Starfsemi og nám í stýrimannaskólum

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 14:32:24 (3970)

1997-02-26 14:32:24# 121. lþ. 78.6 fundur 372. mál: #A starfsemi og nám í stýrimannaskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[14:32]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrir rúmu ári kom fram hugmyndir hjá hæstv. menntmrh. þar sem hann boðaði mjög róttækar breytingar á skipstjórnarnámi í framtíðinni. Meðal annars sem hæstv. ráðherra reifaði þá var að Stýrimannaskólinn í Reykjavík yrði hugsanlega lagður niður og allt skipstjórnarnám flutt út á land.

Ýmsar ábendingar hafa komið fram frá nemendum í skipstjórnar- og stýrimannaskólum þess efnis að við nánari tengingu þessa náms inn í framhaldsskólana hafi dregið úr því að þeir sem hafa stundað sjó í mörg ár sæki réttindanám vegna þess að þeir telji það ekki eins aðlaðandi kost að fara í nám til þess að öðlast skipstjórnar- eða stýrimannaréttindi ef námið er fært inn í framhaldsskólana, telji sig þá ekki á sama hátt eiga samleið með nemendum og áður var.

Í viðtali sem birtist við hæstv. menntmrh. í blaðinu Fréttir í Vestmannaeyjum í febrúar 1996 segir hæstv. ráðherra að það sé verið að vinna að endurskoðun á skipstjórnarnámi í landinu og tekur því ekki fjarri að hugsanlega yrði skipstjórnarnámið allt fært út á land. Ég hef á þskj. 650 beint eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. menntmrh.:

1. Hver var heildarfjöldi nemenda í stýrimanna- og skipstjórnarnámi á árunum 1990 til og með 1996, skipt niður á ár og skóla?

2. Hversu margir nemendur hófu réttindanám árin 1990 til og með 1996, skipt niður á ár og skóla?

3. Eru fyrirhugaðar breytingar á námi í stýrimannaskólum? Ef svo er, þá hverjar?

4. Eru fyrirhugaðar breytingar á rekstri stýrimannaskólanna? Ef svo er, þá hverjar?

5. Kemur til greina að flytja allt stýrimanna- og skipstjórnarnám á einn stað utan höfuðborgarsvæðisins? Og hverjir eru þá möguleikarnir í þeim efnum?