Kaup skólabáts

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 15:59:58 (4071)

1997-02-27 15:59:58# 121. lþ. 81.8 fundur 310. mál: #A kaup skólabáts# þál., Flm. KPál
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[15:59]

Flm. (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég flyt till. til þál. um skipun nefndar um kaup eða leigu á skólabát og viðvaningshlutaskráningu. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Árni M. Mathiesen, Guðmundur Hallvarðsson, Guðjón Guðmundsson, Einar K. Guðfinnsson, Hjálmar Jónsson, Árni Johnsen, Lúðvík Bergvinsson, Gísli S. Einarsson og Magnús Stefánsson. Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að skipa nefnd til að kanna forsendur fyrir kaupum eða leigu á skólabát sem nýttur verði til kennslu í sjómennsku. Nefndinni verði einnig falið að finna leiðir til fjármögnunar á hugsanlegum kaupum og rekstri bátsins. Jafnframt kanni nefndin möguleika á viðvaningshlutaskráningu sjóvinnunemenda um borð í fiskiskipum.

Nefndina skipi fulltrúar sjávarútvegsráðuneytisins, Fiskifélags Íslands, sjómannasamtaka, samtaka útgerðarmanna, Stýrimannaskólans í Reykjavík, Sambands ísl. sveitarfélaga, menntamála-, fjármála- og samgönguráðuneytis.

Nefndin skili áliti sem fyrst.``

Þáltill. þessi er endurflutt frá síðasta þingi, þó aðeins breytt að því leytinu til að viðvaningshlutaskráning er viðbót við þá tillögu sem flutt var á síðasta þingi ásamt því að fjármögnunarleiðir eru settar inn í þáltill.

Skólabáturinn Mímir RE var keyptur hingað til landsins til að sjá um kennslu í sjóvinnu og var rekstur slíks báts þá nýlunda hér við land. Það starf sem unnið var á þessum bát var mjög merkt og áhöfnin skilaði mjög góðu starfi ásamt þeim starfsmönnum Fiskifélagsins sem að þessum málum stóðu, en Mímir fórst eins og kunnugt er með voveiflegum hætti árið 1991.

Koma bátsins varð mikil lyftistöng fyrir sjóvinnunám í grunnskólum landsins sem og í stýrimannadeildum og víðar. Má sjá í skýrslum Fiskifélagsins um rekstur bátsins að mikill áhugi var fyrir sjóvinnunni og ferðum skólafólks með bátnum. Meðan hans naut við fóru um 5.000 ungmenni í sjóferð með bátnum, flest í sína fyrstu sjóferð.

Frá því að Mímir fórst hefur kennsla í sjómennsku verið mjög stopul í skólum landsins og áhugi á sjóvinnukennslu minnkað verulega. Þetta sést best á því að skólum sem kenna sjóvinnu sem valfag hefur fækkað úr 27 árið 1992 í 18 á sl. ári.

Eftir að Mímir fórst lagðist hluti skólastarfsins, sjóferðirnar, niður að mestu sem að dómi allra sem að þessum málum hafa komið var mikil afturför og aðalástæða þess að sjóvinnukennslan er á slíku undanhaldi sem raun ber vitni. Á síðasta ári leigði Fiskifélagið 60 tonna bát, Haftind HF 123, svo að bjóða mætti sjóvinnunemendum um landið upp á sjóferð. Í umsögnum skólastjóra, sem fengu Haftind til sín, má glöggt sjá þann mikla áhuga sem er fyrir slíku skipi og þeim möguleikum sem það gefur, bæði við nám og til kynningar á sjómennsku fyrir nemendur. Halldór Valdimarsson, skólastjóri á Húsavík, segir í umsögn sinni, með leyfi forseta: ,,Ég lýsi yfir ánægju minni með ferðir Haftinds HF 123 með sjóvinnunemendur Borgarholtsskóla, Húsavík. Kennslan og aðbúnaður allur var með ágætum. Vonandi verður framhald á þessari frábæru þjónustu.`` Hugo Rasmus, kennari í Kópavogi, skrifaði: ,,Hvers vegna er ekki til skólaskip á Íslandi 1996? Allir sem undirritaður hefur rætt við um þessi mál eru sammála um að skólaskip sé sjálfsagt að starfrækja. Ég vona að ráðamenn rumski og kippi þessu í liðinn.``

Fleiri umsagnir hafa borist sem Karel Karelsson skipstjóri á Haftindi hefur fengið og leyft mér að nota. Þær eru frá Patreksfirði, Flateyri. Ein hljóðar svo, með leyfi forseta, undirrituð af Birni E. Hafberg skólastjóra:

,,Í dag, þriðjudaginn 19. mars 1996, kom í heimsókn til okkar á Flateyri skólaskipið Haftindur. Efstu bekkjum grunnskólans var boðið í sjóferð þar sem kynnt var á fjölbreytilegan hátt ýmislegt varðandi sjómennsku og siglingar. Allir nemendur efstu bekkjanna mættu í þessa ferð og var almennt mjög vel látið af þessari nýbreytni. Það er því einlæg von okkar að framhald geti orðið á starfsemi skólabáts af þessari gerð.``

Í Bolungarvík segir Rúnar Vífilsson skólastjóri eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Við þökkum kærlega fyrir þennan frábæra dag með ósk um að slíkt verði endurtekið á næstu árum.``