Starfsemi og nám í stýrimannaskólum

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 14:47:25 (3977)

1997-02-26 14:47:25# 121. lþ. 78.6 fundur 372. mál: #A starfsemi og nám í stýrimannaskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[14:47]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka það fram að með nýju framhaldsskólalögunum voru lögin um Stýrimannaskólann afnumin þannig að nú er unnt að taka á málefnum hans með allt öðrum hætti heldur en hægt hefur verið til þessa.

Í öðru lagi er verið að ljúka námskrárgerðarvinnu fyrir stýrimannanámið og það verk mun sjá dagsins ljós endanlega nú á næstu vikum. Það er með öllu rangt að halda því fram að þetta nám hafi verið litið einhverju hornauga í minni tíð sem menntmrh. Þvert á móti hefur verið markvisst unnið að því að koma þessu skynsamlega á varanlegan grundvöll, en menn verða líka að líta til þeirra stofnana sem við erum að tala um og velta fyrir sér: Getur verið eitthvað í innra starfi þeirra sem hefur valdið því að það hefur farið á þann veg sem þessar tölur benda til? Við skulum því ekki skella skuldinni alfarið á þá sem standa utan skólanna. Það þarf að líta á skólastarfið sjálft eins og alltaf þegar um slíka hluti er að ræða og spyrja sig: Hefur verið rétt að málum staðið alls staðar á landinu? Þarf að gera betur og finna út hvað við getum gert betur til þess að laða nemendur að þessum skólum.

Varðandi Vestmannaeyjar liggur alveg ljóst fyrir að það hefur verið tekin ákvörðun um að skólarnir sameinist. Það hefur verið skipuð sameiginleg skólanefnd fyrir báða skólana og að því er unnið að sameina skólana. Ég geri mér vonir um að það muni ekki draga úr aðsókn að skólunum. Þvert á móti verði aukinn áhugi nemenda að fara í þetta nám en það er auðvitað mjög brýnt að menn fái betur menntaða sjómenn og einnig að þeir sem eldri eru vilji koma inn í skólann þótt þessi breyting hafi orðið. Mér finnst þau rök ekki sannfærandi að ef menn sem koma til náms hafa stundað sjómennsku þá sé það eitthvað niðurlægjandi fyrir þá eða fæli þá frá námi að þeir þurfa að fara innan um ungt fólk. Það finnst mér ekki sannfærandi rök. Þvert á móti eins og ég sagði. Þróunin er alls staðar sú. Símenntun og endurmenntun verða mikilvægari. Eldri og yngri blandast saman með öðrum hætti (Forseti hringir.) heldur en verið hefur.

Síðan ætla ég að nefna að lokum, herra forseti, að staðsetning á skóla og þessu námi kann að skipta minna máli þegar fram líða stundir vegna möguleika á fjarnámi. Við sjáum það t.d. núna að heilu skipshafnirnar stunda fjarnám frá Verkmenntaskólanum á Akureyri og að því leyti kunnum við að vera að sigla inn í gjörbreytt umhverfi fyrir þá sem stunda störf á sjónum.