Öryggismál fiskiskipa og stöðugleikamælingar

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 14:31:10 (4055)

1997-02-27 14:31:10# 121. lþ. 81.96 fundur 216#B öryggismál fiskiskipa og stöðugleikamælingar# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[14:31]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð þeirra sem hér hafa þakkað frummælanda fyrir að hefja umræðu um þetta, en ég vildi þó nálgast þetta mál, þessa ágætu skýrslu um stöðugleika íslenskra fiskiskipa frá öðru sjónarhorni.

Í fyrsta lagi vildi ég fagna því að svo yfirgripsmikið og gott plagg skuli koma frá hinni nýju Siglingastofnun og það er áhugavert út af fyrir sig. Hins vegar segir í skýrslunni, sem menn ættu að hugleiða, að varhugavert sé að fullyrða að niðurstöður könnunarinnar séu óyggjandi. Það er hins vegar mat Siglingastofnunar Íslands að niðurstöðurnar séu marktækar og geti því verið grundvöllur málefnalegrar umfjöllunar um stöðugleika íslenskra fiskiskipa og stefnumótunar í þeim efnum og ég tek undir það. Við þurfum auðvitað að vinna þessu verki vel.

Það eru hins vegar nokkur mál sem þarf að vinda bráðan bug að og ég beini orðum mínum sérstaklega til samgrh. vegna þess að hérlendis gilda ákvæði alþjóðahleðslumerkjasamþykktarinnar um lágmarksfríborð skipa. Sú samþykkt nær til skipa sem eru 24 metrar að lengd og lengri, að undanskildum m.a. fiskiskipum. Í reglum um smíði búnaðar í báta með mestu lengd í að allt 15 metrum er að finna ákvæði um lágmarksfríborð og gilda þau jafnt um fiskibáta sem aðra báta. Fyrir stærri fiskiskip eru engin ákvæði í reglum um lágmarksfríborð ef undan eru skildar reglur um hleðslu síldveiðiskipa á vetrarsíldveiðum frá árinu 1963.

Nauðsynlegt er að koma á eftirliti með búnaði fiskiskipa, svo sem spilum, vírum, blökkum, krókum, lásum og keðjum sem notaðar eru við hífingar. Engar reglur gilda um eftirlit eða skoðun þessa búnaðar. Hér gæti verið skýring á hluta óeðlilegrar slysatíðni meðal íslenskra sjómanna. Siglingastofnun á ekki til álagsmæla til að mæla styrkleikaþol víra, keðja og festinga fyrir blakkir. Það er áhyggjuefni hvað fiskiskipastóllinn eldist og sífellt er verið að klastra upp á gömul skip.

Virðulegi forseti. Siglingastofnunin þarf móralskan og fjárhagslegan styrk til að takast á við alvarlega brotalöm (Forseti hringir.) í öryggismálum sjómanna. Alþingismenn eiga ekki að liggja á liði sínu til að ná því máli fram og ég vænti þess og ég held að sjómenn séu með miklar væntingar við hina nýju stofnun og vonast til þess að nú verði á málum tekið, (Forseti hringir.) undanþágum fækkað og tekið á málum svo að um muni.