Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 17:31:29 (3921)

1997-02-25 17:31:29# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[17:31]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram að ég er mjög ánægður með þær brtt. sem hér liggja fyrir frá meiri hluta félmn. og ég vil þakka meiri hlutanum sérstaklega fyrir góð störf. Ég lýsi sérstakri ánægju með það samstarf sem ég hef átt við fulltrúa ASÍ varðandi þetta mál. Og það er fullt samkomulag við þá um frv. eins og það kemur til með að líta út að samþykktum þessum brtt.

Frv. til laga um vinnumarkaðsaðgerðir og frv. til laga um atvinnuleysistryggingar voru samin af nefnd eins og hér hefur komið fram. Í henni áttu sæti fulltrúar stjórnarflokkanna, vinnumarkaðarins, Vinnuveitendasambandsins, Vinnumálasambands samvinnufélaga, BSRB, ASÍ og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Um frv. um vinnumarkaðsaðgerðir var alger samstaða í nefndinni og af því að það var alger samstaða þá taldi ég heppilegt að leggja það fram nákvæmlega eins og nefndin gekk frá því. Frv. til laga um atvinnuleysistryggingar var með fyrirvara frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni og frá Hervari Gunnarssyni, varaforseta ASÍ. Þeir höfðu hins vegar sett fram tillögur og sumar þeirra færði ég inn í frv. og vonaðist eftir að þar væri farinn nokkur millivegur á milli meiri hluta og minni hluta nefndarinnar. En þegar ég hafði kannað umsagnir um frv. beitti ég mér fyrir breytingum á því og ég beitti mér enn fremur fyrir frekari breytingum eftir viðræður við ASÍ.

Ég vil þakka hv. minni hluta fyrir þau fylgiskjöl sem hann birtir með nál. um atvinnuleysistryggingafrv. Reyndar eru þessar umsagnir, og það ber að hafa í huga, um upphaflegt frv. en ekki eins og það kemur til með að líta út þegar brtt. hafa verið færðar inn í það. Og rétt er að hafa í huga að það hefur verið tekið tillit til flestra þeirra meginbreytingartillagna sem hafa komið fram. Ég þakka sem sagt hv. minni hluta fyrir að birta hér fskj., sem eru nokkuð fróðleg, með minnihlutaáliti sínu. Í fyrsta lagi birta þau sem fskj. skýrslu frá Vinnumiðlun Reykjavíkurborgar um skráð atvinnuleysi í Reykjavík 30. nóvember 1996. Þetta er mjög fróðleg skýrsla.

Ég þekki að vísu þessa skýrslu því mér var afhent hún sem trúnaðarmál fyrir jól. Ég vissi ekki að það væri búið að gera hana opinbera. Í henni kemur nefnilega mjög margt fram. Þar kemur það fram um atvinnuleysi kvenna í Reykjavík að það eru fyrst og fremst konur á aldrinum 21--36 ára sem eru á atvinnuleysisbótum í Reykjavík. Eftir að kona er orðin 36 ára, og ég tala nú ekki um eftir að hún er orðin fertug, virðist hún vera orðin svo eftirsótt á vinnumarkaði að hún hefur jafnvel fremur vinnu heldur en karlar, þ.e. konum virðist ganga betur eftir að þær eru orðnar fertugar að fá vinnu heldur en körlum. Það er nánast enginn munur sums staðar og sums staðar vegnar þeim heldur betur. En þungi atvinnuleysis kvenna í Reykjavík eru konur á barneignaraldri. Í skýrslunni er þetta brotið niður og það kemur í ljós þar að þær eiga yfirleitt allar börn, undantekningarlítið eru þær með lítil börn innan við skólaaldur. Og þá spyr maður sig þessarar spurningar: Kann þetta að vera að einhverju leyti sjálfvalið atvinnuleysi hjá þessum aldurshópi kvenna? Nú er ég ekki að hafa á móti því að mæður séu heima hjá börnum sínum, síður en svo. Og ég tel að það sé eðlilegt að greiða hlutabætur. Hafa ber í huga að í atvinnuleysistölunum er ekki gerður greinarmunur á fólki á hlutabótum í heildartölunum en af 1.000 einstaklingum sem voru á hlutabótum í janúar eru nærri 900 konur.

Þetta er sem sagt stórfróðleg skýrsla og ég hvet hv. þm. til þess að skoða hana því af henni má draga ýmsa lærdóma. Hún gefur vísbendingar um hverjir það eru sem helst þurfa á úrræðum að halda.

Það er líka ástæða til að þakka hv. minni hluta fyrir að birta yfirlit um atvinnuástandið frá vinnumálaskrifstofu félmrn., dagsett 14. febrúar sl. og jafnframt yfirlit um atvinnuástandið dags. 21. janúar sl., og það er reyndar merkt með handskrift starfsmanni mínum í félmrn., Hólmfríði Sv. En sá galli er á gjöf Njarðar að heftin eru ekki birt öll heldur er slitið aftan af báðum heftunum. Það eru teknar nokkrar blaðsíður fyrst en heftin ekki birt sem slík. Það tel ég vera mikinn galla því þá hefðu menn séð hvernig atvinnuleysistölurnar eru uppbyggðar. Þá sæist hve margir eru í hlutastörfum, hve mörg störf eru laus og hvar þau eru, hvað er í boði á vinnumiðlununum sem er að vísu ekki nema lítið af þeim störfum sem okkur vantar fólk í í þjóðfélaginu. Og þá sæist líka hversu margir útlendingar utan Evrópska efnahagssvæðisins eru með atvinnuleyfi hér á landi en þeir eru um 1.200.

Hér hefur komið fram gagnrýni, meira að segja hefur nú sumt af henni verið rökstutt og málefnalegt, og vangaveltur um ráðgjafarnefndirnar og hverjir það yrðu sem ættu að vera fulltrúar framhaldsskólanna í ráðgjafarnefndunum. Ég tel einboðið að um skólastjórnendur sé að ræða í ráðgjafarnefndirnar og ég tel jafnframt, eftir því sem mér skilst þá hafa þeir með sér félag, að þeim veitist auðvelt að ráða fram úr því hverja þeir velji úr sínum hópi til setu í þessum nefndum.

Starfsmenntun í atvinnulífinu á að vera tryggð hér í þessum brtt. Það er tekið sérstaklega fram að við afgreiðslu fjárlaga sé upphæð hvers árs ákvörðuð og það er líka tekið sérstaklega fram, og það vil ég ítreka, að það er starfsmenntaráð en ekki stjórn Avinnuleysistryggingasjóðs eða einhverjir aðrir sem gera tillögur til ráðherra um hvernig starfsmenntafénu skuli varið. Sömuleiðis er með kvennapeningana, það verður að sjálfsögðu með óbreyttu sniði hvernig tillaga verður gerð til félmrh. um skiptingu þeirra.

Menn hafa kvartað undan því hér í ræðustól að ekki hafi verið haft samráð við BSRB. Það vill nú svo til að ég hef verið fullvissaður um það, af reyndar fulltrúum ASÍ, að BSRB hafi verið sammála þeim athugasemdum --- þeirri umsögn sem ASÍ veitti um frv. Ég tek því ekki til mín þessa gagnrýni og vísa henni á bug.

Hér komu fram í ræðu eins ræðumanns áhyggjur út af vinnumiðlun í Hafnarfirði. Ég hef samið við Hafnarfjörð sem reynslusveitarfélag um að þeir reki sína vinnumiðlun sem reynslusveitarfélag og það er staðfest í bráðabirgðaákvæði með frv. Sama er upp á teningnum í Reykjanesbæ. Þar eru þeir með reynslusveitarfélagaverkefni í vinnumiðlun og ég vænti góðs af báðum þessum verkefnum.

Varðandi ræðu hv. formanns Alþb., Margrétar Frímannsdóttur, þá var ég nú dálítið hissa á henni af því mér hefur fundist hv. þm. sanngjörn og skynsöm. Mér finnst vandlifað --- ég hef verið skammaður blóðugum skömmum fyrir að hafa ekki samráð við ASÍ um setningu vinnulöggjafar í fyrravor sem er nú reyndar alveg kolrangt, ég hafði verulegt samráð við ASÍ, þó að ég treysti mér ekki til þess að fara að öllu leyti eftir þeirra vilja, en nú skammar hv. þm. mig fyrir að hafa samráð við ASÍ. Hvað á ég að gera? Ég get ekki hlaupið eftir hennar ráðleggingum. Ég kaus að hafa samráð við Alþýðusamband Íslands við frágang þessa máls og það samstarf tókst vel og ég er mjög ánægður með það og þakklátur þeim sem komu að því fyrir hönd Alþýðusambandsins.

[17:45]

Menn hafa verið að kvarta yfir því að stjórnarandstaðan hafi ekki haft nægan tíma til þess að kynna sér brtt. Ég heyri það glögglega á ræðum hv. stjórnarandstæðinga úr félmn. að þeir hafa ekki kynnt sér tillögurnar. En ég hygg að þær hafi verið lagðar fram og kynntar í hv. félmn. á fimmtudag í síðustu viku að meginstofni. Að vísu voru lagðar fram á mánudag, þ.e. í gær, minni háttar brtt. frá meiri hlutanum. Mér finnst það óvenjulegt og veit ekki hvað það boðar að hlusta á stjórnarandstöðuna gagnrýna harðlega brtt. sem Alþýðusamband Íslands styður. Mér finnst það óskynsamleg klisja og leiðinlegt að hlusta á það sem kemur upp úr hverjum þingmanninum eftir annan að þeir atvinnulausu séu vandamálið en ekki atvinnuleysið. Þetta er einhver klisja sem sumir hv. alþm. hafa komið sér upp. (Gripið fram í: Frumvarpið endurspeglar þetta sjónarmið.) Þetta er rangt. Það ástand að fólk er atvinnulaust er vandamálið. Þessu frv. er ætlað að aðstoða hina atvinnulausu til þess að rjúfa vítahring atvinnuleysisins. Annars væri ég ekkert að flytja þetta frv. Það eru fjarstæðukenndar getsakir sem hér hafa komið fram að til standi að breyta þessum lögum að loknum kjarasamningum. Það eru engin áform um slíkt, um það vil ég fullvissa hv. þm.

Formenn landssambanda innan ASÍ kröfðust þess af ríkisstjórninni að frv. yrði dregið til baka og tóku það reyndar skýrt fram að í því fælist að ekki yrði hreyft við málinu það sem eftir lifði kjörtímabils. Ég tók upp viðræður við fulltrúana og eftir þær viðræður féllu þeir frá þessari kröfu og eru sáttir við framgang þessara frv.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir talaði um hina ágætu vinnumiðlun á Stokkseyri í litla sveitarfélaginu sínu. Ég er svo sem ekki að draga í efa að þar vinni menn vel. Að meðaltali voru 42 á atvinnuleysisbótum í þessu litla sveitarfélagi í janúarmánuði sl. Ég efa ekki að vinnumiðlun sveitarfélagsins á Stokkseyri hafi haft mikla þekkingu á aðstæðum í þessu kunningjasamfélagi. Það voru sem sagt 912 atvinnuleysisdagar greiddir af Atvinnuleysistryggingasjóði í janúar 1997. Og svo öllu sé til skila haldið þá var 801 dagur greiddur í sama mánuði árið 1996 þannig að eitthvað virðist atvinnuástandi á Stokkseyri hafa hrakað á þessum tíma. Ég hef ekki handbærar tölur um félagsaðstoð sveitarfélagsins í þessum mánuðum en ég get að sjálfsögðu nálgast þær síðar. En mér finnst þetta mikið atvinnuleysi í þessu sveitarfélagi þar sem sennilega eru ekki nema um 200 launþegar. Það er miklu meira en í nágrannasveitarfélögum. Og þó er Stokkseyri það gott sveitarfélag að m.a.s. er hægt að sækja vinnu þaðan hingað til höfuðborgarinnar eins og hv. 5. þm. Suðurl., Margrét Frímannsdóttir, hefur rækilega sannað á mörgum undanförnum árum.

Menn hafa verið að gera sér að það yrðu héraðsdómarar sem kvaddir yrðu til starfa í úrskurðarnefnd. Það segir ekkert um að það eigi að vera héraðsdómarar. Það eru miklu fleiri heldur en starfandi héraðsdómarar sem hafa réttindi til að vera héraðsdómara, miklu fleiri, og ég tel eðlilegt að leita í þann hóp en ekki í hóp starfandi héraðsdómara, síður en svo.

Í framhaldi af ræðuhöldum um réttindi fanga --- málefni heyra að vísu undir dómsmrn. en ekki mitt ráðuneyti --- þá er rétt að halda því til skila að fangar halda bótarétti í allt að tvö ár á meðan þeir eru í fangelsi.