiði 1,3% af dagvinnulaunum í námsleyfasjóð kennara í stað 1% samkvæmt gildandi lögum. Breyting þessi er nauðsynleg til að tryggja óbreytta möguleika kennara og skólastjórnenda til námsleyfa vegna viðbótarnáms og endurmenntunar eftir flutning grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga, en að jafnaði hefur verið unnt að veita 30 námsleyfi á ári.

Nefndin mælir einróma með samþykkt frumvarpsins.

Herra forseti. Það er rétt að halda því til haga í þessari umræðu að þegar grunnskólalögin voru samþykkt 1995 var miðað við að 1% af dagvinnulaunum dygði til að halda fjölda námsleyfa óbreyttum eftir flutning grunnskólans eða um 30 leyfi á ári. Nú hefur hins vegar komið í ljós að þessi viðmiðun er of lág og til að halda óbreyttum fjölda námsleyfa á ári eftir flutning grunnskólans til sveitarfélaganna þarf viðmiðunartalan að vera 1,3%. Það er viðurkennt af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga að við ákvörðun um tekjustofna vegna flutnings grunnskólans til sveitarfélaganna hafi verið reiknað með 30 námsleyfum. Þessi breyting sem hér er lögð til á 25. gr. grunnskólalaga leiðir því ekki til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð heldur er um að ræða leiðréttingu til að tryggja lagagrundvöll fyrir námsleyfasjóð á vegum sveitarfélaga.