Staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 13:50:35 (4038)

1997-02-27 13:50:35# 121. lþ. 81.95 fundur 215#B staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[13:50]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar er eitt af meginmarkmiðunum að lækka jaðarskatta til að gera landsmönnum kleift að ganga bjartsýnir og með reisn inn í 21. öldina. Hvernig hefur ríkisstjórnin unnið að þessu markmiði þegar aldraðir eru annars vegar? Jaðarskattarnir hafa verið auknir verulega. Skerðing grunnlífeyris er nú 30% í stað 25% gagnvart tekjum. Lyfja- og umönnunaruppbótin vegna nauðsynlegs kostnaðar hefur verið tekjutengd, sem er algert nýmæli. Það hefur í för með sér verulega tekjuskerðingu á annað þúsund lífeyrisþega og töpuð tengd réttindi sem eru afnotagjöld af Ríkisútvarpinu. Þannig ber nú fjöldi lífeyrisþega yfir 100% jaðarskatt. Það þýðir að ef t.d. lífeyrissjóðsgreiðslur hækka, þá verða ráðstöfunartekjurnar enn lægri en áður en hækkunin varð. Þetta hljómar eins og hver annar brandari en eru því miður grafalvarlegar staðreyndir.

Álögur hafa verið auknar á aldraða á kjörtímabilinu. Þjónustugjöld í heilbrigðisþjónustunni hafa verið hækkuð verulega og réttindi skert. Tvísköttun á hluta lífeyrisþega hófst að nýju og síðast en ekki síst, lífeyrisgreiðslur aftengdar við launaþróun í landinu sem er algert siðleysi. Og hér er fátt eitt tínt til. Nú stendur fyrir dyrum aukin skattheimta með aukinni greiðsluþátttöku þeirra fyrir sjúkraþjálfun sem hæstv. heilbrrh. þorði ekki að kannast við, aðspurð hér á þinginu á dögunum. Aldraðir sjálfir og aðgerðarhópur þeirra hefur unnið ötult starf við að vekja athygli á stöðu þeirra og hvernig ríkisstjórnin hefur veist að kjörum þeirra. Ég krefst þess að aldraðir komi að vinnu jaðarskattanefndarinnar eins og endurskoðun almannatrygginganna. Lífeyrir verður að ná framfærslumörkum, tekjutenging hans að minnka og upphæðir að fylgja launaþróun í landinu. Það er sanngirniskrafa og það þarf að gera það strax.

Það er réttur aldraðra og skylda okkar að tryggja öldruðum mannsæmandi viðurværi á ævikvöldinu, herra forseti.