Verðbólgureikningsskil

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 16:42:57 (4078)

1997-02-27 16:42:57# 121. lþ. 81.9 fundur 314. mál: #A verðbólgureikningsskil# þál., Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[16:42]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Út af orðum hv. þm. vil ég taka fram, sem ég gerði reyndar skilmerkilega áðan, að í tillögunni felst ekki afstaða um hvort leggja eigi verðbólgureikningsskil niður eða ekki. Það eru fjölmörg rök fyrir því að gera það. Ég kom inn á þau. Það eru líka rök á móti. Hann drap á nokkur þeirra. Hér er fyrst og fremst verið að leggja upp með úttekt til að auðvelda ákvarðanatöku. Það er gert ráð fyrir nokkuð löngu ferli í því vegna þess að málið er flókið og afdrifaríkt eins og flest sem viðkemur lögum um skattamál eða endurskoðun.

Ég er þess fullviss og veit að hv. þm. er fylgjandi því að þessi mál verði skoðuð mjög vandlega. Það breytir því ekki að allir, og hann einnig, hafa vitaskuld skoðun á því hvort eigi að gera þetta og taka þá afstöðu sem ég lýsti. Það eru tvær skoðanir í málinu; að hætta þessu til samræmis við aðra í ljósi minnkandi verðbólgu, eða vegna þess eins og ég gat einnig um, að það sýnir ákveðinn réttan feril að taka mið af verðbólgunni. Hins vegar vegur mjög þungt að aðrar þjóðir gera þetta ekki og þó að fræðilega séu þessi reikningsskil þekkt og hafi verið þekkt mjög lengi þá hefur engin þjóð farið í verðbólgureikningsskil í sama umfangi og við Íslendingar.

Þau álitamál mun þessi nefnd skoða og eins og tillagan hljóðar er gert ráð fyrir þátttöku fjölmargra aðila, ekki einungis aðila frá hinu opinbera heldur líka aðila á fjármagnsmarkaði sem þekkingu hafa á málinu. Ég er þess fullviss að niðurstaða nefndarinnar verður mjög góð athugun og góð tillögugerð mun koma í kjölfar ef þessi tillaga verður samþykkt sem ég vona.