Öryggismál fiskiskipa og stöðugleikamælingar

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 14:33:51 (4056)

1997-02-27 14:33:51# 121. lþ. 81.96 fundur 216#B öryggismál fiskiskipa og stöðugleikamælingar# (umræður utan dagskrár), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[14:33]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Hér er hreyft afar stóru máli og auðvitað verður að gera mjög miklar kröfur til farartækja í lofti, á sjó og umferðar á landi. Öryggismál sjómanna verða ætíð að vera undir miklu aðhaldi og eftirliti að mínum dómi.

Hér eru auðvitað stór orð sögð og það skýtur manni skelk í bringu að heyra ef satt er þannig að hér er mál sem menn verða að taka fyrir og ég treysti hæstv. ráðherra til að fylgja því eftir.

Það er margt sem snýr að öryggismálum sjómanna. Ég vil spyrja hæstv. samgrh. um eitt atriði þ.e. reglugerð um öryggisbúnað skipa, hvenær hún líti dagsins ljós. Ég hygg t.d. að á síðustu 15 árum hafi 20--30 einstaklingar fullyrt að þeir hefðu farist ef ekki hefði verið sleppibúnaður um borð.

Ég vil spyrja um annað. Er það tilfellið að Siglingastofnun í einstaka tilfellum gefi skipum undanþágur til siglinga eða svokallaðar innanfjarðarundanþágur sem jafnvel fylgja svo ekki skipum þegar selt er á milli byggðarlaga? Slíkar undanþágur eiga ekki að þekkjast.

Ég vil taka undir að það verður að gera mikið átak í því að hallaprófa öll skip og í það verkefni verður að fara. Ég lýsi því yfir sem þingmaður að Alþingi verður að koma að þessu máli með hæstv. ríkisstjórn. Þurfi til þess fjármagn, þá verður það að liggja fyrir og ég vænti þess að það standi ekki á þingheimi að verða við því, því ekki væri það gott til afspurnar ef fullyrt væri að menn kæmu öryggismálum ekki á hreint vegna þess að Alþingi neitar um peninga.