Starfsemi og nám í stýrimannaskólum

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 14:41:57 (3973)

1997-02-26 14:41:57# 121. lþ. 78.6 fundur 372. mál: #A starfsemi og nám í stýrimannaskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[14:41]

Guðmundur Hallvarðsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnir hans og ekki síst menntmrh. fyrir hans afgerandi svör í þessu máli.

Það vill oft brenna við að hv. þingmenn utan af landi gleyma því að Reykjavík er einn stærsti útgerðarstaður landsins.

Í annan stað vildi ég líka minna á að það sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni er alveg rétt. Það er mjög alvarlegt mál hvað áhrærir skólann sjálfan hvaða áhrif íslenski kaupskipaflotinn hefur sem er nærri 40 skip en aðeins fjögur undir íslenskum fána. Fiskiskipunum hefur fækkað en þau hafa að sama skapi stækkað.

Það er líka alvarlegt ástand sem ríkir í skólanum. Það vill svo vel til að sjútvn. heimsótti Sjómannaskólann í gær og skoðaði húsakynni öll og því miður hefur lítið viðhald verið við skólann frá því að hann var vígður 1945 og það eru kannski --- ég vil ekki segja skilboð --- heldur hin móralska hlið menntakerfisins á sjómannastéttinni. En ég veit að menntmrh. vill gera betur og ég treysti því að hann muni gera það en alveg ljóst er að a.m.k. 250 millj. þarf að eyða á næstu árum til að gera þennan skóla sómasamlegan svo að hann sé í samræmi við annað menntakerfi þar sem kröfur eru gerðar til húsnæðis.