Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 18:48:25 (4152)

1997-03-03 18:48:25# 121. lþ. 82.13 fundur 219. mál: #A stjórn fiskveiða# (kvótaleiga) frv., 263. mál: #A stjórn fiskveiða# (undirmálsfiskur) frv., 341. mál: #A Stjórn fiskveiða# (veiðiskylda) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[18:48]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykn. fór í upphafi nokkrum orðum um stefnu jafnaðarmanna í sjávarútvegsmálum. Ég ætla að þessu sinni að leiða hjá mér að taka upp þann þráð, en vildi gjarnan víkja að efnislegum atriðum þeirra þriggja frumvarpa sem hér liggja fyrir.

Varðandi frv. sem mælir fyrir um að hækka svokallaða 50% reglu upp í 80% þannig að menn verði skyldaðir til þess að veiða 80% annað hvert ár vil ég aðeins segja þetta: Á ársfundum samtaka sjómanna og útvegsmanna fyrr í vetur ræddi ég ýmis þau atriði sem við þyrftum að taka til skoðunar í þeim tilgangi að stemma stigu við þátttöku sjómanna í kvótakaupum. Öllum er held ég ljóst að ekkert eitt atriði getur leitt þar til lausnar en eitt af þeim atriðum sem ég benti á að æskilegt væri að taka til skoðunar og frekari umræðu milli aðila í þessu samhengi var þetta svokallaða 50% ákvæði.

Það er tvennt sem kemur þar til skoðunar, annars vegar hlutfallið sjálft og hins vegar framkvæmdin. Eins og hv. þingmenn vita kom þetta ákvæði upphaflega inn að ósk útvegsmanna og var þá 25%, en var hækkað í 50% árið 1994. Það er vissulega eitt af álitaefnunum hvort hækka eigi þetta hlutfall eins og hér er lagt til. Ég get vel tekið undir að það er álitaefni.

Gallinn við framkvæmdina hefur hins vegar verið sá að menn hafa getað komist fram hjá þessu ákvæði með því að framselja veiðiheimildir skipsins. Eftir að hætt var að gera kröfu til þess að skip væru afskráð af skipaskrá ef þau hefðu ekki veiðiheimildir hefur það verið gert auðveldara en áður var. Hv. flm. minntist einmitt sjálfur á þennan annmarka og það er eitt af þeim atriðum sem menn þurfa að skoða, annars vegar spurninguna um það hvort hægt sé að koma í veg fyrir að menn fari þannig fram hjá ákvæðum laganna og hins vegar hvort það sé svo að ákvæðið verður ekki virkt eins og að er stefnt. Það er auðvitað ágalli á löggjöf ef ekki er hægt að gera hana virka.

Kjarni málsins er sá að þetta er eitt af þeim atriðum sem ég tel eðlilegt að séu til skoðunar í þessu efni þó að fjölmörg önnur atriði hljóti að koma til álita einnig. Þó að erfitt sé að dæma nákvæmlega um hvort það á að vera með þeirri útfærslu sem þetta frv. mælir fyrir um eða ekki, þá er þetta vissulega eitt af þeim atriðum sem eru til skoðunar og ég hef áður lýst þeirri skoðun minni, bæði gagnvart sjómannasamtökunum og samtökum útvegsmanna.

Hitt frv. sem hv. 11. þm. Reykn. mælti fyrir lýtur að undirmálsfiski og heimildum til þess að koma með hann að landi utan kvóta, en gera hluta aflaverðmætisins upptækan til ráðstöfunar fyrir tiltekna aðila. Eins og hv. flm. benti réttilega á hefur þetta verið með ýmsu móti. Um tíma var allur undirmálsfiskur utan kvóta. 1988 markaði sjútvn. þá afstöðu af sinni hálfu að að því skyldi stefnt að allur undirmálsfiskur yrði innan kvóta. Það væri óeðlilegt að halda undirmálsfiski fyrir utan kvóta og nefndin beitti sér í því sambandi fyrir breytingu á því frv. sem þá lá fyrir þinginu þannig að það væri ekki heimilt fyrir ráðherra að reikna allan undirmálsfisk utan kvóta, heldur aðeins hluta af honum. Og það byggðist á stefnumörkun sjútvn. þingsins á þeim tíma.

Núna er verið að framkvæma útfærslu á þessu sem er tillaga samstarfsnefndar sjómanna og útvegsmanna. Í sjálfu sér tel ég að það þyrfti að koma meiri reynsla á þá útfærslu áður en menn gerðu breytingar á því fyrirkomulagi, en það eru fjölmörg álitaefni sem koma hér upp. Ef aðferð eins og þessi felur í sér hvata til að koma með smáfisk eða undirmálsfisk að landi, þá er auðvitað hætta á því að skip breyti venjum sínum frá því sem er í dag. Ég held að flestir reyni að forðast smáfiskasvæðið þegar þeir eru að veiðum en þetta gæti leitt til þeirrar freistingar hjá skipum sem væru til að mynda á heimleið og sigldu yfir smáfiskasvæðið að taka eitt eða tvö holl og koma með smáfisk að landi fyrst hann gæfi einhver verðmæti í aðra hönd. Ef þetta felur hins vegar ekki í sér neinn hvata, þá felur það kannski heldur ekki í sér neina lausn. Ég þori ekki að fullyrða hvort frv. mundi hafa þessi áhrif.

Ég held að í sjálfu sér séu vænlegri leiðir til þess að koma í veg fyrir frákast á undirmáli að loka smáfiskasvæðum. Við höfum verið að gera það á undanförnum árum og lokað stærri hluta af smáfiskasvæðum en nokkru sinni fyrr. Það hefur dregið úr frákasti á undirmálsfiski þó að það heyri því miður auðvitað ekki sögunni til því að það eru engar einfaldar lausnir til í þessu efni. Eins og hv. flm. benti á, þá er einnig verið að þróa nýja möguleika til þess að skilja smáfiskinn frá með smáfiskaskiljum og íslensk fiskiskip eru að feta inn á þær brautir. Það er álitaefni að mínu mati hvort þessar leiðir eru ekki vænlegri til árangurs í þessu efni.

Við verðum líka að athuga að það er álitaefni hvort rétt er að fara inn í kjarasamninga og lög um skiptahlut sjómanna eins og gert er með þessum hætti. Það vekur auðvitað upp þá spurningu hvar Alþingi á að setja takmörk fyrir því hvenær breyta á skiptahlutföllum sjómanna og gæti skapað fordæmi fyrir því að fara inn í skiptahlutföllin undir öðrum kringumstæðum þó að ég viti að það er ekki ætlun hv. flm.

Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna og ráðuneytisins um bætta umgengni um fiskveiðiauðlindina hefur nýlega ákveðið að taka einmitt þetta viðfangsefni til nýrrar skoðunar. Við erum núna að framkvæma þá tillögu sem nefndin kom fram með fyrir einu og hálfu ári eða svo en hún hefur ákveðið að taka þetta efni til nýrrar skoðunar af sinni hálfu. Það hafa oft komið fram hugmyndir af þessu tagi og ég teldi að það væri mjög mikilvægt að nefndin fengi eðlilegt ráðrúm til þess að fara yfir þessi mál og skoða þær hugmyndir sem settar hafa verið fram af þessu tagi áður en þingið hrapaði að niðurstöðu um þetta atriði.

Að því er varðar svo þriðja frv. sem hér er til umræðu og hv. 1. þm. Vestf. mælti fyrir vil ég aðeins segja að ég held að það hafi verið ákveðin rök fyrir því á sínum tíma að 50% reglan gilti ekki að fullu þegar skip voru að vinna Íslandi veiðirétt utan fiskveiðilögsögunnar. Að sama skapi tel ég að það séu alveg gild sjónarmið á bak við þetta frv., að þegar þróunin hefur náð því stigi sem nú er, þegar við höfum komið á fiskveiðistjórn á ýmsum þessum svæðum og úthlutað aflaheimildum, þá eru ekki sömu rök og áður að veikja 50% regluna með þeim frádrætti sem þarna er heimilaður. Ég tel eðlilegt að það mál sé tekið til endurskoðunar.

Herra forseti. Ég vildi aðeins koma þessum almennu athugasemdum að við 1. umr. varðandi þessi þrjú frumvörp.