1997-02-20 14:09:57# 121. lþ. 75.7 fundur 308. mál: #A fræðsla til að búa nemendur í framhaldsskóla undir þátttöku í samfélaginu# þál., Flm. BirnS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[14:09]

Flm. (Birna Sigurjónsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. fyrri ræðumanni að vissulega þarf að veita fjármuni í námsgögn til þessarar kennslu eins og annarrar kennslu. Og það er nú ljóður á okkar ráði í skólamálunum hvað yfirleitt eru veittir litlir fjármunir til námsgagnagerðar. Það þyrfti að bæta verulega um bæði í grunnskóla og framhaldsskóla og sinna því miklu betur. En ég vil líka segja að ég tel að í námi af þessu tagi þurfi að horfa vítt og leita út fyrir skólann. Þarna geta komið inn aðilar úr atvinnulífinu, bankar með fræðslu á fjármálasviðinu --- ég er ekki að segja að þeir eigi endilega að leggja til með sér námsgögn en það er mjög mikilvægt að kennsla af þessu tagi verði lifandi og í beinum tengslum við það sem er að gerast á hverjum tíma og lokist ekki inni og verði dauður bókstafur.