Miðlun EES-gerða á íslensku um tölvunet

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 15:02:41 (3984)

1997-02-26 15:02:41# 121. lþ. 78.4 fundur 334. mál: #A miðlun EES-gerða á íslensku um tölvunet# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[15:02]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir upplýsingar hans og svör við fyrirspurn minni. Ég er ánægður að heyra að unnið er að því að undirbúa ákvarðanir um þetta efni. Ég hlýt í raun að treysta því að ráðist verði í verkefnið að því er varðar EES-pakkann alveg fram til þess tíma sem næstur er og þá einnig það sem snýr að meðferð mála sem í gangi eru, þ.e. að mál sem eru í gangi komi einnig inn í þetta samhengi. Það getur að mínu mati í rauninni ekki verið álitamál hvort þetta verði gert aðgengilegt með þessum hætti. Það hlýtur að hafa blasað við þeim sem ákvarðanir tóku um EES-samninginn að verulegur kostnaður væri samfara því að tengjast þessu réttarkerfi sem þarna er um að ræða. Það hlýtur að hafa verið hluti af þeirri ákvörðun eða það leiðir augljóslega af þeirri ákvörðun að þetta verður að liggja fyrir á íslensku máli svo ekki sé nú talað um íslenska lagasafnið sem er nánast skoplegt að heyra en jafnframt háalvarlegt að ekki skuli vera aðgengilegt almenningi á alnetsins.

Varðandi ákvarðanir um dóma Evrópusambandsins, þá blasir það við með tilliti til 6. gr. EES-samningsins að þar er um að ræða efni sem beint varðar lagatúlkanir og það er ekki viðunandi fyrir íslenska þegna að vera tengdir þessu valdi, þessum lögum sem þarna er um að ræða og lagaígildi sem dómarnir hafa án þess að það sé alveg ljóst hvernig ber að skilja það á íslensku máli og það liggi fyrir í ótvíræðri þýðingu. Menn standa því frammi fyrir þessu verkefni og að mínu mati ber lýðræðisleg skylda til þess að tryggja íslenskum þegnum fullan aðgang að þessu á íslensku máli þar sem ljóst sé hvernig það verði túlkað þannig að um samræmi sé að ræða þegar um er að ræða málfylgju, svo ekki sé talað um málarekstur og dómsákvarðanir.