Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 17:28:31 (3919)

1997-02-25 17:28:31# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[17:28]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að taka undir þessi sjónarmið mín gagnvart föngum. Það er þannig samkvæmt lögum um fangelsi og fangavist, það er algjörlega ótvírætt, að fangi á rétt á námi og/eða vinnu á meðan á vistun í fangelsi stendur. Það er óskiljanlegt að ekki skuli hafa verið greidd opinber gjöld til að tryggja rétt þeirra þegar afplánun lýkur.

Það er hins vegar einhver misskilningur hjá hv. þm. að verið sé að færa verkefni frá þeim sem ekki greiddu og ekkert komu að þessu yfir til þeirra sem greiða. Sveitarfélögin eru atvinnurekendur og verða það í auknum mæli. Það er nefnilega verið með annarri hendinni að færa verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna til að auka vægi þeirra sem atvinnurekenda í raun. Í sumum tilvikum er það. Það er verið að taka yfir stór verkefni sem áður voru hjá ríkinu og nú eru og verða hjá sveitarfélögunum. Þau eru auðvitað atvinnurekendur og koma að þessum málum og miklu, miklu meira heldur en eitthvert bákn, þau eru í miklu meiri tengslum við það sem er að gerast í atvinnulífinu á hverjum stað heldur en svona bákn verður. Hv. þm. hlýtur að taka undir það með mér að sveitarfélögin eru auðvitað bara smækkuð útgáfa af ríkisrekstri, þetta er hluti af hinu opinbera og það er um rekstur að ræða á vegum sveitarfélaganna og í sumum tilvikum hreinan atvinnurekstur.