Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 11:38:58 (3753)

1997-02-20 11:38:58# 121. lþ. 75.6 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[11:38]

Mörður Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég fyrirgef hv. þm. Hjálmari Jónssyni tóninn í ræðu hans í minn garð sem stafar auðvitað af því að hann var að ég held ekki viðstaddur framsöguræðu 1. flm. í fyrrakvöld og talar þess vegna kannski svolítið á svig við 1. flm. en hann er 6. flm.

Málið er auðvitað þetta: Vissu hinir sex sjálfstæðismenn landsbyggðarinnar sem flytja þetta ekki af þeirri skýrslubeiðni sem jafnaðarmenn lögðu fram eða vissu þeir af henni og settu þetta samt fram? Hvort sem er gefur sína túlkunarleið á framkomu þessarar þáltill. og báðar þessar túlkunarleiðir enda auðvitað í hæstv. heilbrrh.

Ég vil líka spyrja að þessu fyrst við erum farin að ræða þetta svona efnislega: Er þá meiningin hjá hv. flm. að sérhæfingin á landsbyggðarsjúkrahúsunum sé þannig að við bætum þar við tækjum og aðstöðu og látum hana ónýtta á hátæknisjúkrahúsunum á höfuðborgarsvæðinu? Ég spyr líka: Ef þetta færi nú fram, er það þá þannig að landsbyggðarsjúkrahúsin eigi að taka þetta á sig með því fjármagni sem þau nú fá eða eiga þau að fá aukalegt fjármagn til þessa verkefnis? Er það þannig að forsvarsmenn þeirra hafa lýst því yfir að þeir anni ekki verkefnum sínum núna með því fjármagni sem þeir hafa og 160 millj. kr. klandrið stafar af því að þeir telja sig þurfa að fá peninga til þess að anna þeim verkefnum sem þau nú hafa og ekki þeim sem þeir bæta við?

Ég verð að segja það hér þó að ég sé í andsvari að það er líka erfitt að ræða þetta mál allt saman fyrst við erum farin að tala um það svona án þess að hæstv. heilbrrh. sé stödd á svæðinu. Og það gæti verið að það ætti að fresta þessari umræðu þangað til hún hefur tækifæri til þess að hlýða á hana og taka þátt í henni fyrst hana er farið að bera svo mjög á góma í henni.