1997-02-20 13:54:00# 121. lþ. 75.7 fundur 308. mál: #A fræðsla til að búa nemendur í framhaldsskóla undir þátttöku í samfélaginu# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[13:54]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu tillaga okkar kvennalistakvenna um fræðslu til að búa nemendur í framhaldsskólum undir þátttöku í samfélaginu. 1. flm. er hv. þm. Birna Sigurjónsdóttir, sem gerði grein fyrir tillögunni fyrir nokkrum dögum. Ég vil sem einn flm. láta í ljós þá skoðun mína að þetta er góð tillaga en ég óttast um leið það sama og fram hefur komið í máli fleiri þingmanna, að hugsanlega sé hún fullvíð og því verði erfiðara að framkvæma hana ef hún verður samþykkt. Lagt er til að tekin verði inn í brautarkjarna framhaldsskóla kennsla um, ,,samskipti kynjanna, fjölskylduábyrgð og einstaklingsskyldur, fjármálafræðsla, fræðsla um ábyrgð á eigin heilsu, umgengni við umhverfið og fleiri greinar sem hafa það að markmiði að gera nemendur að sjálfstæðum einstaklingum í nútímaþjóðfélagi.``

Ég legg áherslu á að þetta eru allt mjög mikilvæg atriði og ekki síst fjármálafræðslan sem tveir hv. þm. hafa gert að umræðuefni. En það sem ég vil fyrst og fremst gera að umræðuefni er sá þáttur þessarar tillögu sem er lögbundinn og hefur verið lögbundinn í 20 ár samkvæmt jafnréttislögum en því miður er enn ekki sinnt í mörgum skólum.

Þar sem ég hef verið í nefnd á vegum menntmrn. um þessi mál hef ég haft tækifæri til að fylgjast sérlega með því hvað hefur verið að gerast á undanförnum árum. Árið 1995 lagði ég fram fyrirspurn á hv. Alþingi þar sem ég spurðist fyrir um hvernig 10. gr. jafnréttislaganna væri framkvæmd, þ.e. hvernig jafnréttisfræðslu væri hagað í skólum. Og það má segja að svörin voru óskaplega stuttaraleg árið 1995 og á það bent að það væri menntmrn. annars vegar og skólastjórar grunnskóla og skólameistarar framhaldsskóla sem bera ábyrgð á því að jafnréttisfræðsla sé tekin upp.

Núv. menntmrh. hefur gefið frá sér mikið plagg sem heitir Menning og menntun, forsendur framtíðar. Mjög framarlega í ritinu stendur undir fyrirsögninni Stefna í jafnréttismálum, með leyfi forseta:

,,Skólar skulu vinna ötullega að því að tryggja jafnan rétt drengja og stúlkna. Fræða nemendur um stöðu kynjanna og vinna gegn því að nemendur festist um of í farvegi hefðbundinna verkaskiptinga kynjanna.``

Þarna stendur ýmislegt fleira gott um þessi mál. En það er ósköp eðlilegt að þetta komi fram í markmiðsplöggum menntmrn. þar sem hér er um lögbundið atriði að ræða.

Nú liggur hins vegar fyrir nýleg könnun um það hvernig framkvæmd þessara mála er. Reyndar hefur sú könnun komið til umræðu á hv. Alþingi í tengslum við fyrirspurnir, ég held eina eða tvær. Úrtakið eru skólastjórar bæði grunn- og framhaldsskóla og ég vil vekja athygli á því að í þessari könnun kom í ljós að það eru ekki nema 68% svarenda sem telja að veitt sé jafnréttisfræðsla í skólum eða fræðsla um virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi. Það eru marktækt fleiri svarendur í grunnskólunum en í framhaldsskólum sem töldu að slík fræðsla væri veitt en það er einkum framhaldsskólinn sem við erum að ræða um hér. Þá kemur fram í umræddri könnun að þrátt fyrir að margir telji að einhver fræðsla eigi sér stað, þá er aðeins 1% grunnskóla sem gerði sérstaka jafnréttisáætlun og enginn framhaldsskóli, 85% grunnskóla og 89,5% framhaldsskóla skipuleggja ekki jafnréttisfræðslu sérstaklega.

Ein spurning í þessari könnun var um það hvort eitthvað væri sem skólastjórar í þessum skólum teldu að hindraði framkvæmd jafnréttisfræðslu. Ég vil benda á, í tilefni þessarar tillögu, að í framhaldsskólunum nefna 33,3% skólastjóra tímaskort, 44,4% skort á fræðsluefni og 30,6% ónóga fræðslu til kennara. Þarna er því enn þá verulega mikið að, þó lögbundið hafi verið í 20 ár að fræða eigi um jafnréttismál í skólum.

[14:00]

En ég vil þó láta í ljós ánægju mína yfir því að það er ýmislegt að gerast á þessu sviði í framhaldsskólunum. M.a. er nú búið að semja kennslubækur um jafnrétti kynjanna, bæði nemendahefti og kennarahefti, eftir þau Elínu Vilhelmsdóttur og Garðar Gíslason. Og það er verið að prufukeyra þetta efni núna í nokkrum framhaldsskólum og því fagna ég mjög og ég vona að það verði til þess að hv. nefnd sem núna er að undirbúa námskrá framhaldsskólans geri það af alvöru að taka eftir því að jafnréttisfræðsla er lögbundin og að þessu verði komið inn í brautakjarna framhaldsskólanna.

Ég vil að lokum, herra forseti, nefna að í grein sem ég skrifa sjálf í tímaritið Uppeldi árið 1992 vitna ég í rit sem heitir Jöfn staða kynja í skólum sem menntmrn. gaf út árið 1990. Þar segi ég að ég telji að þar sé mjög góð markmiðssetning fyrir kennslu í jafnréttismálum. En í viðbót við þá markmiðssetningu, og þar er ég einkum að tala um námskrá framhaldsskóla, vanti útfærslu á því hvernig kynjamunur og jafnréttismál snúa að kennurum í mismunandi greinum því það er vissulega vandinn annar í stærðfræði en í leikfimi, bókmenntum eða sagnfræði eða til að mynda í tölvumálum eins og við ræddum hér í morgun. Og í því sambandi bendi ég á könnun á 50 enskum framhaldsskólum sem sýnir að ekki dugar að bjóða upp á nám í fjölskyldufræðum eða heimilisfræði sem valgrein því þá velji konur það eingöngu og hætta sé á að námið fái aðra (Forseti hringir.) stöðu innan skólans en aðrar greinar. Svipaðar niðurstöður hafa komið fram í norskum rannsóknum og því er mjög mikilvægt að þetta nám fari inn í brautarkjarna, þ.e. verði allt að því skylda eins og hér er lagt til.