Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 16:07:14 (3912)

1997-02-25 16:07:14# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., Frsm. minni hluta RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[16:07]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn talaði um að framselja valdið til aðila úti í bæ og hann var mjög reiður yfir því að þingmenn væru að gera samning við aðila úti í bæ. Hverjir eru það sem í þessu máli eru að gera samning? Hvaða þingmenn? Það er annaðhvort ríkisstjórnin sem hefur gert samning við ASÍ eða meiri hluti í félmn. sem hv. þm. Pétur Blöndal er hluti af og hefur tekið út málið og hefur ákveðið að standa að því. Þrátt fyrir yfirlýsingar og tilfinningaheita ræðu hans má skilja svo að hann muni ýta á græna takkann þó að hann hafi í raun og veru ekki upplýst það.

Þó að samið hafi verið við ASÍ um breytingar á frv. þá breytir það ekki minni afstöðu til frv. þó ég fagni þeim brtt. af því að þær eru í takt við þau sjónarmið sem ég hef sjálf sett fram í þessum ræðustól. Hins vegar er það svo að sum mál eru annars eðlis en önnur hjá löggjafanum. Við skulum staldra við þessi, sem eru vinnumarkaðsmál. Það er alltaf verið að vísa til Danmerkur. Í Danmörku hafa menn þau samskipti á vinnumarkaði að þeir koma sér saman um vinnumarkaðsmálin, um samskiptin. Þar er næstum því ekkert í lögum um samskipti manna beggja vegna borðs, verkalýðshreyfingar versus vinnuveitenda. Hér var slíkt keyrt í gegn með valdi í fyrra af hálfu þessara stjórnaflokka.

Nú er aftur komið frv. sem snýr að vinnumarkaðnum. Hvers eðlis er það? Jú, það er þess eðlis að 1955 var samið um mál eftir harðvítugt verkfall og látin af hendi 1% launahækkun fyrir. Þess vegna talar maður við verkalýðshreyfinguna og kemur sér saman um breytingar en ryðst ekki með málið hérna inn í sal eins og nú var gert. Málið fer í félmn. þar sem við erum búin að liggja yfir því í allt að fjóra fundi í viku, tíu tíma sl. viku og svo er samið við ASÍ af því að yfir vofir verkfall.