Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 12:16:19 (3774)

1997-02-20 12:16:19# 121. lþ. 75.6 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[12:16]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er almennt mjög góð regla að fagráðherrar séu viðstaddir þegar ræddar eru tillögur á þeirra málasviði. Af þeirri ástæðu einni, fyrir nú utan það sem ærið oft vill gleymast að ráðherrar eiga að sinna þingskyldum eins og aðrir þingmenn, þá væri eðlilegt og sjálfsagt að hæstv. heilbrrh. væri hér sem einn fulltrúi hæstv. ríkisstjórnar sem er frekar fáliðuð í augnablikinu eins og sjá má.

Í öðru lagi er það auðvitað svo að þessi umræða hefur þróast þannig, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson bendir á, að það er fullkommlega óeðlilegt að mínu mati að halda henni áfram öðruvísi en að a.m.k. hæstv. heilbrrh. komi hingað. Það jaðrar við að maður fari að biðja um hæstv. forsrh. sem ábyrgðarmann á stjórnarheimilinu því að þessi orðaskipti stjórnarliða hér eru satt best að segja að verða harla óvenjuleg, svo ekki sé nú meira sagt, þegar ítrekað er fullyrt af talsmanni annars stjórnarflokksins í heilbrigðismálum að um vantrauststillögu í reynd sé að ræða á hæstv. heilbrrh. Ég tek því mjög eindregið undir óskir um að það verði gengið svo frá að hæstv. heilbrrh. geti orðið viðstödd þegar umræðunni heldur áfram væntanlega strax eftir matarhlé sem ég hygg að sé að verða tímabært að gefa hvort sem er.