Starfsemi og nám í stýrimannaskólum

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 14:35:09 (3971)

1997-02-26 14:35:09# 121. lþ. 78.6 fundur 372. mál: #A starfsemi og nám í stýrimannaskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[14:35]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þessi fyrirspurn er í mörgum liðum eins og fram hefur komið. Ég hef leyft mér að dreifa til þingmanna ítarefni um tvær fyrstu spurningarnar, þ.e. hver var heildarfjöldi nemenda í stýrimanna- og skipstjórnarnámi á árunum 1990 til og með 1996, skipt niður á ár og skóla.

Síðan var önnur spurningin: Hversu margir nemendur hófu réttindanám árin 1990 til og með 1996, skipt niður á ár og skóla?

Ég held að ég noti ekki minn tíma til þess að lesa þessar tölur. Þær liggja fyrir hjá þingmönnum og þeir geta kynnt sér þær. Eins og menn sjá hafa verið nokkrar sveiflur í þessu en ef við lítum á árið 1996 sérstaklega, þá fjölgar nemendum frekar heldur en hitt á sl. hausti, m.a. vegna þess að tekin var ákvörðun um að stytta siglingatíma úr 12 mánuðum í 6 mánuði, ef ég man rétt, á síðasta sumri.

Þriðja fyrirspurnin er þessi: Eru fyrirhugaðar breytingar á námi í stýrimannaskólum? Ef svo er, þá hverjar? Svarið er á þennan veg: Síðastliðið sumar voru lagðar fram í menntmrn. tillögur um breytta skipan skipstjórnarnáms. Þessar tillögur voru síðan sendar hagsmunaaðilum til umsagnar og í framhaldi af þeim umsögnum er nú verið að undirbúa breytingar á skipstjórnarnáminu. Námið mun skiptast í annars vegar sjávarútvegsbraut sem er tveggja ára braut, bæði með almennar greinar og sérgreinar. Þessi braut mun verða í boði við Stýrimannaskólann í Reykjavík og við framhaldsskóla í öllum landsfjórðungum. Brautin er skilyrði til inngöngu í tveggja ára fagnám sem kennt verður a.m.k. við Stýrimannaskólann í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að þessar breytingar komi til sögunnar næsta haust.

Að því er varðar eldri nemendur, eins og hv. þm. vék að sérstaklega í máli sínu, þá hefur verið tekið tillit til hagsmuna þeirra að mínu mati við þessa námskrárvinnugerð til þess m.a. að útiloka ekki að menn með mikla reynslu í sjómennsku geti komið til skólanna á síðari stigum, ef ég má orða það svo, þegar þeir eru búnir að afla sér reynslu á sjónum og það á ekki að útiloka slíkt. Hins vegar verð ég að segja að ég gef lítið fyrir það sjónarmið að við sameiningu skólanna fæli framhaldsskólinn þessa menn frá því að sækja námið. Það finnst mér ekki sannfærandi rök. Hitt taldi ég nauðsynlegt að þessi leið væri opin í námskrárgerðinni og þessir menn væru ekki útilokaðir frá því að geta sótt skólana þegar þeir kysu sjálfir þótt hlé hefði orðið á skólagöngu þeirra. En hitt finnst mér ekki sannfærandi rök að þeir vilji ekki koma í hóp yngra fólks, enda held ég að það stangist á við reynslu manna almennt í skólakerfinu. Það er síður en svo að eldra fólk sjái nokkra vankanta á því, ef það hefur áhuga á námi, að setjast í hóp með yngra fólki. Þvert á móti er þetta til að styrkja alla og styrkja skólastarfið og ber frekar að stuðla að þessu en hindra hvort heldur er um sjómannsnám að ræða eða ekki.

Þá er spurt: Eru fyrirhugaðar breytingar á rekstri stýrimannaskólanna? Ef svo er, þá hverjar? Einu breytingarnar sem þegar eru ákveðnar á rekstri stýrimannaskólanna eru að næsta haust verða Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum og Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum sameinaðir.

Síðan er spurt í fimmta lagi: Kemur til greina að flytja allt stýrimanna- og skipstjóranám á einn stað utan höfuðborgarsvæðisins? Svarið er: Engar tillögur hafa verið kynntar um að flytja stýrimanna- og skipstjórnarnámið frá Reykjavík og á einn stað utan höfuðborgarsvæðisins. Auðvitað væri slíkt hugsanlegt en hætt er við að erfitt yrði að ná samstöðu um slíkar breytingar.

Þar sem hv. þm. vitnaði til viðtals við mig í blaði í Vestmannaeyjum á rætur að rekja til þess að ég tók þátt í fundi með nemendum, fréttamönnum og blaðamönnum í námi í Háskóla Íslands og þar kom þetta upp og ég svaraði þessu á þennan veg vegna þess m.a. að nemendur í Stýrimannaskólanum í Reykjavík hafa komið á minn fund og talið sjálfir að það kynni að draga nemendum frekar að ef skólastarfið væri utan höfuðborgarsvæðisins. Ég ætla ekki að dæma um það en það er alveg ljóst að Stýrmannaskólinn stendur föstum rótum, einnig í Reykjavík, en að sjálfsögðu hljóta mál sem þessi ávallt að vera til umræðu, sérstaklega á þeim tímum þegar menn velta fyrir sér að flytja eitthvað af starfsemi ríkisins út á land. Ég mun ekki standa að slíku nema um það náist góð sátt og ef ég sannfærist um að einhverjar slíkar breytingar verði til þess að spilla fyrir aðsókn að stýrimannanámi, þá mun ég ekki leggja því lið. Eins og þessar tölur sýna sem ég hef lagt hér fram þá ætti það frekar að vera okkar metnaðarmál að fjölga nemendum á þessu sviði heldur en að fækka.