Kaup skólabáts

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 16:06:43 (4073)

1997-02-27 16:06:43# 121. lþ. 81.8 fundur 310. mál: #A kaup skólabáts# þál., Flm. KPál
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[16:06]

Flm. (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég var að lesa upp hvernig skólamenn tóku velkomnum heimsóknum skólaskipsins Haftinds til sjávarútvegsplássa í kringum landið. Ég er með mun fleiri greinargerðir sem ég ætla ekki að lesa en þær eru allir á sömu lund; að skólastjórendur lýsa yfir sérstaklega miklum áhuga á þeirri starfsemi og skora á alla aðila sem að þeim málum koma að reyna að halda hinu góða starfi áfram og tryggja sem best undirstöðu þess.

Nauðsyn þessa máls er augljós þegar haft er í huga að hér býr þjóð sem byggir allt sitt á afkomu sjávarútvegs. Þjóð, sem býr við slíkar aðstæður, verður að vekja áhuga á störfum til sjós og gera öllu námi sem getur stuðlað að því hátt undir höfði. Til að það sé hægt verða að vera til góð og örugg tæki eins og fram kemur í þeim umsögnum sem vísað er til hér að framan. Sú virðingarverða viðleitni sem einkaaðilar hafa sýnt til að sinna útgerð skólaskips sl. sumar, eins og með Haftindi, hefur gengið illa, enda ekki á færi einstaklinga að standa undir kostnaðarsömu kennslustarfi án þess að fyrir það komi full greiðsla. Einstaklingar á borð við Karel Karelsson, skipstjóra og eiganda Haftinds HF 123, hafa kynnst því og hugsjónin verið dýru verði keypt. Kemur þar margt til og má nefna kvótaleysi, kostnaðarsama útgerð og flókna sambúð við ríki og sveitarfélög þar sem mikill tími fer í að finna fjármagn og sannfæra yfirvöld ár eftir ár um nauðsyn starfseminnar.

Því hefur verið haldið fram að rekstur skólabáts ætti að vera algerlega í höndum skólanna sjálfra þar sem hér væri um skólamál að ræða. Þetta hljómar vel en gengur þó ekki upp af mörgum ástæðum. Mikil ábyrgð fylgir því að gera út bát og ekki hvað síst þar sem um borð eru grunnskólanemar og ungmenni alls óvön sjómennsku. Um borð í slíkum skipum þarf aðbúnaður og öryggi að hafa sérstakan forgang og þar þarf að vera sérþjálfaður mannskapur. Slíkt er dýrt og ekki á færi útgerða sem einungis ætla að sinna þessu fáein skipti á ári. Einnig hefur sýnt sig að þrátt fyrir að mikið sé til af bátum sem henta og hægt væri að fá til kennslu verður kennslan tilviljanakennd og ómarkviss. Tryggingar verða einnig dýrari og annar kostnaður eykst vegna þeirrar sérhæfingar sem slíkri útgerð fylgir.

Af þessum og fleiri ástæðum eiga kennsla og fiskveiðar í atvinnuskyni ekki saman. Einnig er óraunhæft að gera ráð fyrir að mörg sérútbúin skip sinni kennslu og í ljósi reynslunnar ekki gerlegt þegar varla gengur að halda úti einu skipi fyrir það fé sem fæst. Það er því eðlilegt hlutverk Alþingis og ríkisstjórnar Íslands að hafa frumkvæði að kaupum eða leigu á skólabát og fá til liðs við sig sveitarfélög og hagsmunasamtök. Reynslan sýnir að það er eina færa leiðin til árangurs.

Tilgangurinn með þeirri þingsályktunartillögu sem hér er rædd er að tryggja þetta og um leið að kennsla í sjómennsku verði í boði í grunnskólum sem þá ali af sér áhugasöm sjómannsefni. Reynslan sýnir að það gerist ekki betur en með skólaskipi og er þá ekki aðalatriði hvort ríkið á skipið sjálft eða leigir það. Aðalatriðið er að slíkur möguleiki sé fyrir hendi og öryggi og útbúnaður sé eins og best verður á kosið. Sú trygging fæst ekki nema ríkissjóður beri ábyrgð og tryggi nauðsynlegar rekstrarforsendur, eins og rekstrarfé og heimildir til veiða utan kvóta. Mímir var of lítill sem skólaskip og háði það starfinu um borð. Skip sem er 50--60 tonn að stærð eins og Haftindur er mun betri kostur sem opnar möguleika á að reyna flest þau veiðarfæri sem notuð eru á fiskiskipum.

Sú nýbreytni er í þessari þáltill. að gera ráð fyrir viðvaningshlutaskráningu um borð í fiskiskip. Það var til siðs hér á árum áður að leyfa ungmennum að koma um borð í fiskiskip upp á hluta úr aflahlut og ekki óalgengt að tvö ungmenni skiptu á milli sínum einum heilum hlut. Þetta þýddi það að ungmenni komust fyrr á sjó til reynslu með vönum mönnum og auðveldaði í raun samskiptin og kynninguna til muna umfram það sem hefur orðið síðari árin eftir að þessi regla var felld út vegna þess að þetta var misnotað af einhverjum, að því mér er sagt. Það er slæmt að það skyldi fara svo en eigi að síður held ég að full ástæða sé til að taka þetta upp aftur og þá á þeim forsendum að nemendur sem hafa stundað sjóvinnunám í grunnskólum og fari með slíkum skólabát ættu að njóta þess að geta skráð sig sem viðvaninga á hluta úr aflahlut ásamt einhverjum öðrum þannig að hugsanlega væru tveir á slíkum hlutakjörum um borð í hverju skipi. Þetta gæti að sjálfsögðu ekki átt við nema um einn túr eða svo ef um togara væri að ræða þannig að ekki yrði um neina misnotkun að ræða, enda gerum við ráð fyrir að ungir menn og konur læri fljótt það sem fram fer um borð í skipum, en eigi að síður eru menn alltaf að læra, enda svo margt sem kemur til þegar menn eru á sjó sem enginn getur lært nema af reynslunni. Þess vegna er sú nýbreytni í þáltill. um að leyfa hlutaskráningu.

Ég vona, herra forseti, að þetta mál fái þá afgreiðslu á þingi að hv. Alþingi fallist á að gera út skólaskip og koma á nýjum reglum varðandi hlutaskráningu því að eins og fram hefur komið í máli mínu er þetta eitt af því sem flestöllum skólamönnum og ég hygg einnig mörgum sjómönnunum finnst hafa vantað á undanförnum árum að yrði í þeim föstu skorðum sem ætlast var til í upphafi.

Þeir eiga þakkir skildar sem hafa sinnt þessum málum á undanförnum árum og lagt á sig mikið og óeigingjarnt starf. Ég vona svo sannarlega að við náum því markmiði að festa það í sessi. Að því loknu, herra forseti, óska ég þess að málinu verði vísað til hv. sjútvn.