Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 18:33:35 (4150)

1997-03-03 18:33:35# 121. lþ. 82.13 fundur 219. mál: #A stjórn fiskveiða# (kvótaleiga) frv., 263. mál: #A stjórn fiskveiða# (undirmálsfiskur) frv., 341. mál: #A Stjórn fiskveiða# (veiðiskylda) frv., Flm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[18:33]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Árni Ragnar Árnason, Guðmundur Hallvarðsson, Kristján Pálsson og Einar Oddur Kristjánsson.

Meginefni þessa frv. er það að gera breytingar á framsalsheimildum þeim sem eru í gildandi lögum. Eins og menn vita hefur um fátt verið jafnmikið rætt í sjávarútveginum og framsalið og um þau mál hafa verið mjög skiptar skoðanir. Framsalið hefur í sjálfu sér orðið uppspretta mikilla deilna milli hópa í sjávarútveginum, bæði milli einstakra hópa innan útvegsins, en ekki síst og sérstaklega þó á milli sjómanna og útvegsmanna. Og framsalið eins og það virkar í dag er farið í raun og veru að grafa undan tiltrú almennings á sjávarútveginum í heild.

Nú geta menn auðvitað haft ýmsar skoðanir á því hvort framsal sé gott, eðlilegt og skynsamlegt. Það er þó ekki kjarni málsins, heldur sá að meðan núverandi ástand varir og er við lýði er hættan sú að almenningi blöskri ýmis tilvik sem nefnd hafa verið um misnotkun á þessum þáttum. Það gerir það að verkum að menn ekki einasta ráðast gegn fiskveiðistjórnarkerfinu, sem getur verið út af fyrir sig göfugt markmið, heldur hitt að það grafi undan tiltrú almennings á sjávarútveginum í heild og geri aðstæður manna til þess að stunda þessa atvinnugrein í rauninni óþolandi.

Í dag er það þannig að gert er ráð fyrir því í lögum að ef fiskiskip veiðir minna en 50% af samanlögðu aflamarki sínu í þorskígildum talið tvö fiskveiðiár í röð, þá fellur veiðileyfi þess og aflahlutdeild niður og aflahlutdeild annarra skipa hækkar þá samsvarandi. Hins vegar er það jafnframt þannig í núgildandi lögum að ef menn stunda þessar veiðar utan fiskveiðilandhelginnar íslensku, þá hættir þetta ákvæði smám saman að virka. Viðmiðunarhlutfallið, sem í upphafi var 50% af samanlögðu aflamarki talið tvö fiskveiðiár í röð, lækkar um 5% fyrir hverja 30 daga eða hvern mánuð sem menn eru að veiðum utan íslensku fiskveiðilandhelginnar. Það þýðir að eftir 10 mánaða úthald á tveggja ára skeiði er þetta kerfi í reynd hætt að virka og menn hafa þá alveg fullar heimildir til þess að framselja innan ársins allar sínar aflaheimildir. Út af fyrir sig gætum við séð að fyrir þessu voru ákveðin rök í upphafi. Rökin voru auðvitað þau, sem ég féllst á á sínum tíma enda tók ég þá þátt í að gera þessar breytingar á fiskveiðistjórnarlögunum, að það væri eðlilegt að búa til einhvern hvata sem auðveldaði mönnum að stunda fiskveiðar utan landhelginnar, sækja viðbótarheimildir fyrir þjóðfélagið og þjóðarbúið. Þetta var auðvitað alveg rétt og þetta var auðvitað mjög þýðingarmikið fyrir menn sem voru t.d. að sækja sér reynslu á Flæmska hattinum eða Reykjaneshryggnum svo ég taki tvö dæmi. En nú eru auðvitað aðstæðurnar breyttar. Nú er búið að semja á þessum hafsvæðum sem ég nefndi hérna áðan, t.d. Flæmska hattinum og Reykjaneshryggnum og það er jafnvel búið að deila þessu niður á skip þannig að í raun og veru er staða þeirra skipa sem eru að veiðum þarna orðin mjög sambærileg því sem er hjá skipum sem veiða innan íslensku landhelginnar. Rökin fyrir því að láta eitthvað sérstakt gilda um veiðar á hafsvæðum sem búið er að semja um veiðréttinn á og búið er að ákvarða fiskveiðistjórnina á, hvort sem það er gert á grundvelli kvótasetningar eða einhverrar annarrar veiðistýringar, þau eru því í sjálfu sér engin orðin. Það er langsamlega eðlilegast að sams konar regla gildi þá um veiðarnar á þeim hafsvæðum sem búið er að semja um veiðarnar á.

Ég held að það sé mjög mikilvægt þegar við ræðum þessi mál að við áttum okkur á því hvers vegna framsalið var yfir höfuð sett inn í þetta kvótakerfi. Við skulum ekki gleyma því sem er grundvallaratriði varðandi aflamarkskerfið að gert er ráð fyrir því að kvótum sé úthlutað á skip. Og rökin voru einföld. Það eru skipin sem veiða fiskinn. Hugsunin var með öðrum orðum sú að við værum að úthluta hér aflahlutdeildum, aflamarki á veiðitækin sjálf, það væri nærtækast. Síðan var hins vegar byggður inn í kerfið sveigjanleiki sem gerði það að verkum að ef menn einhverra hluta vegna gátu ekki eða það var ekki hentugt fyrir þá að veiða hluta af sínum aflaheimildum, þá gátu menn framselt þær öðrum, búið til hagræðingu sem kallað var, búið til mekanisma sem tryggði að þetta gæti gengið sem snurðulausast fyrir sig. Hugsunin var auðvitað aldrei sú í þessu framsalskerfi að framsalið væri meginatriðið eins og hv. þm. Ágúst Einarsson nefndi hér áðan og ég er alveg sammála honum um. Meginatriðið var auðvitað veiðin hjá hverju einstöku skipi. Framsalið var hins vegar bara aðferð til þess að búa til sveigju til þess að gera mönnum bærilegra að vinna með þessu kerfi því að það gefur auðvitað auga leið að þegar farið er að deila út aflahlutdeildum hér um bil upp á kíló af hverri tegund á einstök skip, þá þurfa menn meiri sveigju heldur en það kerfi býður upp á að öðru leyti hvaða skoðun svo sem menn hafa á kerfinu að öðru leyti.

Þessi mál hafa hins vegar þróast þannig að jafnvel þeir sem báru ábyrgðina eða unnu hvað mest að útfærslu þess í upphafi hafa sagt síðar meir að það óraði engan fyrir því að þetta mundi þróast svona. Þessi viðskipti eru orðin öðruvísi heldur en menn gerðu ráð fyrir og mun umsvifameiri og leigukvótaviðskiptin hafa tekið á sig myndir sem enginn í dag vill í raun og veru verja. Þess vegna er það þannig að æ fleiri eru að komast á þá skoðun að þrátt fyrir að þeir kunni að styðja núverandi aflamarkskerfi og vilji hafa það sem frjálsast, þá sé alveg útilokað að það geti viðgengist eins og það er í dag. Menn verða að setja þessu þrengri leikreglur heldur en menn búa við í dag.

Í þessu sambandi rifjaði ég upp þegar verið var að ræða frv. frá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni og Guðjóni Guðmundssyni að jafnvel útgerðarmaður eins og Sighvatur Bjarnason í Vestmannaeyjum, sem á sínum tíma talaði mjög eindregið fyrir því að hafa sem frjálsast framsal og gagnrýndi Alþingi árið 1994 þegar verið var að þrengja framsalið eitthvað örlítið, segir núna á haustdögum 1996 að þessu eigi að breyta og segir, með leyfi forseta:

,,Breyta mætti kerfinu á þann hátt að einungis yrði hægt að skipta á aflamarki (heimildir innan ársins), þá væri að vísu stór hlut hagræðingarinnar til skemmri tíma fyrir bí. Til lengri tíma tel ég að þetta gæti leitt til þess að skip með takmarkaðar aflaheimildir myndu leggja upp laupana. ... Brottkast myndi einnig minnka, því það er ljóst að skip með takmarkaðar heimildir eru líklegri til þess að stunda brottkast en þau sem nægar heimildir hafa. Aflahlutdeildir yrðu hins vegar að geta gengið kaupum og sölum til þess að tryggja hagræðingu í greininni sem er mikilvægt þjóðfélagslegt mál.``

Þannig sjáum við að jafnvel þeir sem forðum töluðu mjög ákveðið fyrir því að hafa hér sem frjálsast framsal og takmarkalausast eru að komast á þá skoðun að þetta gangi ekki svona. Enda er það auðvitað þannig að það hníga öll rök að því að við búum til eitthvern ramma sem skerðir þetta framsal vegna þess að það er grundvallaratriði kvótakerfisins sjálfs að það séu skipin sem sæki aflann og það eru auðvitað engin sérstök rök fyrir því að binda veiðiheimildir við skip nema vegna þess að löggjafinn telur að það sé eðlilegt að viðkomandi skip sæki þessar aflaheimildir. Ef við förum að hafa þetta framsalskerfi algjörlega galopið, þá eru auðvitað full rök fyrir því að aflaheimildir séu ekki bundnar við skip, þær séu bara bundnar við hvað sem er, bíl eða hús eða hvað sem er, sem menn geta þá framselt til og frá. Ástæðan fyrir því að við höfum þetta kerfi er sú að löggjafinn hefur talið að það væri eðlilegast, að binda aflaheimildirnar við þann aðila sem gæti sótt aflann í hafið, eiganda skipsins, útgerðina sjálfa, og skip hans.

Ég vil líka, virðulegi forseti, vekja athygli á því að í mjög athyglisverðu viðtali við mætasta og mjög farsælan útgerðarmann, Gunnar Sigvaldason á Ólafsfirði, og raunar Jón Þorvaldsson, sem er skrifstofustjóri fyrirtækisins Sæbergs á Ólafsfirði, fara þeir inn á þessa umræðu og segja svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Eitt atriði teljum við að þyrfti að lagfæra hið fyrsta og það er ákvæðið um að menn þurfi aðeins að veiða helming heimilda sinna annaðhvort ár en séu ekki bundnir af veiði á hverju ári. Með þessu skapast viss möguleiki að leigja frá sér aflaheimildir og stunda síðan engar veiðar sjálfur. Það þarf að auka veiðiskylduna þannig að menn verði að veiða eitthvað á hverju ári. Hér er ekkert stórvandamál á ferðinni. Þeir sem þetta hafa gert eru fáir og þeir eru smáir. Í áróðrinum hefur þetta verið misnotað. Það er bent á þessa örfáu menn og því skrökvað í alþjóð að svona sé þetta hjá okkur öllum. Þeir sem ekkert þekkja til í sjávarútvegi trúa því kannski að við séum flestir í sólbaði í útlöndum. Þetta er auðvitað fjarri öllu lagi og það mundi vonandi kveða niður þennan áróður ef veiðiskyldan yrði aukin á þessum einstaklingum.``

Þetta held ég, virðulegi forseti, að mæli með því að það sé eðlilegt að fara þá leið sem hér er verið að leggja til í frv. sem ég hef verið að mæla fyrir, að það verði ekki sá opnunarmöguleiki sem er í lögunum í dag að menn geti framselt frá sér aflaheimildir á þeim grundvelli að þeir séu að stunda veiðar á hafsvæðum sem þegar er búið að semja um. Og ég get að gefnu tilefni tekið það fram að ég er sjálfur þeirrar skoðunar og tek undir það sjónarmið að eðlilegt sé að auka veiðiskyldu þeirra skipa sem kvótum er úthlutað til. Ég er þess vegna sammála því sem fram kom í máli hv. þm. Ágústs Einarssonar og sammála því sem hinir mætu og góðu menn frá Ólafsfirði halda fram í þessu athyglisverða viðtali í Fréttabréfi Landssambands ísl. útvegsmanna sem barst mér í hendurnar núna rétt áðan.

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér þarf ég ekki að fara mjög mörgum orðum um þetta mál. Ég held að þetta sé allt saman býsna augljóst og sé sanngirnismál sem flestir ættu að geta tekið undir. Ég held að þetta geti orðið liður í því að hjálpa til við að leysa þann sambúðarvanda sem er orðinn svo erfiður núna innan sjávarútvegsins og m.a. helgast af þessum vandræðagangi sem er í kringum framsalið sjálft. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að fyrirkomulag af þessu tagi mundi njóta víðtæks stuðnings innan sjávarútvegsins. Ég hitti mjög marga útgerðarmenn á mínum ferðum sem segja mér að þeir hafi áhyggjur af því hvernig málin hafi þróast og telja sjálfir mjög mikilvægt að skapa frið um atvinnugreinina, hvort sem menn deili síðan um fyrirkomulag fiskveiðistjórnarinnar, og liður í því sé að búa til almennari og skynsamlegri ramma um framsalið.

Ég vil hins vegar jafnframt árétta það í lokin, virðulegi forseti, að gert er ráð fyrir því í þessu frv., sem við fimm hv. þm. erum flm. að, að lögin öðlist þegar gildi. Auðvitað kom það til álita að þessi lög mundu öðlast gildi með nýju fiskveiðiári. Ég tel hins vegar að það sé mjög mikilvægt að taka á þessu vandamáli strax. Fram undan er veiðitímabil t.d. á Flæmska hattinum og á Reykjaneshryggnum sem gæti auðvitað opnað möguleika á þessu óhefta framsali sem ég hef verið að gagnrýna. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að lögin taki gildi strax þannig að menn nái utan um þetta vandamál sem er til staðar þegar breytingin tekur gildi, sem vonandi verður fyrr en síðar.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.