Menningarráð Íslands

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 16:29:52 (3825)

1997-02-20 16:29:52# 121. lþ. 75.11 fundur 184. mál: #A Menningarráð Íslands# þál., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[16:29]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um stofnun Menningarráðs Íslands. Flutningsmenn eru auk mín hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Valgerður Sverrisdóttir, Magnús Stefánsson og Jónas Hallgrímsson, en sá síðasttaldi sat á þingi sem varaþingmaður þegar þáltill. var lögð fram. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að undirbúa stofnun Menningarráðs Íslands. Nefndin verði skipuð fulltrúum allra listgreina ásamt fulltrúum stjórnmálaflokka og menntamálaráðuneytis. Hlutverk ráðsins verði eftirfarandi:

a. að móta heildarstefnu í menningarmálum,

b. að veita stjórnvöldum ráðgjöf á sviði menningarmála,

c. að skipa ásamt menntamálaráðherra fagnefndir sem skipta fjármagni sem veitt er á fjárlögum til einstakra þátta menningarmála.

Ráðið verði formlegur umræðu- og samráðsvettvangur á sviði menningarmála og hafi jafnframt möguleika á frumkvæði í einstökum málum. Það verði sameiginlegur vettvangur stjórnvalda og þeirra sem að menningarmálum starfa.``

Þessi þáltill. er í rauninni endurflutt því að hún var borin fram á 118. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu, enda kom hún mjög seint fram í lok þess þings.

Saga íslensku þjóðarinnar er orðin rúmlega 1100 ára gömul og segja má að á þeim tíma hafi gengið á ýmsu í samskiptum lands og þjóðar. Það hafa skipst á skin og skúrir í þeim samskiptum og segja má að þessi litla þjóð norður í Dumbshafi hafi í einangrun sinni ornað sér við að njóta menningar, skapa menningu og listir, ornað sér við menningu sína og tungu. Það er í rauninni merkilegt að þessi einangraða þjóð langt norður í hafi, þessi litla þjóð, hafi til að mynda á miðöldum skrifað sögur sem í dag eru almennt taldar meðal perlna heimsbókmenntanna. Það er ekki síst sú einangrun sem þjóðin lengst af bjó við sem skapaði þá menningarlegu sérstöðu sem ávallt hefur einkennt okkur en það er jú menningin og tungan sem skilur eina þjóð frá annarri.

Nú má segja að á allra síðustu árum hafi þessi einangrun þjóðarinnar verið rofin. Við erum ekki nema í u.þ.b. þriggja klukkustunda fjarlægð frá Piccadilly Circus í London eða Ráðhústorginu fræga í Kaupmannahöfn. Það er liðin sú tíð að íslenska þjóðin þurfi að bíða vorskipa til að fá fréttir utan úr heimi. Það er tæknin sem hefur rofið einangrun þjóðarinnar, ekki síst tækni í samgöngum en líka á öðrum sviðum. Það má segja að þjóðlegt og menningarlegt umhverfi íslensku þjóðarinnar hafi verið og sé að breytast. Það er ekki síst vegna tækni á sviði samskipta þar sem fjarskiptahnettir og myndbönd, tölvur og internet og fleira í þeim dúr hefur hafið innreið sína inn í íslenskt þjóðfélag og inn í íslenska menningu að ógleymdum hinum fullkomnu hljómflutningstækjum sem virðast vera á hverju heimili.

Þá hafa samskipti kynslóðanna verið að breytast þar sem ungt fólk elst upp í samskiptum hvert við annað í stað þess að kynslóðir unnu og störfuðu meira saman áður fyrr. Verklag þjóðarinnar er að breytast, lestrarvenjur eru að breytast eða með öðrum orðum, menning okkar og menningarneysla á öllum sviðum er að breytast. En það er einmitt á því sviði sem við þurfum að hafa ofarlega í huga að sú menningarneysla sem er farin að einkenna þjóðina í dag ber í sívaxandi mæli vott um alþjóðahyggju. Ýmsir alþjóðlegir risar í krafti styrkleika síns sjá m.a. um að fóðra þau menningartæki sem þjóðin styðst við í menningarneyslu sinni og þessir alþjóðlegu risar sem gjarnan boða mjög einhæfa og flata menningu geta og hafa mikil áhrif. Þess vegna er það mikilvægt fyrir litla þjóð að spyrna við fæti og vera vel á varðbergi. Ég segi spyrna við fæti, ekki standa gegn heldur er brýnt fyrir okkur að styrkja sérkenni okkar, styrkja menningu okkar og listsköpun til þess að við getum varðveitt íslenska menningu en um leið aðlagað okkur nýju menningarumhverfi og haldið sérkennum okkar. Ég vil í þessu samhengi nefna örfá dæmi.

Líklega er sá Íslendingur sem þekktastur er í hinum stóra heimi í dag söngkonan Björk Guðmundsdóttir og það sem ekki síst hefur skapað sérstöðu hennar, fyrir utan persónulega hæfileika, er sérstaða hennar sem sprottin er upp úr íslenskri menningu, sú sérstaða sem hefur náð augum og eyrum stórþjóða, almennings í útlöndum. Ég nefni myndlistarmanninn Erró sem byggir á íslenskum grunni, íslenskri menningu. Enn í dag er verið að gefa út bækur Nóbelsskáldsins Halldórs Laxness þar sem fjallað er um sérstæða íslenska menningu. Ég nefni nú nýlega þá viðurkenningu sem einn af fremstu kvikmyndagerðarmönnum okkar, Friðrik Þór Friðriksson var að fá úti í heimi. Ég nefni að auki alla þá alþýðulist sem stunduð er nánast alls staðar á byggðu bóli á Íslandi. Ég hygg að í fáum löndum, líklega hvergi í heiminum sé miðað við höfðatölu, sé jafnmikið um áhugafólk á hinum ýmsu listasviðum, hvergi séu áhugamannaleikhópar jafnalgengir, söngkórar, myndlistafólk, jafnmikið um áhugafólk á þessu sviði og það er einmitt af þessum ástæðum sem það er mikilvægt fyrir okkur að styðja við bakið á og varðveita íslenska menningu. Við erum fámenn þjóð og við megum okkur lítils gagnvart einhæfri alþjóðamenningu ef við höldum ekki vöku okkar. Þess vegna er mikilvægt að standa skynsamlega að verki.

Ég vil benda á það að stórar þjóðir eins og Frakkar og Þjóðverjar gera allt sem í þeirra valdi stendur til að varðveita tungu sína og menningarleg sérkenni þrátt fyrir mikla alþjóðavæðingu á öllum sviðum meðal þessara þjóða. Hið sama gildir um Norðurlandaþjóðir.

Sú tillaga sem ég mæli hér fyrir gerir ráð fyrir að komið verði á laggirnar menningarráði. Ég legg þunga áherslu á það að hér er ekki verið að tala um þunglamalega stofnun heldur fyrst og fremst samráðsvettvang stjórnmálamanna og þeirra aðila sem stunda og eru í forsvari fyrir samtökum þeirra sem stunda menningu og listir, samráðsverkefni. Tillagan gerir ráð fyrir því að skipuð verði nefnd sem skoði með hvaða hætti skynsamlegast verði að koma slíkum samráðsvettvangi fyrir. Þeirri nefnd er að sjálfsögðu ætlað að fjalla um verkefnin en ég leyfi mér að nefna dæmi um verkefni sem slíkur samráðsvettvangur gæti tekið til athugunar hjá sér. Það er að móta opinbera stefnu á vegum ríkisins.

Það er vandmeðfarið að móta opinberar listir um stefnu eða menningu. Þá verðum við ávallt að hafa í huga frelsishugtakið því að listin þarfnast frelsis. En það er mikilvægt að hið opinbera, ríkisvaldið, móti stefnu, hvernig ríkisvaldið stuðlar að framsækinni menningu, varðveitir íslenska þjóðlega menningu, hvernig hún vill hlúa að þeim sem stunda þetta og hvernig hún vill hlúa að þessari menningu. Ég get jafnvel séð fyrir mér að þessi samráðsvettvangur í samstarfi stjórnmálamanna og þeirra sem koma úr menningargeiranum setji sér háleit markmið til lengri tíma, ekki síst með það í huga að koma upp aðstöðu sem nauðsynleg er og setji fram einhvers konar menningaráætlun sambærilega við vegáætlun og hafnaáætlun svo dæmi sé tekið. Ég nefni dæmi um meðferð og úthlutun fjár og styrkja til listamanna, samtaka þeirra þannig að list og menning fái blómgast. Ég nefni dæmi um þýðingar. Ég nefni sérstaklega þýðingar í kvikmyndum og sjónvarpi, en í dag er engin sérstök regla um það hvernig farið er með þýðingar. Líklega er það sá texti sem flestir lesa í dag, enda eru kvikmyndir afskaplega vinsælar meðal þjóðarinnar. Þýðendum eru hins vegar eftir því sem ég best veit ekki settar neinar skýrar verklagsreglur og málfarskröfur um verk sín. Ég nefni þetta sem hugsanleg dæmi um verk fyrir slíkan samráðsvettvang.

Þá vil ég líka nefna menntun. Hverja viljum við stöðu listarinnar og menningarinnar í menntakerfinu? Hver á að vera staða listagreina í grunnskólum og framhaldsskólum og vísa ég þá til þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram í dag undir öðrum málum. Ég nefni líka stöðu listaháskólans sem lengi hefur verið til umræðu og þannig má áfram telja. Það er mikilvægt að stjórnmálamenn og fulltrúar grasrótarinnar úr menningar- og listageiranum komi saman að þessu og myndi sér sameiginlegan vettvang.

Í þessu sambandi vil ég einmitt benda á ályktun um menningarmál frá aðalfundi Bandalags íslenskra listamanna þann 16. nóvember 1996, þar sem Bandalag íslenskra listamanna auglýsti eftir opinberri stefnu í menningar- og listamálum. Ég tel einmitt að menningarráð af þeim toga sem hér hefur verið kynnt geti verið vettvangur til þess að móta slíka stefnu. Ég tel að að sé hyggilegra og heppilegra málsins vegna að stjórnmálamenn í samráði og samstarfi við mennta- og listafólk komi að mótun slíkrar sameiginlegrar stefnu og menningarráðinu er einmitt ætlað að vera slíkur vettvangur. Það er gild spurning og það er gilt ákall frá Bandalagi íslsnskra listamanna: Hvað viljum við í menningarlegu tilliti og hvers vegna? Það snýst um fagurt mannlíf og fleira í þeim dúr. Það er sem sagt verið að ræða hér menningarráð, samráðsvettvang stjórnmálamanna og listamanna og einstaklinga úr menningargeiranum. Þetta er spurningin um það að við stöndum saman, þing og þjóð skulum við segja, ekki í bákni heldur á lifandi og opnum samráðsvettvangi þar sem list og menning nærist á frelsi. Það eru sameiginlegir hagsmunir stjórnmálamanna og listafólks að örva og varðveita íslenska menningu.

Ég vil vísa til reynslu frænda okkar á Norðurlöndum sem hafa farið svipaðar leiðir, e.t.v. með einhverjum blæbrigðamun í útfærslum og telja reynslu góða af slíkum samstarfsvettvangi stjórnmálamanna og aðila úr menningar- og listageiranum.

Markmiðið með þáltill. er að styrkja íslenska menningu gagnvart fjölþjóðamenningu þannig að íslensk þjóð geti enn um sinn státað af sérkenningum sínum og menningu, þjóðerni sínu og þá um leið sjálfstæði sínu.

Ég læt þetta duga, herra forseti, og leyfi mér að óska eftir því að málinu verði vísað til hv. menntmn.