Stækkun járnblendiverksmiðjunnar

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 15:39:14 (4102)

1997-03-03 15:39:14# 121. lþ. 82.1 fundur 223#B stækkun járnblendiverksmiðjunnar# (óundirbúin fsp.), GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[15:39]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Á föstudaginn lauk viðræðum fulltrúa íslenskra stjórnvalda og norska fyrirtækisins Elkem um stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Þessar viðræður hafa staðið nokkuð lengi en niðurstaðan varð sú að Elkem lýsti því yfir að þeir væru ekki tilbúnir til að taka þátt í stækkun verksmiðjunnar.

Stækkun járnblendiverksmiðjunnar mundi stórbæta rekstrarafkomu járnblendifélagsins. Talið er að framleiðslukostnaður verksmiðjunnar mundi lækka um allt að 15% og verksmiðjan því að sjálfsögðu verða mun samkeppnishæfari og færari um að mæta verðsveiflum á járnblendi á heimsmarkaði. Því spyr ég hæstv. iðnrh. hvort hann telji að með þessari niðurstöðu viðræðna við Norðmenn sé stækkun verksmiðjunnar úr sögunni eða hvort hann telji hugsanlegt að taka upp viðræður við japanska fyrirtækið Sumitomo sem á 15% hlut í Íslenska járnblendifélaginu, en samanlagt eiga íslenska ríkið og Sumitomo 70% hlut í félaginu.