Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 11:22:33 (3751)

1997-02-20 11:22:33# 121. lþ. 75.6 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[11:22]

Mörður Árnason:

Herra forseti. Það mál sem hér er flutt er í sjálfu sér hið ágætasta mál. Þarna sýna sex hv. þm. áhuga á biðlistum á sjúkrahúsum og það hefur lengi verið staðreynd að biðlistarnir eru eitt helsta vandamálið í heilbrigðiskerfinu. Þeir skapa mikil óþægindi og mikinn kostnað fyrir sjúklinginn, samfélagið og vinnustaðina. Þeir snerta raunar fleiri en sjúklinginn sjálfan vegna þess að þeir snerta auðvitað fjölskyldu hans fyrir utan vinnufélaga. Fjölskyldan þarf að annast sjúklinginn. Þeir snerta börn hans ef hann er fullorðinn o.s.frv. Það er ekki bara um það að ræða að sjúklingar bíði, heldur þarf samfélagið að bera margvíslegan kostnað við þá bið, með lyfjum, hjálpartækjum ýmsum og fleiru. Þetta er auðvitað margrakið. Þess vegna hlýtur maður að fagna þeim áhuga sem fram kemur.

Hver er leiðin til þess að afnema biðlista? Það er auðvitað í fyrsta lagi að hafa þjónustuna nógu góða, að sjá um að þær deildir sem til eru á sjúkrahúsunum séu í gangi. Við höfum lifað það hér síðustu árin að deildum er meira og minna lokað á sumrin og ræður þá nánast kasti kylfa hvað fyrir verður í tilraunum, sumum örvæntingarfullum, ýmissa heilbrigðisráðherra til að spara að skipan ýmissa fjármálaráðherra. Jafnvel þó að deildir væru nokkuð í gangi þá er heilbrigðiskerfið eða sjúkrahúsakerfið ekki þannig að það geti svarað öllum kröfum á öllum tíma og þannig geta jafnvel í hinu ágætasta kerfi skapast vandamál við biðlistana. Þessi vandamál eru eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vakti athygli á í gær í umræðum um réttindi sjúklinga, til á öllum Norðurlöndum þannig að við erum ekki ein um þetta biðlistamál.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir rakti það hvernig menn hafa verið að reyna að leysa þessi mál í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Í Noregi hafa menn reynt að skipta sjúklingum í þrjá flokka, án þess að ég ætli að fara að endursegja ræðu Sivjar, og setja á þá hámarksbið. Það kerfi hefur ekki reynst vel og þeir eru að leggja það niður. Í Danmörku hafa menn hins vegar auk þess að reyna að bæta hina almennu sjúkrahúsþjónustu reynt að --- ja, hvernig á nú að orða það --- að skera kúfinn ofan af eða reynt að sinna þeim sem verst eru staddir með sérstöku átaki í hvert sinn. Sú leið hefur nokkuð verið reynd hér líka. Það gerði t.d. hv. þm. Sighvatur Björgvinsson þegar hann var heilbrrh. Ég kann ekki þá sögu aftar og kann að vera að fleiri heilbrigðisráðherrar hafi beitt sér fyrir því með því að veita ákveðnum sjúkrahúsum fjármagn þannig að biðlistarnir minnkuðu og óþægindi sjúklinganna og kostnaður samfélagsins sömuleiðis.

Hvernig er nú best að gera þetta? Svo háttar til hér á landi að skurðstofur og önnur tækniaðstaða er helst á hátæknisjúkrahúsunum á höfuðborgarsvæðinu og hún er vannýtt. Hún er ekki nýtt að fullu þannig skynsamlegast er að beita sér fyrir slíku átaki hér á höfuðborgarsvæðunum með því að setja þar í gang vaktir eða a.m.k. fulla nýtingu á þeirri tækniaðstöðu sem fyrir hendi er. Það þekkja menn úr atvinnulífinu að það er ekki skynsamlegt að hafa atvinnutækin ónýtt. Á því er beint tap. Eins er um tækniaðstöðu okkar á sjúkrahúsunum að það er heimskulegt að nýta hana ekki meðan sjúklingar bíða eftir aðgerðum, t.d. bæklunaraðgerðum sem eru oft nefndar, sjálfum sér og samfélaginu til mikils kostnaðar og óþæginda. Í þessum efnum verður því fyrir utan að reyna að búa sem best að sjúkrahúsunum að fara þær leiðir sem eru hagkvæmastar fjárhagslega og sjúklingunum jafnframt þægilegastar.

Því má bæta við í þessu máli af því að þáltill. sexmenninganna varðar einkum sjúkrahúsin úti á landi, og ekki ætla ég að mótmæla því að þar séu góð sjúkrahús er hugsanlega megi nýta til átaksverkefna af þessu tagi í einstökum tilvikum, að mér er sagt úr heilbrigðiskerfinu, og menn mótmæla því þá, að á höfuðborgarsvæðinu sé staðan sú að sjúklingar af landsbyggðinni sem eru sendir frá öðrum sjúkrahúsum á landsbyggðinni komist strax að eða mjög fljótt á meðan sjúklingar á höfuðborgarsvæðinu sem eru sendir frá lækni komist síðar að vegna þess að þeir lenda aftar í forgangsröðinni heldur en sjúklingar á landsbyggðinni. Þetta er svolítið skrýtin staða fyrir okkur Reykvíkinga og nágranna okkar að búa við vegna þess að Reykjavíkurborg sjálf og við af okkar skattfé höfum lagt drjúgt til þessa kerfis. En ekki ætla ég svo sem að gera þá umkvörtun að mínu meginatriði.

Það sem ég spyr hins vegar um er hvers vegna þessi tillaga er fram komin frá hv. þm. Tómasi Inga Olrich og fimm öðrum sjálfstæðismönnum af landsbyggðinni. Enginn þeirra situr í heilbrn. að því er mér er kunnugt og ég hef ekki, þó að ég hafi fylgst nokkuð með þingstörfum, heyrt þá taka mikið til máls í heilbrigðismálum. Hins vegar sitja þrír af þessum hv. þingmönnum í fjárln. og hafa þannig haft bein áhrif, beinust af þingmönnum, á fjárveitingar til sjúkrahúsa, bæði höfuðborgarsjúkrahúsanna og ekki síður sjúkrahúsa úti á landi sem var skorið mikið niður til í síðustu fjárlögum, skorið svo mikið niður til að hæstv. heilbrrh. hefur verið í vandræðum með að koma þeim niðurskurði fyrir og er lent í klandri með það mál satt að segja þó að það hafi ekki verið mikið til umræðu í þinginu.

Manni dettur það ljótt í hug að kannski stafi þessi tillöguflutningur sexmenninganna ekki af einskærri umhyggju fyrir fólkinu á biðlistunum, heldur snúi málin einkum að sjúkrahúsunum úti á landi og tengist klandri hæstv. heilbrrh. með sínar fjárlagaskipanir á herðunum. Sérstaklega dettur manni þetta í hug vegna þess að eins og hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir benti á þegar þessi umræða hófst í gær, þá kemur þáltill. sexmenninganna --- aðeins einn þeirra er held ég hér í salnum --- beint ofan í skýrslubeiðni sem sett var fram snemma þings frá Jóhönnu Sigurðardóttur og tíu öðrum jafnaðarmönnum þar sem beðið er um úttekt á áhrifum langrar biðar eftir læknisaðgerðum. Þeirrar skýrslu er að vænta á næstu dögum og það er í raun og veru óskiljanlegt að hv. þingmenn skuli setja þetta fram svona. Til þess kynnu að vera tvær meginástæður. Önnur er sú að þeir séu að nota þetta sem einhvers konar gambít á heilbrrh. í einhverjum erjum innan stjórnarflokkanna. Og ef þeir eru að því þá er rétt að það komi fram hér þannig að við séum ekki að ræða málin bara út í loftið.

Hin kann að vera sú að þeir séu að tryggja sjálfa sig heima í kjördæmum sínum --- allt eru þetta sjálfstæðismenn á landsbyggðinni --- gegn því klandri sem heilbrrh. er kominn í og stjórnarliðar yfir höfuð með sjúkrahúsin úti á landi, að þeir ætli að leggja þetta hér fram, týna því síðan í nefnd en veifa því síðan þegar þeir koma heim í kjördæmin og segja: Hér vorum við á ferðinni. Hér fljótum vér eplin, þó að hæstv. heilbrrh. hafi yfirboðið okkur að lokum.