Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 11:43:14 (3755)

1997-02-20 11:43:14# 121. lþ. 75.6 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[11:43]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Já, það er rétt hjá hv. þm. Hjálmari Jónssyni og ég tek eftir þegar maður strýkur þingmönnum öfugt feldinn þá er sífellt á það minnst. Já, ég er varaþm., það er rétt. Ég hef ekki mikla þingreynslu, það er líka rétt. En ég hef nokkuð heilbrigða skynsemi og þakka guði fyrir það og máttarvöldunum. Og skynsemi mín segir mér að þegar sex sjálfstæðismenn á landsbyggðinni sem ekki hafa að ráði snert á heilbrigðismálum koma með tillögu sem fellur nákvæmlega að skýrslubeiðni sem hér er flutt áður, þá sé eitthvað á bak við það mál. Það segir mér mín heibrigða skynsemi.

Nú hef ég hlýtt á hv. 6. flm. tillögunnar nokkra stund og mín heilbrigða skynsemi segir mér að lokum að hér sé á ferðinni einber sýndarmennska af hálfu þessara landsbyggðarmanna Sjálfstfl., ætluð til heimabrúks. Og ég tel það í raun og veru spilla fyrir störfum á þinginu, vera nánast óheiðarlegt og á mörkunum með að vera þinglegt að koma fram með svona tillögu.