Samningur um fiskveiðar innan grænlenskrar og íslenskrar lögsögu

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 17:44:50 (3991)

1997-02-26 17:44:50# 121. lþ. 79.1 fundur 376. mál: #A samningur um fiskveiðar innan grænlenskrar og íslenskrar lögsögu# þál., Frsm. GHH
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur

[17:44]

Frsm. (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Utanrmn. þingsins hefur að beiðni ríkisstjórnarinnar lagt fram til meðferðar í þinginu till. til þál. á þskj. 661 um staðfestingu samnings milli Grænlands/Danmerkur annars vegar og Íslands hins vegar um fiskveiðar innan grænlenskrar og íslenskrar lögsögu.

Mál þetta ber að með nokkuð skjótum hætti og því er farin sú óvenjulega leið að utanrmn. ber fram málið í stað þess að ríkisstjórnin geri það. Það er til þess að flýta málsmeðferð og um það er góð sátt bæði innan utanrmn. og á vettvangi formanna þingflokka sem einnig hafa fjallað um þetta mál. Ástæðan fyrir þessu er sú að hér er um að ræða samkomulag sem undirritað var til bráðabirgða hinn 20. febr. sl. sem ætlunin er að ljúka formlega með undirritun ráðherra og formanns landstjórnar Grænlands þegar hann verður hér í opinberri heimsókn síðar í vikunni. Og til þess að fullnægja öllum formsatriðum og ljúka hinni formlegu umfjöllun Alþingis þótti rétt og nauðsynlegt að hraða málsmeðferð í þinginu með þeim hætti sem ég hef gert grein fyrir.

Samkvæmt samningnum sem hér er gerð tillaga um að heimila ríkisstjórninni að undirrita fyrir Íslands hönd er grænlenskum nótaskipum heimilt að veiða í efnahagslögsögu Íslands allt að 8.000 lestir af loðnu af loðnukvóta Íslands á loðnuvertíð þeirri sem lýkur nú í vor, þ.e. 30. apríl nk. Heimild þessi er óháð þeim svæðatakmörkunum sem um getur í 8. gr. samnings milli Grænlands/Danmerkur, Íslands og Noregs um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen sem undirritaður var 29. júní 1994. Er grænlenskum nótaskipum því einnig heimilt að veiða umrætt magn sunnan 64°30´N í íslensku efnahagslögsögunni. Heimilt er að landa þessum afla til vinnslu á Íslandi. Óheimilt er að vinna eða frysta aflann um borð og utan Íslands er einungis heimilt að landa aflanum til bræðslu.

Á móti verður íslenskum skipum heimilt að veiða allt að 8.000 lestir af loðnu úr þeim kvóta, sem kemur í hlut Grænlands, á loðnuvertíð þeirri sem hefst 1. júlí í sumar. Þá verður íslenskum skipum heimilt að veiða allt að 8.000 lestir af heildarkvóta Íslands í tilraunaskyni í fiskveiðilögsögu Grænlands sunnan 64°30´N, en samkvæmt núverandi loðnusamningi hafa loðnuveiðar verið íslenskum skipum óheimilar á því svæði.

Um veiðar samkvæmt samningnum og stjórn þeirra gilda að öðru leyti ákvæði loðnusamningsins og reglur sem settar eru samkvæmt honum.

Samningurinn tók gildi til bráðabirgða við undirskrift hans eins og áður var getið og mun öðlast gildi formlega þegar endanlega hefur verið tilkynnt um að stjórnskipulegum skilyrðum hvors lands um sig hafi verið fullnægt. Það er það sem verið er að óska eftir með þessari afgreiðslu sem ég greindi frá, að Alþingi staðfesti þennan samning og veiti heimild til þess að ríkisstjórnin gangi frá staðfestingunni.

Ég fagna þeirri samstöðu sem er um þetta mál. Málið tengist ýmsum öðrum hagsmunamálum og viðræðum sem í gangi hafa verið milli Íslands og Grænlands og tengjast margvíslegum hagsmunum sem við Íslendingar eigum þar. Ég tel að þó efalaust megi færa rök fyrir því að Íslendingar séu að láta verðmætari afla af hendi og öruggari en við fáum í staðinn sé eðlilegt og skynsamlegt að gera þetta samkomulag við Grænlendinga nú og sýna í verki bræðrahug okkar til þessarar góðu nágrannaþjóðar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta mál en vænti þess að takast megi að ljúka afgreiðslu þess í tveimur umræðum hér á þessum degi.