Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 12:11:36 (3769)

1997-02-20 12:11:36# 121. lþ. 75.6 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[12:11]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er nú svolítið hissa á því að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sem hér talaði skuli verja það að mismunur sé gerður á höfuðborgarsvæði og landsbyggð í vinnubrögðum. Ég held að það hljóti að vera vegna þess að hún hafi ekki áttað sig á þessum mismun sem við höfum verið að benda á í gagnrýni á vinnubrögð verkefnisstjórnarinnar.

Ég legg upp úr því að fjármunir skuli nýtast sem allra best í heilbrigðisþjónustunni og af þeim ástæðum er komin fram þessi þáltill. okkar sexmenninganna. Ég bendi svo á það líka að það var talað um mikilvægi þess að hafa samráð við heimamenn í niðurskurðaráformunum en ekki að skera ætti niður ákveðinn hluta af þjónustunni. Það á ekki að skerða þjónustu, það kemur fram hjá verkefnisstjórninni, en það á að spara um allt að 12%. Þetta er náttúrlega vantraust á þá sem stjórna þessum stofnunum. Þetta er svo mikið vantraust að það er ekki hægt að þegja yfir því.