1997-02-20 13:33:11# 121. lþ. 75.7 fundur 308. mál: #A fræðsla til að búa nemendur í framhaldsskóla undir þátttöku í samfélaginu# þál., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[13:33]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér er fram haldið umræðu um þáltill. um fræðslu til að búa nemendur í framhaldsskólum undir þátttöku í samfélaginu.

Ég vil í upphafi taka mjög skýrt fram að ég er efnislega sammála því sem þáltill. felur í sér og efni hennar, eins og það er framsett í grg. Þá vil ég taka undir orð hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, um fræðslu í fjármálum fyrir nemendur, ekki síst í framhaldsskólum. Ég get þó ekki látið hjá líða að minna á að í nokkrum framhaldsskólum landsins, líklega um tíu skólum fer fram kennsla, og hefur gert um sex til sjö ára skeið, í áfanga sem í daglegu tali er kallaður SAM og felur í sér það sem efni þessarar tillögu lýsir, þ.e. fræðslu í samskiptum kynjanna, fjölskylduábyrgð, fjármálafræðslu o.s.frv. Þá er líka vert að vekja athygli á því að um þessar mundir er á vegum menntmrn. starfandi nefnd við námskrárvinnu, stefnumótun í námskrárvinnu, þar sem m.a. allir þingflokkar hafa tilnefnt fulltrúa í. Ég lít því svo á að tilgangur þessarar þáltill. sé að senda skilaboð, nokkurs konar viljayfirlýsingu, frá þingi til þeirrar nefndar sem vinnur að námskrárgerðinni.

Mig langar að gera að umtalsefni þar sem minnst er á markmið laga um framhaldsskóla ,,að gera nemendur hæfa til að lifa í lýðræðisþjóðfélagi og dýpka skilning þeirra á samfélaginu`` en um það snýst efni tillögunnar, þ.e. að upp verði tekin sérstök fræðsla í þessum fræðum. Við þekkjum þetta og hefur oft komið til umræðu þegar fjallað er um markmið með skólastarfi --- að búa nemendur undir virka þátttöku í lýðræðissamfélagi.

Hins vegar þykir mér ástæða til að við spyrjum okkur hvað við eigum í rauninni við með þessu. Hvernig ætlum við að búa nemendur undir virka þátttöku í lýðræðissamfélagi, við sem öll erum unnendur lýðræðisins? Hvað er í rauninni átt við? Það er kannski hin stóra skólapólitíska spurning sem fram kemur í grg. og er mjög mikilvægt að sé nokkuð skýr. Hin skólapólitíska spurningu snýst um hvenær við viljum hefja sérhæfingu, sérstaklega í framhaldsskóla, og að hve miklu leyti viljum við kenna nemendum framhaldsskóla sameiginlega þætti. Hversu langt viljum við skilgreina lýðræðishugtakið. Ég leyfi mér að minna á að nú um árabil hefur verið litið sérstaklega á fjórar námsgreinar, þ.e. íslensku, dönsku, ensku og stærðfræði, sem ,,æðri greinar``. Úr þeim hefur verið prófað á samræmdum prófum og við gerum okkur auðvitað fyllilega grein fyrir því að margir skólar hafa sniðið skólastarf sitt utan um þessar svonefndu kjarnagreinar sem prófað hefur verið úr á samræmdum prófum og nemendur eru síðan valdir inn í framhaldsskóla á grundvelli árangurs þessara fjögurra ,,æðstu`` greina samræmdra prófa. Ein spurningin sem við leitum svara við hlýtur að verða sú: Hverjar eiga þessar kjarnagreinar að vera og er rétt að þessar fjórar samræmdu greinar verði æðri en aðrar? Að við byggjum skólastarf og sníðum það í kringum þær greinar og veljum nemendur inn í framhaldsskóla á grundvelli árangurs í þeim?

Þegar við erum að búa okkur undir að svara þeirri spurningu hvað við eigum við með því að búa nemendur undir virka þátttöku í lýðræðissamfélagi má segja að ákveðnar mótsagnir komi fram þegar við erum að reyna að svara því formlega og óformlega. Við höfum annars vegar sagt að við þurfum að standast sambærilegar kröfur og samkeppnisþjóðir okkar gera í sínu menntakerfi, ekki síst í raungreinum. Ég minni á mjög gagnlega umræðu sem varð í kjölfar birtingu niðurstaðna svonefndrar TIMSS-skýrslu, þar sem árangur íslenskra nemenda virtist vera heldur lakari miðað við jafnaldra þeirra í löndum heimsins. Viðbrögðin voru réttilega þau að við yrðum að bæta skólastarf og bæta árangur okkar á því sviði. Þar erum við í rauninni að tala á grundvelli samkeppni milli þjóða.

Eins og þáltill. gerir ráð fyrir, og ég tek efnislega undir, þá tölum við einnig um að sinna hinum félagslegu þáttum. Heimilin hafa verið að breytast. Það er upplausn og sundrung víða á heimilum, m.a. vegna þess að báðir aðilar vinna úti o.s.frv. og ætla ég ekki að fara nánar út í þá umræðu. Ábyrgðin og kröfurnar beinast meira og meira að skólafólki að taka við hinum uppeldislega þætti og hinum félagslega þætti, sinna jafnrétti, sinna félagsmálum o.s.frv. Ég nefni líka í þessu samhengi umræðu um forvarnir. Snar þáttur í því er að byggja einstaklinginn þannig upp að á tímum atvinnuleysis, á tímum vaxandi tómstunda þá sé einstaklingurinn fær um og í stakk búinn til að njóta tómstunda. Þá komum við að þætti eins og listgreinum. Hvar ætlum við að sinna þeim? Eiga þær að vera hluti af kjarnagreinum í framhaldsskóla? Ég vildi draga þetta fram, herra forseti, vegna þess að í því felast sumpart mótsagnir þar sem við horfum annars vegar á afmarkaðar greinar, sem við gætum þess vegna kallað samkeppnisgreinar, og hins vegar þessar mýkri greinar og þann félagslega þátt, sem við erum öll sammála um að skólakerfið þurfi að sinna, en þeim verður seint og illa komið fyrir í samræmdum prófum, eins og þau hafa verið tíðkuð í grunnskóla um árabil og nemendur flokkaðir niður á grundvelli frammistöðu á samræmdum prófum. Slíkum prófum verður seint komið við í listgreinum, þeim prófum verður seint komið við í svokölluðum ratvísikjarna, eins og þáltill. vitnar til eða SAM-áfanga sem er í rauninni sama fyrirbrigði. Þetta er umræða sem hlýtur að fara fram í þeirri námskrárvinnu sem á sér stað á vegum menntmrn. núna. Alþingismenn hljóta að bíða eftir niðurstöðum og umræða um niðurstöðu þeirrar vinnu hlýtur að eiga sér stað á hinu háa Alþingi. En ég vek enn og aftur athygli á því að þingflokkarnir eiga fulltrúa í þeirri námskrárvinnu sem ég hef vitnað til en ég lít svo á að hér sé verið að beina tilmælum til nefndarmanna í námskrárnefnd.