Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 12:00:39 (3763)

1997-02-20 12:00:39# 121. lþ. 75.6 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[12:00]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Varðandi biðlistana tel ég ekki æskilegt að fara þá leið sem Norðmenn og Svíar hafa farið vegna þess að reynsla þeirra er mjög slæm. Ég tel miklu æskilegra að fara dönsku leiðina sem við reyndar höfum verið að fara hér, þ.e. að skrá biðlistana og skoða þá, gera tímabundnar ráðstafanir þar sem þeir eru að verða of langir. Ég held að við eigum ekki að setja upp eitt kerfi sem hægt er að misnota. Við eigum að vera með sveigjanlegt kerfi þannig að kerfið aðlagist ekki sjálfu sér ef svo má segja.

Varðandi sparnað almennt í sjúkrahúsþjónustunni, þá tel ég það vera rétta leið sem við erum að fara núna á landsbyggðarsjúkrahúsunum, þ.e. að reyna að spara í samráði við þau og samræma þá starfsemi sem þar fer fram. Á höfuðborgarsvæðinu tel ég hins vegar æskilegast og réttast að sameina Sjúkrahús Reykjavíkur og Ríkisspítalana. Um það er ekki pólitísk samstaða en það er sú leið sem ég tel langbest að fara. Það má segja að ef við horfum á tölurnar í heild þá erum við að velta milljörðum hér á höfuðborgarsvæðinu og þeir peningar sem við erum að setja í heilbrigðiskerfið úti á landi eru smáaurar miðað við það. Ef við ætlum virkilega að spara í heilbrigðiskerfinu, þá eigum við því að skoða höfuðborgarsvæðið nánar með sparnað í huga og þá eigum við að sameina Sjúkrahús Reykjavíkur og Ríkisspítalana. Allt annað er að mínu mati hálfgert hálfkák.