Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 11:31:28 (3752)

1997-02-20 11:31:28# 121. lþ. 75.6 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[11:31]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Ég er enn að melta ræðu hv. síðasta ræðumanns og undrast nokkuð hvað hann ætlar okkur í málinu, hvers lags lymsku hann ætlar á bak við tillögu okkar sexmenninga.

Nú er það þannig eins og hann nefndi hér sjálfur, hv. þm. Mörður Árnason, að það er margrakið og flestum kunnugt að það eru biðlistar og það eru ýmis vandkvæði í heilbrigðisþjónustunni á Íslandi sem flestir landsmenn vilja að leysist. Við viljum væntanlega öll að fólk þurfi ekki að þjást, fólk þurfi ekki að bíða mánuðum, jafnvel árum saman eftir aðgerðum og ég efast um að við séum með ólíkar skoðanir í þessu efni.

Þessi tillaga til þál. felur í sér að Alþingi feli heilbrrh. að kanna ítarlega biðlistana, hvort þeir séu réttir, hvort eitthvað sé sem skeikar þar. Því verði samsetning þeirra könnuð og búseta sjúklinganna, þá er hægt að kanna það einnig hvort hætta sé á því að landsbyggðarfólkið fái of fljóta þjónustu miðað við höfuðborgarbúana. En ég bendi hv. þm. og þingheimi öllum á það að allir landsmenn hafa byggt upp heilbrigðiskerfið í landinu, allir eiga sama aðgang að því og enginn meiri en annar. Ef hægt væri að benda á að mismunun sé gerð milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis þá væri það alvarlegt mál á hvorn veginn sem það er.

Við eigum, herra forseti, að geta stytt biðtíma fólks eftir aðgerðum og því höfum við tekið það hér fram að mikilvægt er að byggja upp og búa hátæknisjúkrahúsin okkar með sem allra bestum og mestum búnaði, þannig að besta þjónustan sem völ er á í veröldinni sé einnig til staðar hér á Íslandi.

Hins vegar eru svo landbyggðarsjúkrahúsin sem eru ekki með hátæknina í sama mæli og hin. En gáum að því að þær aðgerðir sem lenda á biðlista og biðtíminn verður lengstur eftir eru skipti á liðum eða einhverjar slíkar viðgerðir sem geta strangt til tekið beðið þó að það sé mikil þörf á þeim vegna þess að það er vinnutap, það er þjáning og það eru ýmis óþægindi sem biðlistar og biðtími skapar, bæði andleg og líkamleg þjáning. Þá er málið það hvort sjúkrahús á landsbyggðinni hafi möguleika á því að taka þessar aðgerðir, sérhæfa sig sum eða öll í einhverjum sérstökum greinum aðgerðanna, liðaskiptum eða einhverju því sem ég hef ekki einu sinni þekkingu til að nefna. Þetta er það sem tillaga okkar felur í sér, að nýta þjónustuna sem er fyrir hendi í landinu, nýta hana sem best fyrir alla landsmenn og fyrir alla landsmenn jafnt.

Þó að ég sé reyndar ekki í andsvari þá verður það öðrum þræði það af þeim ástæðum að síðasti ræðumaður gerði okkur upp einhvers konar andóf eða meiningar í garð hæstv. heilbrrh. og þess klandurs sem ráðherrann væri kominn í með málin. Ég sit í fjárln. og við fleiri í þessum hópi sem flytur málið, þrír af sex, og því er okkur fyllilega kunnugt um vanda heilbrigðisþjónustunnar. Hins vegar skal það tekið fram hér að það er ekki fjárln. sem ákvað niðurskurð eða sparnað á landsbyggðarsjúkrahúsunum um 160 millj. heldur kemur það til þingsins frá ríkisstjórninni. Þetta er ramminn sem hæstv. heilbrrh. setur og þar er gert ráð fyrir 160 millj. kr. sparnaði. Sparnaður þessi er ekki til lykta leiddur og þar eru ýmis mál sem eftir er að fara yfir og við höfum vafalaust ekki sagt okkar síðasta í þeim efnum.

Til þess að bera nú af mér þær sakir að hafa lítið fjallað um heilbrigðismálin, þá er það töluvert mikið í fjárln. sem ég hef tjáð mig um þau, t.d. varðandi biðlistana og ég hef talað um að það sé svartur blettur á velferðarkerfinu okkar og heilbrigðisþjónustunni í landinu að hafa þessa biðlista án þess að vinna á þeim. Og mig langar til þess að það komi einnig fram og gjarnan í því formi að eðlilegt væri að nefndin, ef skipuð verður sem ég vona, kanni einnig hvort túlka megi ákvæði í EES-samningnum, í 22. gr. reglugerðar nr. 1408 í viðauka VI, sem svo að fái fólk ekki meðferð innan eðlilegra tímamarka miðað við heilsufarsástand og framgang sjúkdómsins, þá megi það fara annað innan efnahagssvæðisins til þess að fá þá þjónustu. Sem sagt, að samkomulagið feli það í sér að þjónustuna skuli veita innan ákveðinna tímamarka. Sé það ekki gert, þá geti það verið krafa þeirra sem á biðlistunum eru að þeim verði heimilað að fara annað til þess að fá þá þjónustu sem viðkomandi er búinn að bíða eftir lengi og vanta.