Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 11:00:29 (3746)

1997-02-20 11:00:29# 121. lþ. 75.5 fundur 70. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., Flm. RA
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[11:00]

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Þessari umræðu um frv. okkar alþýðubandalagsmanna um stjórnarskrárbreytingar er senn að ljúka og ég vildi fara nokkrum orðum um umræðuna þótt vissulega sé nú orðið það langt um liðið síðan hún fór fram að það sé eilítið farið að fyrnast yfir það sem þar var sagt. En það munu vera a.m.k. tvær vikur síðan þessi umræða var í þinginu.

Frv. okkar fjallar um eignarhald á landi og á verðmætum í sjó og á sjávarbotni, einnig um orku í rennandi vatni, jarðhita og námur. Við alþýðubandalagsmenn teljum nauðsynlegt að sett séu ákvæði um það að öll verðmæti í sjó og á sjávarbotni innan efnahagslögsögunnar, svo og almenningar, afréttir og önnur óbyggð lönd utan heimalanda teljist sameign þjóðarinnar allrar, einnig námur í jörðu, orka í rennandi vatni og jarðhiti neðan við 100 metra dýpi eins og segir í 1. gr. okkar frv.

Ég vil þakka fyrir þær ágætu umræður sem urðu um frv. á sínum tíma, en jafnframt vil ég aðeins víkja að ágreiningsefnum sem þar komu upp og snerta einkum eignarnám á landi og þau ákvæði sem í frv. er að finna um það efni. Það kom mér nokkuð á óvart í þessum umræðum að ágætur þingmaður jafnaðarmanna, hv. 15. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, sem því miður er ekki viðstaddur nú, skyldi kvarta yfir því að í greinargerð frv. væri minnst á kapítalískt þjóðfélag. Ég gat ekki hjá því komist að segja við sjálfan mig: Öðruvísi mér áður brá. Einhvern tíma þótti slík orðnotkun hæfileg í okkar röðum, okkar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. En það var á honum að heyra að nú fyndist honum þetta vera úrelt hugtak og bæri vott um gamaldags hugsunarhátt. Það verður auðvitað hver og einn að eiga það við sjálfan sig hvaða orðaval hann notar. (Gripið fram í: Er þetta ritstjóri Alþýðublaðsins sem verið er að tala um?) Það er verið að tala um hv. 15. þm. Reykv. sem einnig er ritstjóri Alþýðublaðsins. Það er rétt.

Ég vil taka það fram að við alþýðubandalagsmenn höfum aldrei verið þjóðnýtingarmenn sérstakir og í stefnuskrá Alþb. hefur aldrei, alla þá tíð sem liðin er síðan það var stofnað, verið lögð sérstök áhersla á þjóðnýtingu. Það hefur verið lögð áhersla á blandað hagkerfi og gert ráð fyrir því að eignarréttur væri virtur, að einkaframtak væri nýtt en jafnframt ætti rekstur sveitarfélaga og ríkisins rétt á sér og að sjálfsögðu ýmiss konar samvinnusamtaka. En við alþýðubandalagsmenn höfum aldrei farið í launkofa með það að við teldum kapítalískt þjóðfélag gallað og ég stóð nú í þeirri meiningu að jafnaðarmenn um allan heim væru þeirrar skoðunar. Það liggur í augum uppi að í kapítalísku þjóðfélagi á stöðugt sér stað mikil uppsöfnun auðs, auðurinn færist á fárra manna hendur og víða má kenna vaxandi fátæktar. Bilið milli ríkra og fátækra hefur farið mjög vaxandi á seinni árum og ég hef talið það hlutverk okkar jafnaðarmanna og sósíalista --- ég tel að það sé sama hugtakið sem þar er um að ræða --- að vinna gegn mestu meinsemdum kerfisins hvar sem þær birtast. Ég vek t.d. á því athygli svo ég nefni bara sem dæmi að á 2--3 árum hafa hlutabréf í okkar þjóðfélagi tvöfaldast í verði. Hlutabréf sem voru seld á genginu 4 fyrir 3--4 árum eru komin upp í gengið 8 og þeir sem eiga þessi hlutabréf hafa því tvöfaldað eign sína á örfáum árum. Þó er skattkerfi okkar þannig útbúið að mikill meiri hluti af þessum hagnaði verður algjörlega óskattlagður vegna ákvæða skattalaga. En það af honum sem skattlagt er verður með 10% skatti. Þetta hefur okkur fundist ósanngjarnt á sama tíma og verið er að skattleggja fátækt fólk fyrir tekjur sem kannski ná ekki 100 þús. kr. með allt að 42% skatthlutfalli. Á sama tíma gengur sem sagt milljarða gróði í gegnum kerfið til eigenda sinna og hann er annaðhvort alls ekki skattlagður eða mjög lítið skattlagður. Þetta er einn af mörgum ágöllum hins kapítalíska kerfis sem við búum við sem á að ráðast gegn og reyna að ná leiðréttingum á. Slíka mismunun á að afnema og þannig mætti nefna fjöldamörg dæmi um ágalla kerfisins sem við jafnaðarmenn hljótum að reyna að vinna gegn af öllum mætti.

Í þessu frv. höfum við alþýðubandalagsmenn gert tillögu um að við eignarnám á landi sé dómstólum ekki skylt að taka fullt tillit til verðhækkunar sem stafar af uppbyggingu þéttbýlissvæða í næsta nágrenni eða vegna opinberra framkvæmda eða annarra ytri ástæðna, heldur beri að leggja það í vald dómstólanna að meta hvað geti talist sanngjarnar bætur. Það er út af fyrir sig ekki verið að slá því föstu að allt land skuli vera á sama verði. Það er mikil mistúlkun á efni frv. Hins vegar er það lagt í vald dómstólanna að meta hvað sanngjarnt geti talist og hvað sé eðlilegt að miða við þegar svona stendur á. Auðvitað verða landeignir alltaf á mismunandi verði því að þær eru mismunandi verðmætar eftir aðstæðum. En við stöndum frammi fyrir því að þegar þéttbýlisbúar hafa verið að byggja upp sín kauptún og kaupstaði, þá hefur landið sem þeir þurfa að nýta undir hús sín verið selt á uppsprengdu verði. Það er algengt að þéttbýlisbúar hafa orðið að sæta því að landið sem þeir fá undir hús sín sé kannski selt á hundraðföldu verði, jafnvel miklu meira en það. Spurningin er hvort eðlilegt sé að landeigendur hagnist svo óeðlilega á þörf almennings fyrir íbúðarhúsnæði.

Ég hef orðið var við að sumir telja þetta vera alveg sérstaka árás á eignarréttindin og eignaréttinn, að eignarrétturinn sé mannréttindi og slík mannréttindi megi ekki með einum eða neinum hætti skerða. En ég vek á því athygli að það er löngu viðurkennd regla í samfélagi okkar og í flestum velferðarsamfélögum að það eru mannréttindi að sýnd sé sanngirni í viðskiptum. Það eru mannréttindi að fólk njóti sanngirni í viðskiptum við aðra. Þetta má sjá í löggjöf okkar á ýmislegan hátt. Við getum t.d. séð löggjöfina um samkeppni og einokun. Þar er reynt að koma í veg fyrir að þeir sem komast í einokunaraðstöðu hagnist á ósanngjarnan hátt á aðstöðu sinni.

Auðvitað eru líka til fjöldamargar aðrar hömlur í löggjöf okkar sem settar eru á viðskipti manna í milli. Ég þarf ekki að fara lengra en bara minna menn á að t.d., svo nefnt sé dæmi, er fólki ekki heimilt að selja blíðu sína. Það má kannski segja að það sé mannréttindabrot að banna fólki að selja blíðu sína en þetta er samt talið eðlilegt, sjálfsagt, sanngjarnt og nauðsynlegt í siðuðu þjóðfélagi. Eins er þörf á að setja ýmiss konar reglur um viðskipti manna. Og þegar verið er að setja hömlur á að land sé metið upp úr öllu valdi á uppsprengdu verði vegna þess að fólk er að sækjast eftir lóðum á þéttbýlisstað sem er að þenjast út, þá er verið að reyna að koma í veg fyrir að landeigendur nýti sér einokunaraðstöðu sína til að hagnast með ósanngjörnum hætti á öðrum. Við gætum kannski einfaldlega orðað þetta þannig að það séu mannréttindi að landeigendur beiti ekki þá landlausu ósanngirni. Það eru mannréttindi hinna landlausu að þeir geti eignast land undir hús sín á viðunandi verði sem talist getur sanngjarnt miðað við það hvernig viðkomandi landeigandi eignaðist sitt land og hvernig það hefur verið nýtt á liðnum árum. Þetta er hugsunin á bak við tillögu okkar og þó að sumir hafi rokið hér upp til handa og fóta og litið á þetta sem hinn argasta kommúnisma ef ekki eitthvað þaðan af verra þá vildi ég með þessum orðum minna á að um það hefur ríkt fullt samkomulag í okkar þjóðfélagi eins og mjög mörgum öðrum velferðarþjóðfélögum að það verður að setja vissar hömlur á viðskipti af ýmsum ástæðum eins og ég hef hér rakið, m.a. af sanngirnisástæðum, m.a. til að koma í veg fyrir að menn nýti aðstöðu sína til að hagnast á öðrum. Þetta er m.a. ein viðleitnin í þá átt að koma í veg fyrir ósanngjörn viðskipti.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þessa tillögu sem hefur fengið hér talsverða umræðu sem ég þakka fyrir, en væntanlega verður tækifæri til þess að fjalla frekar um hana síðar.

Um málflutning hv. 19. þm. Reykv. sem talaði áðan um fiskveiðistefnu Kvennalistans hef ég ekki margt að segja því miður. Ég átti ekki aðild að þeirri umræðu. Það var annar hv. þm. sem spurðist fyrir um stefnu Kvennalistans í sjávarútvegsmálum. Ég get hins vegar sagt alveg eins og er af hjartans sannfæringu að mér heyrðist hv. þm. flytja ágætt mál og ég er honum að mörgu leyti mjög sammála. Ég hef alltaf verið hlynntur byggðakvóta, enda var það stefna Alþb. þegar kvótakerfið var tekið upp á sínum tíma að byggðakvóti yrði tekinn upp og flest það sem fram kom í ræðu hv. þm. var mér mjög að skapi.